fbpx
Sunnudagur 29.maí 2022
Fréttir

Rígmontinn Rússi leggur til atlögu við þann besta í skugga landflótta undrabarns

Björn Þorfinnsson
Föstudaginn 26. nóvember 2021 13:05

Heimsmeistarinn Magnus Carlsen og áskorandi hans, Ian Nepommniachti. Mynd/FIDE

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í dag hefst langþráð heimsmeistaraeinvígi í skák í Dubai milli ríkjandi heimsmeistara, Norðmannsins Magnus Carlsen, og áskoranda hans, Ian Nepommniachti (hér eftir Nepó), frá Rússlandi. Norðmaðurinn ótrúlegi hefur haldið heimsmeistaratigninni frá árinu 2013 þegar hann hrifsaði titilinn af Tígrisdýrinu frá Madras, Indverjanum Vishy Anand. Síðan þá hefur Carlsen varið titilinn þrisvar sinnum, einu sinni gegn Anand og síðan gegn Bandaríkjamanninum Fabiano Caruana og Rússanum Sergey Karjakin.

Margir telja þó að Nepó geti orðið hættulegasti andstæðingur Carlsen jafnvel þó að afrekaskrá Rússans sé ekki næstum því jafnglæsileg og Norðmannsins. Á meðan Magnus er óumdeildur sem besti skákmaður heims þá situr Nepó í fimmta sæti listans og státar af fáum stórum sigrum.

Ástæðan fyrir því að sérfræðingar telja að Nepó eigi sjéns er ekki síst sú að rígmontnari menn eru varla til en Rússinn og hann er í þokkabót með yfirhöndina í innbyrðisviðureignum sínum við Carlsen.  Þeir hafa mæst þrettán sinnum, Nepó hefur unnið fjórar skákir, Carlsen eina og átta hafa endað með jafntefli. Rétt er þó að geta þess að flestir sigrar Nepó áttu sér stað þegar þeir voru báðir á barnsaldri.

Í viðtali fyrir einvígið sagði Nepó að áður fyrr hafi ofgnótt af sjálfstrausti verið einn af hans stærstu göllum. Hann hafi einfaldlega ekki borið neina virðingu fyrir andstæðingum sínum og talið það nánast formsatriði að valta yfir andstæðinga sína.  Hann hefur að eigin sögn þroskast og ber núna hæfilega virðingu fyrir andstæðingunum og þá sérstaklega Carlsen.

Keppinautarnir eru jafngamlir og mættust fyrst á heimsmeistaramóti 12 ára yngri á sínum tíma. „Hann tefldi ágætlega en ég varð ekki var við neina stórkostlega hæfileika,“ sagði Nepó í áðurnefndu viðtali enda vann hann skákina auðveldlega.

Magnus Carlsen um það leyti sem Nepó taldi hann bara skítsæmilegan

Ári seinna mættust þeir aftur á sama móti og þá hafði Carlsen tekið miklum framförum. Í síðustu umferðinni tapaði hins vegar Norðmaðurinn óvænt og Nepó hirti heimsmeistaratitilinn á ögurstundu. Hefur það verið rifjað upp fyrir einvígið nú að minning Magnúsar af því að Nepó hafi verið að hrósa andstæðingi hans í sigurvímu sé enn afar sár.

Það skyldi þó enginn ætla að Magnus Carlsen sé lítill í sér í byrjun titilvarnarinnar. Hann hefur verið stigahæsti skákmaður heims í rúman áratug og haldið heimsmeistaratigninni í átta ár. Flestir sérfræðingar telja að hann sé besti skákmaður sögunnar og þeir sem eru á öndverðum meiði eru hreinlega bara með fordóma því Carlsen á það til að tefla frekar þurrt og leiðinlega. Það er mín persónulega skoðun!

Til marks um sjálfstraust Carlsen þá var hann spurður að því á dögunum hvað væri helsta forskot hans í komandi einvígi. „Ég er betri að tefla,“ sagði Carlsen pollrólegur.

