fbpx
Laugardagur 23.janúar 2021
Fréttir

Búið að leggja niður Leitarstöð Krabbameinsfélagsins – Deilt um ágæti nýja fyrirkomulagsins

Erla Hlynsdóttir
Mánudaginn 11. janúar 2021 19:00

Hér sést hinn svokallaði goggur sem notaður er þegar sótt eru leghálssýni Mynd/Getty

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Krabbameinsskimanir voru færðar frá Krabbameinsfélaginu til opinberra stofnana um áramótin. Framkvæmdastjóri Krabbameinsfélagsins undrast að aðeins eigi að leita tilboða vegna eins verkþáttar. Konur fyllast kvíða vegna þeirrar breytingar að hópskimun vegna brjóstakrabbameins hafi verið seinkað um tíu ár.

Leitarstöð Krabbameinsfélags Íslands var lögð niður um áramótin þegar skimun fyrir krabbameinum færðist til opinberra stofnana, í samræmi við ákvörðun heilbrigðisráðherra frá árinu 2019. Skimun fyrir krabbameini í leghálsi fluttist þá til heilsugæslunnar en Landspítali tók við skimunum fyrir krabbameini í brjóstum, í samvinnu við Sjúkrahúsið á Akureyri.

Húsnæði Landspítalans er ekki tilbúið og hann leigir því aðstöðu og búnað af Krabbameinsfélagi Íslands að Skógarhlíð fyrir skimanir vegna brjóstakrabbameins fram á vormánuði þegar þjónustan flyst á Eiríksgötu.

Þá hefur verið sett á fót Samhæfingarmiðstöð krabbameinsskimana sem heyrir undir Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins en starfar á landsvísu.

Opnað var fyrir tímapantanir í skimun fyrir leghálskrabbameini 4. janúar og fyrir skimun vegna brjóstakrabbameins 6. janúar.

Bara 500 krónu komugjald

Kristján Oddsson, svæðisstjóri og fagstjóri lækninga á Heilsugæslunni Hamraborg, verður fyrir svörum þegar blaðamaður hefur samband við Samhæfingarstöðina. Hann segir lausa tíma í skimun vegna brjóstakrabbameins samdægurs og reiknar með að það sé hægt að fá fljótt tíma á þeim nítján heilsugæslustöðvum á höfuðborgarsvæðinu sem bjóða upp á skimanir vegna leghálskrabbameins.

Aðeins þarf að greiða komugjald á heilsugæslustöð til að fá leghálsskimun en komugjaldið var lækkað niður í 500 krónur um áramótin. Hann bendir á að ekki er nauðsynlegt að fara á þá stöð sem fólk er skráð á heldur getur það farið á þá heilsugæslustöð sem best hentar í það skiptið. Kristján segir allt ganga samkvæmt áætlun. „Þetta hefur gengið vonum framar,“ segir hann.

Kristján er fyrrverandi yfirlæknir og forstjóri Krabbameinsfélagsins en hefur verið afar gagnrýninn á starfsemi þess síðan honum var sagt upp störfum árið 2017. „Það tíðkast hvergi í heiminum að sérhagsmunasamtökum sé falin svona skimun,“ segir hann og er mjög ánægður með flutninginn. „Rekstur heilsugæslunnar á skimununum er miklu ódýrari en hann var áður. Hér er allt gert á faglegum grunni. Ég held að þessar breytingar séu stórt framfaraskref, eitt það stærsta hefur verið tekið í áratugi,“ segir hann.

Ljósmæður og hjúkrunarfræðingar, sem hafa hlotið sérstaka þjálfun, taka leghálssýni á heilsugæslustöðvunum á höfuðborgarsvæðinu með sama hætti og ljósmæður og hjúkrunarfræðingar hafa gert á heilsugæslustöðvum á landsbyggðinni.

Hætta á þekkingarleka

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknar, spurði Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra um eftirfarandi í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi þann 7. desember síðastliðinn: „Til stendur að flytja eigi úr landi smásjárskoðun frumusýna. Er þá ekki hætta á þekkingarleka og ófyrirsjáanleika í þeim málefnum og að þekking á þessum málum haldist ekki hér á landi?”

