fbpx
Föstudagur 26.apríl 2024
Fréttir

Brynjar umdeildur – Lofaður fyrir að valdefla stúlkur en gagnrýndur fyrir að afreksvæða íþróttir ungra barna

Ágúst Borgþór Sverrisson
Þriðjudaginn 16. febrúar 2021 20:30

Skjáskot úr myndinni Hækkum rána

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ekkert lát er á skoðanaskiptum um heimildarmyndina „Hækkum rána“ og hinn umdeilda körfuknattleiksþjálfara stúlkna, Brynjar Karl Sigurðsson. Myndin sem sýnd er í Sjónvarpi Símans fjallar um stúlknalið innan ÍR sem Brynjar þjálfaði. Liðið komst í fréttirnar árið 2019 er stúlkurnar neituðu að taka við verðlaunum en með þeim gjörningi voru þær að mótmæla því að þær fengju ekki að keppa við stráka.

Heimildarmyndin lýsir þjálfunaraðferðum sem snúast um að valdefla ungar stúkur. Aðferðirnar eru umdeildar. Eins og DV greindi frá um helgina steig Sara Pálmadóttir, fyrrverandi landsliðsmaður í körfuknattleik, fram og gagnrýndi aðferðir Brynjars harðlega:

„Í vikunni var sýnd myndin Hækkum rána á Sjónvarpi Símans. Ég get ekki orða bundist eftir að hafa horft á þessa mynd og það tók mig langan tíma að róa mig, setjast niður og skrifa þennan pistil. Ég hef frá árinu 2014 fylgst með þessu liði sem um ræðir í myndinni og hef oft orðið kjaftstopp yfir framferði liðsins og þá sérstaklega þjálfarans. Ég á bróðurdóttur sem ég hef fylgt á flest mót sem hún hefur tekið þátt í frá því hún var 8 ára og séð margt á þessum árum. Mjög margt gott en því miður líka séð margt mjög leiðinlegt. Ekki misskilja mig ég er „all in“ í því að valdefla ungt fólk, kenna þeim að standa með sjálfum sér, kenna þeim „tögg“ og að vera töffarar en þjálfunaraðferðir sem notaðar eru í þessu tilviki eru ekki að mínu skapi. Ef ég verð svo heppin að eignast börn einn daginn þá fær barnið mitt ekki að æfa hjá þjálfara sem sýnir slíka háttsemi sem sést í þessari mynd.“

Sjá einnig: Sara tjáir sig um körfuboltamyndina

Sara segir ennfremur:

„Atriðið í myndinni þegar ákveðið var á töflufundi fyrir mót, að stelpurnar myndu stíga fram og neita að taka við verðlaunum eftir mótið finnst mér til háborinnar skammar. Það eru margar aðrar leiðir til þess að láta í sér heyra. Þegar liðið stígur svo fram í verðlaunaafhendingu í íslandsmóti 11 ára varð ég kjaftstopp. Þarna eru 11 ára stelpur sem tala þarna, að mér finnst, á öðruvísi tungumáli en ætti að þekkjast hjá svona ungum börnum. Þarna fannst mér algjör vanvirðing borin fyrir körfuboltanum, leikmönnum, foreldrum, stjórnarmönnum, sjálfboðaliðum og öllum þeim sem koma að íþróttum á Íslandi.“

Móðir lofar aðferðir Brynjars

Margrét A. Markúsdóttir hefur skrifað afar áhugaverða grein um efni heimildarmyndarinnar á Facebook-síðu sinna. Margrét segir að harkan sem Brynjar hafi beitt stúlkurnar hafi ekki brotið niður stúlkurnar heldur valdeflt þær:

„Dóttir mín prófaði að æfa hjá Brynjari haustið 2018. Ég var ósátt við það til að byrja með og tók það mig nokkurn tíma að sætta mig við það því ég skildi engan veginn út á hvað prógrammið gekk. Ég var almennt heldur ekki mikið fyrir keppnisíþróttir meðal barna. Dóttir mín varð þó strax mjög ánægð með alla umgjörðina enda lærði hún meira í körfubolta á nokkrum dögum heldur en hún hafði gert þessi þrjú ár sem hún hafði æft á undan. Ég þurfti því að bíta í það súra epli á þessum tíma að hún gat ekki hugsað sér annað en að halda áfram hjá honum. (Hér er ég þó ekki að hallmæla þeim sem þjálfaði hana áður enda áttum við í fínum samskiptum við þann þjálfara).