Það er þó ekki víst að hann verði svo rólegur í sjálfu einvíginu. Maðurinn með flókna nafnið er nefnilega mikið ólíkindatól og sumir telja að hann fari hreinlega í taugarnar á Carlsen. Það er ekki síst vegna þess að Nepó teflir yfirleitt á leifturhraða en Magnus er vanur því að andstæðingar hans liggi í þungum þönkum og nýtur þess að brugga þeim launráð á þeirra umhugsunartíma.

Þá telja margir að hugmyndaauðgi Nepó og árásargirni hans geti valdið heimsmeistaranum vandræðum.

En það sem er kannski hættulegast er hinn nýji metnaður sem Nepó hefur lagt í skákina undanfarin ár. Hann hafði orð á sér að vera húðlatur og treysti helst á hæfileika sína frekar en stífan undirbúning. Það hefur þó heldur betur breyst og Nepó hefur lagt gríðarlega mikið á sig, bæði á skákborðinu en ekki síður í ræktinni. Þetta er tækifæri lífs hans og hann ætlar að grípa það.

Ivan Nepó í æfingabúðum

Rússar eru stærsta og voldugasta skákþjóð heims og þeim svíður það sárt að í rúm 14 ár hefur heimsmeistaratitillinn verið í höndum fulltrúa annarra þjóða. Nepó hefur því fengið gríðarlegan stuðning heiman frá og hefur fengið afnot af öflugustu ofurtölvu Rússlands til þess að greina allar mögulegar og ómögulegar stöður sem gætu komið upp í einvíginu. Það má því vel ímynda sér löðursveitan Nepó umkringdan vítistólum eins Ivan Dragó forðum. Það er frekar ógnvekjandi tilhugsun fyrir vinalegan Norðmann.

Fyrir þá sem eru djúptsokknir í skákina þá er staðan samt sú að heimsmeistaraeinvígið er að einhverju leyti haldið í skugga undrabarns sem skotist hefur uppá stjörnuhimininn. Sá heitir Alireza Firouzja og er 18 ára skáksnillingur frá Íran. Hann flúði land fyrir nokkrum árum sökum ónógs stuðnings yfirvalda auk þess sem að stífar kröfur, meðal annars um að mæta ekki til leiks ef hann átti að mæta skákmönnum frá Ísrael, urðu til þess að ungstirnið ákvað að leita annað.

Firouzja hefur heimsótt Ísland og um tíma var það meira að segja langsótt hugmynd að hann myndi flytjast hingað við heimskautabaug. En örlögin höguðu því þannig að Firouzja settist að í Frakklandi og síðan hefur ferill hans sprungið út. Ótrúleg sigurganga hans undanfarin misseri hefur leitt til þess að hann er núna næst stigahæsti skákmaður heims, á eftir Carlsen, og það þrátt fyrir ungan aldur. Meðal annars vann hann risastórt mót, FIDE Grand Prix, sem tryggði honum rétt til þátttöku í næsta áskorendamóti þar sem teflt verður um réttinn til að skora á ríkjandi heimsmeistara.

Undradrengurinn Alireza Firouzja

Flestir skákáhugamenn vona að Carlsen leggi Nepó að velli, þó eftir blóðuga og skemmtilega baráttu, og að skákheimurinn fái þá gjöf að fá einvígi Magnúsar og Firouzja næst.

Fyrsta einvígis skákin er hafin og er rétt að benda áhugasömum á umfjöllun skák.is um einvígið þar sem hægt er að finna allar upplýsingar um hvernig best er að fylgjast með.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 3 dögum

Bandaríkjastjórn íhugar að senda sérsveitarmenn til Úkraínu

Bandaríkjastjórn íhugar að senda sérsveitarmenn til Úkraínu
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Forsetinn vildi ekki hitta Gunnar vegna sómölsku kvennanna sem á að vísa úr landi

Forsetinn vildi ekki hitta Gunnar vegna sómölsku kvennanna sem á að vísa úr landi
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Ákærður fyrir að reyna að koma fölsuðum peningaseðlum í umferð

Ákærður fyrir að reyna að koma fölsuðum peningaseðlum í umferð
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Þunguð kona sleppur við brottvísun að sinni

Þunguð kona sleppur við brottvísun að sinni