Í svari Svandísar sagði: „Rannsóknir frumusýna auk HPV-sýna verða tímabundið gerðar erlendis á meðan unnið er að fyrirkomulagi til lengri tíma. Ekki hefur verið tekin endanleg ákvörðun um það hvar frumusýnin verða rannsökuð eftir að tímabundinn samningur rennur út. Landlæknir lagði til að úrlestur á frumusýnum yrði á Landspítala en sjúkrahúsið er ekki í stakk búið til þess að taka strax við því verkefni enda hefur álagið á sjúkrahúsið verið mikið undanfarið vegna COVID eins og öllum er kunnugt.“

Leita tilboða

DV sendi fyrirspurn til heilbrigðisráðuneytisins og spurði hvort ásættanlegt væri að úthýsa greiningarvinnu sem hefur verið gerð á Íslandi með góðum árangri um árabil frá landinu, og enn fremur: „Telur ráðherra það réttlætanlegt í ljósi þess að þar gætu verið að tapast störf og sérþekking sem verður að teljast bagalegt í einu mesta atvinnuleysi sem þjóðin hefur glímt við og það einnig á tímum þegar ríkið sjálft hefur ráðist í margþættar aðgerðir til að skapa störf og spyrna við auknu atvinnuleysi, sem og kemur það ekki til með að auka mikið biðtíma eftir niðurstöðum sem nú þegar er nokkuð löng bið?“

Í svari frá ráðuneytinu segir að málið sé í höndum forstjóra Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins sem hefur það umboð að leita allra þeirra lausna sem best þjóna hagsmunum notenda bæði til lengri og skemmri tíma.

„Ákvörðun um fyrirkomulag greininga á sýnum er einnig í samræmi við það sem Heilsugæslan telur góða lausn og ráðuneytið styður þá niðurstöðu,“ segir í svarinu og bent á að Sjúkratryggingum Íslands hafi verið falið að leita samninga við aðila sem getur tekið að sér skoðun frumsýna til skamms tíma meðan unnið er að útboði og fyrirkomulagi til lengri tíma.

Henda sérfræðiþekkingu

Halla Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsfélagsins, segir það skjóta skökku við að aðeins eigi að leita tilboða vegna þessa eina verkþáttar þegar aðrir þættir voru einfaldlega færðir frá Krabbameinsfélaginu til opinberra stofnana.

Flestum þeirra starfsmanna sem unnu hjá Leitarstöðinni var boðin vinna hjá þeim stofnunum sem taka við skimununum. Enginn þeirra starfsmanna sem unnu við að rannsaka sýni úr leghálsi var boðið starf, eftir lokun Leitarstöðvar enda virðist eiga að senda sýni til útlanda, tímabundið hið minnsta.

„Hér á landi er geta til að sinna þessum rannsóknum. Landspítalinn vinnur hluta þeirra nú þegar, mælingar á HPVveirum og nú er verið að taka í notkun 100 milljóna króna tæki sem afkastar mjög miklu. Á spítalanum er hins vegar ekki starfsfólk sem er sérhæft í frumurannsóknum ekki frekar en þar var ekki sérhæft starfsfólk í brjóstamyndatökum. Varðandi brjóstaskimanirnar var starfsfólki Krabbameinsfélagsins einfaldlega boðin vinna á Landspítalanum og auðvitað hefði verið leikur einn að gera hið sama varðandi frumurannsóknirnar. Það var bara ekki gert,“ segir Halla.

Hún bendir á að þetta sé vel menntað og duglegt starfsfólk, læknir, líffræðingur og lífeindafræðingar með mjög sérhæfða þekkingu og langa þjálfun.

„Ég held að það sé frekar skortur á lífeindafræðingum í landinu en hitt og ef þessar rannsóknir verða færðar úr landi tímabundið verða þeir líklega búnir að ráða sig í önnur störf ef til þess kemur að færa rannsóknirnar aftur heim. Þeirra þekking er þá farin úr þessum sérhæfða geira og það tekur langan tíma að þjálfa upp nýtt fólk. Mér finnst óskiljanlegt að það sé verið að færa heilbrigðisþjónustu úr landi. Stefnan hefur frekar verið að færa hingað þjónustu sem við höfum verið að kaupa erlendis. Með þessu er verið að henda sérfræðiþekkingu og búa til störf fyrir ófaglærða við pökkun og sendingu sýna,“ segir hún.

