fbpx
Laugardagur 27.apríl 2024
Fréttir

Lækna-Tómas segir meinta „umbun“ Landspítalans til starfsmanna fáránlega – „Er þetta brandari?“

Erla Dóra Magnúsdóttir
Mánudaginn 16. ágúst 2021 14:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Tómas Guðbjartsson, einnig þekktur sem Lækna-Tómas, segir stöðuna á Landspítalanum afar alvarlega einkum á gjörgæslu. Gjörgæslurými á Íslandi séu of fá, og hafi sú staða verið komin upp löngu fyrir faraldurinn. Líkir hann nýlegri gagnrýni á rekstur Landspítalans við kjölturakka sem stöðugt sé sparkað í og segir það ekki hjálpa stöðunni að ráðamenn landsins geti ekki komið sér saman um hvernig skuli taka á stöðunni. Hann ræddi um málið í Bítinu á Bylgjunni í morgun. Þar gagnrýndi hann enn fremur meinta „umbun“ sem starfsmönnum spítalans hafi verið boðið upp á fyrir að stytta sumarfrí sitt.

Staðan er mjög alvarleg

„Staðan er bara mjög alvarleg, ég þekki það bara frá fyrstu hendi vegna þess að ég er búinn að vera á vakt núna meira og minna yfir alla helgina og mikið í síðustu viku líka,“ segir Tómas.

Hann skrifaði pistil í síðustu viku þar sem líkti gjörgæslunni við of lítinn björgunarbát. Hann sagði í morgun að þau skrif hans hafi fengið töluverða gagnrýni.

„Ég hef alveg fengið að finna fyrir því, sumir vilja meina að ég sé að ýkja eða að þetta sé hræðsluáróður, ég er bara alls ekki sammála því. Mér finnst mér bera skylda til að segja frá ástandinu eins og það er.“

Þegar kemur að hans störfum þá sé staðan orðin sú að hann sem og aðrir skurðlæknar eigi erfitt með að fá pláss fyrir sína sjúklinga á gjörgæslu, en starfa þeirra vegna sé það oft nauðsynlegt.

„Ég á erfitt með að koma mínum sjúklingum að sem eru þá hjartasjúklingar og það sama á við um aðra skurðlækna sem nota gjörgæsluna mikið“

Gjörgæslurými voru of fá jafnvel fyrir COVID

Hann segir það ábyrgðarleysi að opna landamærin eða stefna að engum innanlands takmörkunum.

„Meðan við erum svona búin þá finnst mér það vera ábyrgðarleysi til dæmis að galopna landamærin eða hafa engar takmarkanir í þjóðfélaginu því það myndi setja okkur algjörlega á hliðina.“

Gjörgæslurými á Íslandi séu of fá og sú staða hafi verið komin upp áður en faraldurinn skall á.

„Við erum með of fá gjörgæslurými á Íslandi, en þetta vissum við áður en við fórum inn í COVID.“

Starfsemi gjörgæslunnar krefjist sérhæfingar svo ekki sé hægt að stækka hana einn, tveir og þrír.

„Núna er ástandið orðið algjörlega ólíðandi og það verður ekki gert yfir nótt að stækka gjörgæsluna, því starfsfólkið er svo sérhæft, ekki síst hjúkrunarfræðingarnir sem eru stærsta tannhjólið í þessu en líka læknar.“

Stjórnvöld hafi glatað tækifærinu fyrr í faraldrinum til að bæta úr stöðunni.

„Við áttum að nýta þann meðbyr sem við vorum með í fyrstu bylgju. Þá var fullt af fólki sem hafði áhuga á að koma og starfa á spítalanum sem hafði verið að vinna annars staðar, menntað fólk eins og hjúkrunarfræðingar sem höfðu verið að vinna sem flugliðar og í slíku.“

Er þetta brandari?

Á Íslandi sé mikið af vel menntuðu fólki sem gæti komið til starfa á Landspítalanum en til þess þurfi þeim að standa til boða sæmileg kjör.

„Hvað er verið að gera núna? Það er búið að gefa leyfi núna fyrir að umbuna fólki fyrir að koma inn úr sumarfríi og það er verið að bæta þeim það upp með einhverjum þremur yfirtímum sem það má taka út í janúar eða taka vaktina út í yfirvinnu. Er þetta brandari? Á Karólínska eru sömu vandamál, eiginlega út um alla Vestur-Evrópu að það vantar gjörgæsluhjúkrunarfræðinga. þetta er ekki séríslenskt vandamál, og þar er verið að borga þeim 300 prósent laun.“

Hann segir tíma komin til að hætta „þessum roluhætti“ og fara í alvöru aðgerðir til að bæta stöðuna en sá bolti sé í höndum stjórnvalda og það sé ljóst að það verði að veita meira fjármagn til heilbrigðismála.

Skip sem lekur

Ljóst sé að ráðamenn séu ekki á sama máli um stöðuna og til dæmis séu áherslur Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra allt aðrar en Bjarna Benediktssonar, fjármálaráðherra.

„Við erum eins og skip núna, heilbrigðiskerfið, og það eru sumir sem vilja bara hlaða farþegum í bátinn og halda dansleik upp a þilfari en við erum hér á gjörgæslunni niðri í kili á skipinu og erum að ausa vatninu þaðan því báturinn er að leka. Svo erum við að senda upp skilaboð um að ekki sé allt með felldu en þeir sem eru uppi í brúnni eru ekki sammála um það hvort það eigi að hægja á skipinu eða hraða því.“

Endurskoða þurfi forgangsröðunina í málefnum Landspítalans en Tómas veltir því fyrir sér hvort rétt sé að eyða fjármagni í að byggja upp nýjan Landspítala þegar stærra vandamál séu flöskuhálsarnir sem hafi myndast á gjörgæslu og bráðamóttökunni.

Þrátt fyrir auknar fjárveitingar til spítalans undanfarin ár þá sé það svo að eftir niðurskurðinn sem gerður var í kjölfar efnahagshrunsins dragi enn dilk á eftir sér.

Varðandi umræðuna um slæman rekstur spítalans segir Tómas:

„Ég vil stundum meina það, eins og núna í umræðunni, að Landspítalinn sé svona eins og kjölturakki eða hundur sem allir eru að sparka í. Það þykir öllum vænt um hann og það eru allir sammála um það sé gott að hafa einhvers konar varðhund eða eftirlitshund en svo eru allir að sparka í hann.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Jóhann hlaut dóm í héraði – Leigði ólöglega brunagildru í Þverholti til búsetu og stofnaði lífum í hættu

Jóhann hlaut dóm í héraði – Leigði ólöglega brunagildru í Þverholti til búsetu og stofnaði lífum í hættu
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ólafur Þ. Harðarson: Stjórnarflokkarnir eru að koma sér upp þægilegum merkimiðum þegar styttist í kosningar

Ólafur Þ. Harðarson: Stjórnarflokkarnir eru að koma sér upp þægilegum merkimiðum þegar styttist í kosningar
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Stofna góðgerðarfélag til minningar um Þuríði Örnu – Blásið til tónleikaveislu 1. maí

Stofna góðgerðarfélag til minningar um Þuríði Örnu – Blásið til tónleikaveislu 1. maí
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Næsta skref – byltingakenndar breytingar

Næsta skref – byltingakenndar breytingar