fbpx
Laugardagur 27.apríl 2024
Fréttir

Annar hælisleitandinn endaði á sjúkrahúsi eftir handtöku lögreglu – Aktívisti segir hann hafa verið laminn

Ágúst Borgþór Sverrisson
Fimmtudaginn 8. júlí 2021 10:35

Samsett mynd sýnir lögregluaðgerðina á þriðjudag. Til hægri er sjálfsmynd af Shoukri Abolebda um borð í flugvél í morgun.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Á þriðjudag voru tveir palistínskir hælisleitendur handteknir í húsnæði Útlendingastofnunar í Hafnarfirði. Hafði Útlendingastofnun boðað þá til að afhenda þeim bólusetningarskírteini en þeir höfðu nýlega fengið bólusetningu við Covid-19. En þegar þeir mættu á staðinn biðu þeirra lögreglumenn og voru þeir handjárnaðir á staðnum.

Lögreglan hefur verið sökuð um hörku við handtökuna, svo mikla að annar hælisleitandinn var ekki sendur úr landi í gær eins og til stóð heldur þurfti að fara á sjúkrahús. María Lilja Þrastardóttir, aktivisti og fyrrverandi blaðamaður, segir um þetta á Twitter:

„Ég var að fá upplýsingar um að annar hælisleitendanna sem lögregla handtók í gær hafi endað á spítala eftir meðferðina og sé ennþá hér á landi. -Maðurinn var laminn svo illa að hann missti af fluginu. Let that sink in.“

Margrét Gauja Magnúsdóttir, fyrrverandi bæjarfulltrúi, skrifar á Facebook í gærkvöld:

„Ég var að fá upplýsingar um að annar strákanna frá Gaza sem lögregla handtók í gær hafi endað á spítala eftir meðferðina og sé ennþá hér á landi. Hann var lamin svo illa að hann missti af fluginu. Áfram Ísland!“

Mannlíf birtir í gærkvöld viðtal við manninn sem varð eftir.  Samkvæmt viðtalinu var hann fluttur á sjúkrahús skömmu eftir handtökuna. Maðurinn segir við Mannlíf:

„Mér er skellt með höfuðið í borðið og ég er járnaður með hendur fyrir aftan bak. Á þessum tímapunkti hrópa ég á Ali um að hjálpa mér, segi að hann viti af vandamálunum með höfuðið á mér. Ég bið hann að þýða það fyrir lögregluna en hann stendur bara og segir ekki neitt. Ég sturlaðist úr hræðslu þetta voru skelfilegar aðstæður að vera plataður svona og svo beittur ofbeldi. Ég er líka flogaveikur og svona ástand getur framkallað flog hjá mér, Ali vissi það líka en sagði ekki neitt. Þegar ég fer að berjast um sturlaður úr hræðslu var höfði mínu skellt í vegginn.

Ég man nokkur atriði eftir það en annars var ég hálf meðvitundarlaus eftir seinna höggið. Ég man að ég fann rafmagn eða eitthvað sem gaf sömu tilfinningu og það og taldi að það væri verið að skjóta á mig með rafbyssu, en ég er ekki viss hvað annað þetta getur hafa verið en ég þekki vel tilfinninguna þegar maður er skotinn með svona vopni en gríska lögreglan gerir það að leik sínum við hvert tækifæri að nota slíkt vopn á okkur flóttamennina. Svo man ég að ég var klæddur úr og ég sprautaður í upphandlegginn af manni í búning og gulu vesti, ég er ekki viss um hvort þetta var lögga eða hvað ég einfaldleg þekki ekki búningana hér á landi nógu vel. Eftir þessa sprautu man ég ekkert fyrr en ég vakna í fangaklefa hjá lögreglunni.“

Blaðamaður Mannlífs, Svava Kristín Sveinbjörnsdóttir, staðfestir í samtali við DV, að maðurinn, sem heitir Shoukri Abolebda, hafi farið af landi brott í morgun.