Ákvörðun frá 2019

Samkvæmt heilbrigðisráðuneytinu er markmið flutnings skimana að færa verklag nær því skipulagi sem mælt er með í alþjóðlegum skimunarleiðbeiningum til að tryggja enn frekar öryggi og gæði og er jafnframt í samræmi við framtíðarsýn og meginmarkmið heilbrigðisstefnu til ársins 2030. Landlæknir kynnti fyrir heilbrigðisráðherra tillögur þess efnis í byrjun árs 2019 og þar með um framtíðarskipulag krabbameinsskimana.

Tillögurnar voru í samræmi við niðurstöður skimunarráðs og tillögur þess um að færa framkvæmd skimana inn í opinbera heilbrigðiskerfið. Heilbrigðisráðherra fól verkefnastjórn að útfæra tillögurnar og tók formlega ákvörðun um að hrinda breytingunum í framkvæmd 1. janúar 2021.

Mikil umræða var á haustmánuðum um að leghálssýni hefðu verið ranglega greind hjá Krabbameinsfélaginu eftir að kona fékk rangar niðurstöður og greindist með ólæknandi krabbamein. Í framhaldinu endurskoðaði Krabbameinsfélagið þúsundir sýna og miklar tafir urðu á greiningu. Ýmsir hafa tengt flutning sýnatökunnar við þessi mistök en eins og fram hefur komið var ákvörðunin tekin mun fyrr.

Seinka brjóstaskimun um 10 ár

DV beindi þeirri spurningu til ráðuneytisins hvort flutningurinn myndi ekki leiða til skertrar þjónustu við þær sem þurfa á legháls- og brjóstaskoðunum að halda. Í svari ráðuneytis segir það sannarlega tryggt. „Flutningurinn mun leiða til enn betra aðgengis að þjónustu en áður. Einstaklingum stendur til boða að bóka tíma hjá heilsugæslu um land allt í leghálsskimun og hjá LSH og SAk í brjóstaskimun. Engin breyting er því á því fyrirkomulagi sem verið hefur utan höfuðborgarsvæðisins en á höfuðborgarsvæðinu mun leghálsskimun færast frá Skógarhlíð til heilsugæslustöðva á höfuðborgarsvæðinu. Jafnframt stendur konum til boða líkt og áður að bóka tíma hjá kvensjúkdómalæknum.“

Enn fremur var því beint til heilbrigðisráðherra hvort þetta hafi í raun verið góð tímasetning, sérstaklega í ljósi álag á heilsugæslu og spítala vegna COVID. „Þessi ákvörðun var tekin fyrir nokkuð löngu síðan og ekki ástæða til að ætla annað en að opinbera heilbrigðiskerfið geti vel tekið að sér þetta verkefni,“ segir í svari ráðuneytis.

Við breytingarnar verður brjóstaskoðun 40 ára kvenna hætt og í staðinn verða konur fyrst boðaðar í skimun 50 ára. Ráðuneytið segir þessa breytingu í samræmi við álit skimunarráðs. Í áliti skimunarráðs og minnisblaði landlæknis er lagt til að lýðgrunduð skimun meðal kvenna sem ekki eru í sérstökum áhættuhópum miðist við aldurshópinn 50-74 ára.“

Um 30 konur á aldrinum 40-49 ára greinast að jafnaði árlega með brjóstakrabbamein hér á landi og hefur breytingin hlotið nokkra gagnrýni.

Greinin birtist fyrst í helgarblaði DV sem kom út 9. janúar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Ísland nýsmitlaust í gær

Ísland nýsmitlaust í gær
Fréttir
Í gær

Tölvuþjófurinn úr þinghúsinu laus úr haldi með ökklaband – Kennir Trump um athæfi sitt

Tölvuþjófurinn úr þinghúsinu laus úr haldi með ökklaband – Kennir Trump um athæfi sitt
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Lögreglan lýsir eftir Seljaskólaperranum – Var með grímu

Lögreglan lýsir eftir Seljaskólaperranum – Var með grímu
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Mannanafnanefnd aftur farin á stjá – Sótt um Aquamann og Viðey

Mannanafnanefnd aftur farin á stjá – Sótt um Aquamann og Viðey
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Þóttust vera eftirlitsmenn frá MAST og lokuðu hundagæslu

Þóttust vera eftirlitsmenn frá MAST og lokuðu hundagæslu
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Skólabílstjóri sem sakaður var um kynferðislega áreitni tapar skaðabótamáli gegn Dalabyggð

Skólabílstjóri sem sakaður var um kynferðislega áreitni tapar skaðabótamáli gegn Dalabyggð