fbpx
Miðvikudagur 02.júlí 2025
Fréttir

Ragnheiður varð sjóðandi ill þegar hún sá bréfið: Tryggingastofnun vildi fá pening látins eiginmanns hennar til baka – „Þetta er þjófnaður!“

Máni Snær Þorláksson
Föstudaginn 27. ágúst 2021 17:00

Samsett mynd. Mynd af Ragnheiði tekin af vef Hringbrautar.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ragnheiður Jósefsdóttir, íbúi á Tálknafirði, var í sumar rukkuð um rúmar 145 þúsund krónur af Tryggingastofnun. Skuldin sem um ræðir er vegna greiðslna úr lífeyrissjóði eiginmanns Ragnheiðar en hann lét lífið í upphafi ársins. Hringbraut greindi frá málinu fyrr í dag.

Ragnheiður skrifaði bréf til Tryggingastofnunar sem hún birti á Facebook í von um að flestir sjái efni bréfsins. „Tilefni þessa bréfs er vegna bréfs dagsett 11 júní síðastliðinn sem ég fékk frá ykkur. Þar kemur fram að ég skuldi Tryggingastofnun 145.836kr, vegna ofgreiðslna. Ég hugsaði bara, hver fjandinn er í gangi og ég varð alveg sjóðandi ill,“ segir Ragnheiður í bréfinu.

„Svo kom i ljós að þetta var vegna greiðslna úr lífeyrissjóði mannsins míns, en hann lést 31. janúar síðastliðinn. Og ekki nóg með það, heldur minnkuðu greiðslur til mín frá Tryggingastofnun um um það bil 30.000kr á mánuði, og á ég þá við útborgað.“

„Þetta er þjófnaður!

Ragnheiður spyr við hverju hún má búast við næst. „Hvers vegna má maður ekki hafa þetta í friði? Ég veit að ég er ekki ein um að lenda í þessu og ég segi fyrir hönd allra sem verða fyrir þessu, þetta er þjófnaður! Lögverndaður þjófnaður. Þið passið upp á það eins og sjáöldur augna ykkar að við fáum ekki einni krónu meira en það sem okkur er skammtað, eins og skítur úr hnefa,“ segir hún.

„Ég spurðist fyrir um hvernig það væri með 100 þúsundin sem var sagt að við mættum þéna á mánuði án þess að það myndi skerða bætur. Jú, svörin voru þau að það væri vegna vinnu, ekki lífeyrissjóðsgreiðslna. En af hverju eru þá lífeyrissjóðsgreiðslurnar kallaðar laun.“

Þá spyr Ragnheiður þá sem vinna á Tryggingastofnun hvernig þeim fyndist ef laun fyrir aukavinnu yrði dregin af föstu laununum þeirra. „Þið mynduð að öllum líkindum svara að það væri allt annað mál. Nei! Það er ekki allt annað mál, það er alveg það sama og verið er að gera okkur,“ segir hún

„Þegar maki fellur frá þá minnka tekjur heimilisins um 50% eða jafnvel meira. En rekstur heimilisins minnkar ekkert. Fasteignagjöld verða þau sömu. Upphitunarkostnaður, rafmagn, viðhald á húsi, rekstur á bíl og margt margt fleira er það sama. Það eina sem minnkar örlítið er matarkostnaður en þó ekki teljandi. Mér virðist að þið sem stjórnið þessu, gerið ykkur ekki grein fyrir þessu, ekki skilja eða viljið ekki skilja þetta.“

„Ég held að margir geri sér ekki grein fyrir hvernig er farið með okkur“

Að lokum veltir Ragnheiður því fyrir sér hvort það sé ekki kominn tími á að farið sé að hugsa um að ellilífeyrisþegar og öryrkjar eru fókk. „Við viljum lifa mannsæmandi lífi. Ég vil nefna svona hinsegin að nú er komið að miklum endurbótum og viðhaldi á húsinu mínu sem gæti kostað einhverjar miljónir og ég þurfti í vor að fá mér heyrnartæki sem kostuðu 500.000 krónur. Þið takið kannski tillit til svona mála? HAHAHA…bjartsýn ég!“ segir hún.

„Fyrir hönd allra sem í þessu lenda, er mál að linni. Hvernig stjórnvöld fara með okkur! Ég mun einnig birta þetta bréf í fjölmiðlun til þess að alþjóð sjái hversu svívirðilega er farið með okkur og hvers þeir mega vænta sem eiga eftir að ganga í gegnum það að verða eldri borgarar eða öryrkjar. Ég held að margir geri sér ekki grein fyrir hvernig er farið með okkur.

Svo þegar öryrki verður eldri borgari þá minnka bæturnar, sennilega vegna þess að hann er ekki öryrki lengur, heldur eldri borgari. Ég segi enn og aftur, það er mál að linni árásum á eldri borgara og öryrkja.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Yfirmaður Alþjóða kjarnorkumálastofnunarinnar sáir efasemdum um orð Trump

Yfirmaður Alþjóða kjarnorkumálastofnunarinnar sáir efasemdum um orð Trump
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Er forseti Kína á útleið? – Hreinsanir sagðar hafnar

Er forseti Kína á útleið? – Hreinsanir sagðar hafnar