fbpx
Laugardagur 27.nóvember 2021
Fréttir

Tölvuþrjótar kunna að hafa komist yfir tölvupósta starfsfólks HR

Ritstjórn DV
Föstudaginn 22. október 2021 15:29

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Greiningarvinna eftir tölvuárás á póstþjón Háskólans í Reykjavík í síðustu viku hefur leitt í ljós að tölvuþrjótar gætu mögulega hafa komist yfir tölvupósta starfsmanna. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá skólanum.

Í byrjun vikunnar var greint frá því að tölvuárás hefði verið gerð á póstþjón HR í síðustu viku og tölvupóstum starfsfólks læst. Eng­in gögn töpuðust þó þar sem af­rit var af póstþjón­in­um.  Óvissa var um  hvort hakk­ar­arn­ir hafi kom­ist yfir tölvu­pósta í árás­inni en þær upplýsingar sem nú liggja fyrir benda til þess að hætta sé á að tölvuþrjótum hafi tekist að komast yfir pósta starfsmanna að hluta eða í heild. Enn sem komið er, er þó ómögulegt að segja til um hvort það hafi raunverulega gerst.

Frá því árásanna varð vart hefur starfsfólk upplýsingatækni háskólans, í samstarfi við sérfræðinga í netöryggismálum frá fyrirtækjunum Syndis og Advania, unnið að því að greina hættu á gagnaleka og líklega atburðarás.

Í áðurnefndri tilkynningu frá HR kemur fram að stjórnendur skólans telji mikilvægt að upplýsa um málið, með yfirliti um stöðuna, um mögulegar afleiðingar ef gagnaleki hefur orðið og til hvaða ráðstafana hefur verið gripið.

Yfirlit um árásina

Komið hefur í ljós að frá byrjun júní var HR á lista yfir póstþjóna með tiltekinn veikleika, en sá veikleiki var líklega notaður til að komast inn á þjóninn. Greiningarvinna hefur leitt í ljós að frá þeim tíma hafa tölvuþrjótar tvisvar komið spilliforriti inn á póstþjóna HR. Ekki er hægt að fullyrða að um sömu aðila hafi verið að ræða í bæði skiptin. Í lok ágúst var spilliforrit á póstþjónum HR í a.m.k. fjóra daga, en í tæpan sólarhring í síðustu viku. Ekki eru til atburðaskrár frá þessum dögum í ágúst og því ekki hægt að rekja hvað spilliforritið gerði á þessum tíma og hvort það hafi afritað tölvupósta og sent úr húsi.

Annar póstþjónanna sem ráðist var á hefur verið í notkun síðustu daga en verður nú tekinn úr umferð. Sérstakar varúðarráðstafanir hafa verið í kringum þennan póstþjón alla vikuna frá því að árásin uppgötvaðist og því er talið ólíklegt að leki hafi stafað frá honum frá því að upp komst um árásina.

Búið er að leita að sporum eftir samskonar spilliforrit á öllum öðrum netþjónum og kerfum HR en engin slík spor hafa fundist annars staðar en á póstþjónunum tveimur.

Ef tölvupóstum verður lekið á netið

Ef til kæmi að tölvupóstum starfsmanna yrði lekið á netið gæti það, miðað við reynslu annarra af slíkum tölvuglæpum, verið gert á ýmsan máta. Tölvupóstar gætu verið birtir á opnum vefsvæðum með leitarviðmóti, þeir gætu birst á hulduvefnum, starfsmenn og aðrir aðilar sem fjallað er um í tölvupóstum starfsmanna gætu fengið senda pósta með afritum af tölvupóstum og hótunum um leka ef lausnargjald væri ekki greitt o.s.frv. Ef til þess kemur að við fáum upplýsingar um slík gögn á netinu verða hlutaðeigandi látin vita af því strax. Starfsfólk verður hér eftir sem hingað til upplýst um þróun málsins jafnóðum og myndin skýrist.

Ráðstafanir vegna árásarinnar 

Þó þessar upplýsingar megi túlka sem svo að hlutir horfi nú til verri vegar er rétt að benda á að samkvæmt sérfræðingum hefur í raun ekki mikið breyst varðandi líkur á að um gagnaleka hafi verið að ræða. Áfram verður unnið að greiningu og fyrirbyggjandi aðgerðum til að koma í veg fyrir að eitthvað viðlíka geti gerst aftur. Meðal ráðstafana sem gripið hefur verið til er að setja upp viðbótarvarnir á póstþjónana ásamt því að auka vöktun.

Ragnhildur Helgadóttir

Ragnhildur Helgadóttir, rektor Háskólans í Reykjavík segir mikilvægt að háskólinn upplýsi um allt sem vitað er í tengslum við þessa árás. Hún minnir á að ekki sé enn vitað hvort póstar hafi verið afritaðir en mikilvægt sé að sýna varfærni og hafa allt upp á borðum:  ,,Þetta er óþægilegt fyrir okkur öll og mér þykir afar leitt að þessi staða sé uppi. Ég minni á að við vitum ekki hvort póstar voru afritaðir og þó svo væri, hvort einhver hyggist gera eitthvað við afritin. Við erum að vera varfærin og upplýsa um allt strax. Það, ásamt því að neita að borga lausnargjald og neita að skammast okkar fyrir að verða fyrir árás sem eru algengar og úti um allt, er það besta sem við getum gert í stöðunni og í bestu samræmi við það hvernig vinnustaður við viljum vera. Svo það er línan, auk þess að læra af reynslunni og styðja vel hvert við annað,“ segir Ragnhildur.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Eigandi þekktrar vegasjoppu fyrir dóm vegna ólöglegs vinnuafls

Eigandi þekktrar vegasjoppu fyrir dóm vegna ólöglegs vinnuafls
FréttirMatur
Fyrir 23 klukkutímum

Hin fræga Sara er komin aftur með bragðið af jólunum

Hin fræga Sara er komin aftur með bragðið af jólunum
Fréttir
Í gær

Orðið á götunni: Mexíkóreisa Dags borgarstjóra veldur titringi – Heiða Björg sögð sniðgengin

Orðið á götunni: Mexíkóreisa Dags borgarstjóra veldur titringi – Heiða Björg sögð sniðgengin
Fréttir
Í gær

Sveitarstjórn Húnaþings þreytt á biðinni og samþykkti að hópfjármagna nýjan Vatnsnesveg á Karolina Fund

Sveitarstjórn Húnaþings þreytt á biðinni og samþykkti að hópfjármagna nýjan Vatnsnesveg á Karolina Fund
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Benedikt segir „hrikalegar fréttir“ berast út um bakdyr Ráðhússins á Akureyri – Veltir fyrir sér hvort brögð séu í tafli

Benedikt segir „hrikalegar fréttir“ berast út um bakdyr Ráðhússins á Akureyri – Veltir fyrir sér hvort brögð séu í tafli
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Óbólusettum meinaður aðgangur í Mæðrastyrksnefnd – „Við erum að reyna að gera rétta hluti“

Óbólusettum meinaður aðgangur í Mæðrastyrksnefnd – „Við erum að reyna að gera rétta hluti“