fbpx
Laugardagur 04.maí 2024
Fréttir

Lækna-Tómas fékk kjánahroll þegar hann sá fólk mótmæla bólusetningum barna

Ritstjórn DV
Sunnudaginn 19. desember 2021 13:00

Tómas Guðbjartsson Mynd: Fréttablaðið

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Tómas Guðbjartsson skurðlæknir segist hafa fengið kjánahroll þegar hann gekk fram á mótmælagöngu hóps fólks gegn bólusetningum barna í miðbænum á laugardag. Aðgerðirnar báru heitið „Friðarganga“ og var safnast saman með mótmælaspjöld fyrir utan Stjórnarráðið. Hátt í tvö hundruð manns tóku þátt í aðgerðunum.

Tómas var í þættinum Sprengisandur á Bylgjunni að ræða um faraldurinn og bólusetningar. Hann sagði:

„Ég fékk hálfgerðan kjánahroll. Þarna voru skilti um „Haraldur faraldur“, það var viðtal við konu í sjónvarpsfréttunum þar sem hún sagði að börn væru notuð sem tilraunadýr. Þetta er algjört bull. Þetta stenst ekki skoðun.“

Sagði Tómas að það væru rangfærslur að verið væri að gera börn að tilraunadýrum með bólusetningum gegn Covid-19. Bóluefnin væru prófuð.

Arnar Þór Jónsson, héraðsdómari og varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins, var með annað sjónarhorn á þessi mál en Tómas og varaði mjög sterklega við skyldubólusetningum eða mismunun á réttindum bólusettra og óbólusettra. Arnar sagði:

 „Ég tel að við séum að fara hér andvaralaust inn á mjög háskalegt svæði þar sem ríkið seilist æ lengra inn á okkar persónulegra svið og virðir ekki þau mörk sem við höfum kennt við friðhelgi einkalífs, yfirráð okkar yfir eigin líkama og yfirráð yfir tjáningu og hugsun. Þá er ég að vísa til alræðis. Ég hef velt því fyrir mér hvort þetta Covid-mál sé einhvers konar trójuhestur sem á að leiða inn nýtt stjórnarfar þar sem lýðræðinu er kippt úr sambandi og við lifum í einhvers konar geðþótta án lýðræðislegrar umræðu. Það er alveg ástæða fyrir því að við kjósum að lifa í lýðræðislegu samfélagi, það til að sem flest sjónarmið komist að.“

Tómas sagðist ekki vera hlynntur skyldubólusetningum en ástandið væri mjög alvarlegt, sérstaklega með tilkomu Ómikron-afbrigðisins sem er mun meira smitandi en fyrri afbrigði. Ástandið væri alvarlega en flestir gerðu sér grein fyrir. Hann benti einnig á að 16 faldur munu væri á nýgengi smita og einkennum veikinda hjá annars vegar bólusettum og hins vegar óbólusettum. Það væru vissulega rök fyrir skyldubólusetningum.

Arnar sagði það rangt og hreinlega goðsögn að bólusettir smiti meira en óbólusettir. Tómas sagðist á hinn bóginn mæla með bólusetningum fyrir bæði börn og fullorðna í ljósi fyrirliggjandi gagna. Tómasi þykir ástandið ískyggilegt:

„Það er eins og það sé stundum Þórólfi að kenna að þessar sóttvarnartakmarkanir séu í gangi, þetta er auðvitað veirunni að kenna. Þetta er almannavarnarástand. Við erum alltaf upp við vegg uppi á spítala. Við erum alltaf í 100 til 110 prósent innlögnum á gjörgæslunni. Nú er þessi Ómíkron bylgja að fara að skella á okkur. Ég bið til Guðs hvernig það verður.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

María Sigrún fær uppreist æru – Fréttaskýringin sem var stöðvuð verður sýnd á mánudaginn

María Sigrún fær uppreist æru – Fréttaskýringin sem var stöðvuð verður sýnd á mánudaginn
Fréttir
Í gær

Vilhjálmur spyr hvort ríkið ætli að láta Harald komast upp með að hafa gefið starfsmönnum hundruði milljóna í heimildaleysi

Vilhjálmur spyr hvort ríkið ætli að láta Harald komast upp með að hafa gefið starfsmönnum hundruði milljóna í heimildaleysi
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Fordæma skemmdarverk á Útilegumanninum

Fordæma skemmdarverk á Útilegumanninum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Land heldur áfram að rísa í Svartsengi

Land heldur áfram að rísa í Svartsengi
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Kjartan vill að stakir frídagar verði færðir að helgum: Slíta í sundur vinnuvikuna og valda margvíslegu ónæði

Kjartan vill að stakir frídagar verði færðir að helgum: Slíta í sundur vinnuvikuna og valda margvíslegu ónæði
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Bandaríkin sendu Úkraínu nýtt vopn með mikilli leynd

Bandaríkin sendu Úkraínu nýtt vopn með mikilli leynd