Samkvæmt svari heilbrigðisráðuneytisins við fyrirspurn sem aðgerahópurinn „Aðför að heilsu kvenna“ um leghálsskimanir var sú ákvörðun tekin að láta rannsaka sýnin erlendis út af „alvarlegum gæðavandamálum“ sem hafi verið hjá Krabbameinsfélagi Íslands, en með því að senda sýnin út væri öryggi kvenna og gæði rannsókna betur tryggð.
Krabbameinsfélagið hefur nú gert athugasemdir við þessi svör ráðuneytisins.
„Í fjölmiðlum hefur verið fjallað um bréf frá Heilbrigðisráðuneyti dags. 25. ágúst, undirritað af Ástu Valdimarsdóttur ráðuneytisstjóra og Ásthildi Knútsdóttur, skrifstofustjóra fyrir hönd heilbrigðisráðherra til hópsins Aðför að heilsu kvenna.
Eins og fjallað hefur verið um segir meðal annars í bréfinu að „í kjölfar alvarlega gæðavandamála í fyrri skimunarstarfsemi, eins og fram kom í skýrslu embættis landlæknis „Hlutaúttekt á Leitarstöð KÍ“ taki ráðuneytið taki undir „að öryggi kvenna og gæða rannsókna á leghálssýnum væri best tryggt með samningi við rannsóknarstofu Hvidovre-sjúkrahússins“.“
Krabbameinsfélagið segir það ljóst af svörum ráðuneytisins að verið sé að vísa til frumurannsóknarstofu Leitarstöðvar Krabbameinsfélagsins. Félagið segir ekki hjá því komist að leiðrétt rangfærslur og eftiráskýringar sem felist í svari ráðuneytisins í tilkynningu sem send var fjölmiðlum.
„Ekki verður hjá því komist að leiðrétta alvarlegar rangfærslur og eftiráskýringar í bréfinu.
1) Þegar ákvörðun um að flytja rannsóknir á leghálssýnum til Hvidovre-sjúkrahússins í Danmörku lá ekkert faglegt mat á gæðum rannsóknarstofu Leitarstöðvar Krabbameinsfélagsins fyrir.
2) Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins tók við leghálsskimunum þann 1. janúar 2021 og samdi við rannsóknarstofu Hvidovre-sjúkrahússins um rannsóknirnar. Niðurstöður hlutaúttektar embættis landlæknis á Leitarstöð KÍ voru hins vegar birtar tveimur mánuðum síðar þann 24. febrúar 2021 og því ómögulegt að ákvörðunin byggði á úttektinni.
3) Í bréfinu er sett fram órökstudd staðhæfing, sem er í ósamræmi við niðurstöður hlutaúttektar Embættis landlæknis. Staðhæft er að alvarleg gæðavandamál hafi verið hjá Leitarstöð en niðurstöður embættis landlæknis voru „…einkum þær að ákveðna hluta innra gæðaeftirlits hefði verið hægt að nýta betur til að hafa yfirsýn á gæði frumugreininga í heild”. Orðalagið í bréfinu er óneitanlega útblásin túlkun á þeim niðurstöðum.“
Krabbameinsfélagið vísar til þess að þegar ákvörðun var tekin um að flytja krabbameinsskimanir frá Leitarstöð til opinbera stofnana í byrjun 2019 hafi rökin meðal annars verið þau að með þessari breytingu yrði skipulag skimana meira í samræmi við það sem gerist í öðrum löndum.
„Engar athugasemdir höfðu verið gerðar við gæðamál Leitarstöðvar. Í júní 2019 var gengið frá þjónustusamningi Sjúkratrygginga Íslands og Leitarstöðvar um krabbameinsskimanir til loka árs 2020 og undirbúningur að lokun Leitarstöðvar hófst.
Leitarstöð Krabbameinsfélagsins var allt frá upphafi stýrt af sérfræðilæknum, faglegum stjórnendum. Yfirlækni Leitarstöðvarinnar og ábyrgðarmanns skimunarinnar til loka árs 2020 hefur nú verið falið hlutverk yfirlæknis og forstöðumanns Samhæfingarstöðvar krabbameinsskimana hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Sú ráðning fer gegn þeirri staðhæfingu að alvarlegur skortur hafi verið á gæðum í starfi Leitarstöðvar undir hans stjórn.
Löngu er tímabært að leggja áherslu á að endurvekja traust kvenna á leghálsskimunum og byggja upp til frambúðar. Krabbameinsfélagið er tilbúið til að leggja því verkefni lið og óskar Heilsugæslunni góðs gengis í þeirri vinnu með traustan mann í brúnni.“