DV náði sambandi við Helga Valberg Jensson, yfirlögfræðing hjá embætti Ríkislögreglustjóra, og neitaði hann að tjá sig um málið umfram tilkynningu Ríkislögreglustjóra sem send var á fjölmiðla í lok gærdags. Í tilkynningunni sem sjá má hér að neðan er því neitað að lögregla beiti rafbyssum eins og hælisleitandinn gefur í skyn er hann lýsir handtökunni. Einnig er staðhæft að ekki sé beitt valdi umfram nauðsyn:

„Í ljósi umfjöllunar fjölmiðla í dag um handtöku sem átti sér stað í Bæjarhrauni í gær þá telur embætti ríkislögreglustjóra rétt að taka eftirfarandi fram um almenna framkvæmd lögreglu:
Þegar lögregla þarf að fylgja eftir beiðnum um brottvísun úr landi eða frávísun þá er sú framkvæmd oft og tíðum þungbær og flókin, bæði fyrir þann sem fyrir henni verður og þann sem þarf að framfylgja henni. Valdbeitingarheimildir eru ekki nýttar í slíkum tilvikum nema brýna nauðsyn krefji en lögregla forðast almennt valdbeitingu við handtökur. Þegar þess gerist þörf þá er það ávallt samkvæmt mati stjórnanda á vettvangi. Leitast er við að beita vægustu mögulegu aðferðum en starfsfólk lögreglu er þrautþjálfað til að takast á við slíkar aðstæður og forðast að af þeim skapist meiðsl.

Lögregla beitir ekki rafbyssum undir neinum kringumstæðum enda hefur hún ekki heimild til að beita slíkum tækjum. Þá sprautar lögregla aldrei einstaklinga, slíkt er ávallt í höndum heilbrigðisstarfsmanna, sem taka slíka ákvörðun sjálfstætt í ljósi aðstæðna hverju sinni. Hafa verður það í huga að lögreglu ber að framfylgja lögum eftir að einstaklingar hafa fullnýtt þann rétt sem þeir hafa til að kæra stjórnvaldsákvarðanir og eru slíkar aðgerðir aldrei fyrirvaralausar. Þá er einstaklingum nær undantekningarlaust gefið færi á að yfirgefa landið sjálfviljugir áður en farið er í aðgerðir sem til komnar eru vegna ákvarðana sem íslensk stjórnvöld hafa tekið s.s. vegna ólöglegrar dvalar í landinu.Áréttað skal að ekki er unnt að veita upplýsingar um einstök mál þó að lögregla hafi á því skilning að aðgerðir sem þessar veki spurningar. Unnið er að því að tryggja og yfirfara öll tiltæk gögn málsins, komi til þess að kæra eða kvörtun berist vegna umræddrar aðgerðar. Að öðru leyti mun embætti ríkislögreglustjóra ekki veita nánari upplýsingar um málið að sinni.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 17 klukkutímum

Lögregla kölluð út vegna tjaldbúða í miðborginni

Lögregla kölluð út vegna tjaldbúða í miðborginni
Fréttir
Fyrir 18 klukkutímum

Fordæmalaus staða gæti komið upp á gosstöðvunum á Reykjanesskaga – „Þetta er fyrsta skiptið sem við sjáum svona“

Fordæmalaus staða gæti komið upp á gosstöðvunum á Reykjanesskaga – „Þetta er fyrsta skiptið sem við sjáum svona“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Jóhann hlaut dóm í héraði – Leigði ólöglega brunagildru í Þverholti til búsetu og stofnaði lífum í hættu

Jóhann hlaut dóm í héraði – Leigði ólöglega brunagildru í Þverholti til búsetu og stofnaði lífum í hættu
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ólafur Þ. Harðarson: Stjórnarflokkarnir eru að koma sér upp þægilegum merkimiðum þegar styttist í kosningar

Ólafur Þ. Harðarson: Stjórnarflokkarnir eru að koma sér upp þægilegum merkimiðum þegar styttist í kosningar
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Stofna góðgerðarfélag til minningar um Þuríði Örnu – Blásið til tónleikaveislu 1. maí

Stofna góðgerðarfélag til minningar um Þuríði Örnu – Blásið til tónleikaveislu 1. maí
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Næsta skref – byltingakenndar breytingar

Næsta skref – byltingakenndar breytingar