Það hljómar líklega furðulega en þessi harka hefur ekki brotið þessar stúlkur niður heldur þvert á móti valdeflt þær. Þær læra að svara honum, mótmæla honum og það er það sem hann vill. Hann vill að þær tali á móti og svari fyrir sig. Þær hafa margar lært að yfirfæra þetta yfir á aðrar aðstæður í lífinu þar sem þær eru kannski fyrir alvöru brotnar niður og þannig fengið aukið sjálfstraust. Þær læra að taka gagnrýni og að orð geta ekki sært þig án þíns leyfis (kannski ekki allir sammála því). Þá hefur hann hjálpað mörgum börnum að takast á við kvíða.“

Margrét segist í fyrstu ekki hafa skilið kröfuna um að fá að keppa við stráka en smám saman áttað sig á gildi hennar, enda snerist hún um að veita stelpum tækifæri til að keppa við fjölbreyttari andstæðinga:

„Varðandi það að fá að keppa á móti strákum þá skildi ég það engan veginn heldur í byrjun. Ég taldi þetta vera upphafningu á strákum og því að þeir væru betri en stelpur í körfubolta. En síðan komst ég að því út á hvað þetta gekk. Einn tilgangurinn fyrir því að fá að keppa við stráka var að veita stelpum tækifæri til að keppa við fjölbreyttari andstæðinga og í meiri hraða en á móti stelpum. Þær ætluðu þó ekki að hætta að keppa við stelpur heldur fá að keppa líka við stráka. Með því að keppa við þá og sýna þeim að þær væru verðugir andstæðingar var líka pælingin að breyta viðhorfinu til stelpna í íþróttum innan frá. Það er ekki alltaf nóg að segja strákum að bera virðingu fyrir stelpum í íþróttum heldur hefur það í raun mun meiri áhrif ef þeir finna að þær eru jafningjar þeirra og að þeir þurfi að leggja á sig ef þeir ætla að vinna þær.

Dóttir mín hefur fundið fyrir þessu á eigin skinni. Hún hefur keppt æfingaleiki við stráka sem í byrjun leggja ekkert á sig því þeir halda fyrirfram að þær séu lélegar bara af því að þær eru stelpur. Síðan þegar þeir sjá að þær eru virkilega erfiðir andstæðingar þá verða þeir hissa og fara að leggja meira á sig. Hún upplifir að þeir beri meiri virðingu fyrir þeim í kjölfarið. Þannig er hugmyndin að breyta kerfinu innan frá með því að auka virðingu stráka fyrir stelpum í íþróttum.“

Margrét finnur mikla samsvörun milli aðferða Brynjars og Hjallastefnunnar, þar sem beitt er ólíkri nálgun á kynin vegna ólíkra þarfa þeirra:

„Eftir að hafa kynnst þjálfun Brynjars betur hef ég þó komist að því að margt er líkt þarna á milli. Hann telur sig þurfa að gera ýmislegt öðruvísi í þjálfun stúlkna en drengja, líkt og gert er í Hjallastefnunni. Hann æfir drengina ekki í “ruslatali” því þeir þurfa ekki á því að halda, margir drengir tala svona dags daglega nú þegar, því miður. Markmið hans með því að æfa stúlkurnar í ruslatali er að valdefla þær, bæði innan vallar sem utan. Að þær þori að láta í sér heyra, hækka röddina og svara fyrir sig. Hann hvetur þær þó ekki til að tala svona við aðra í daglegu lífi enda er það ekki markmiðið. Í Hjallastefnunni reynum við einnig sérstaklega að valdefla stúlkur með því að æfa þær í að nota röddina, setja skýr mörk o.s.frv. Brynjar hefur einnig talað um reyna að vinna gegn neikvæðum einkennum stúlknamenningar sem er í Hjallastefnunni kallað “bleika slikjan”. Þannig er það áhugavert hvað það er margt líkt með þessum stefnum þó ég voni að ég móðgi engan með þessari samlíkingu. Auðvitað er líka margt ólíkt þarna á milli og aðferðir Brynjar ganga lengra að mörgu leyti. Í báðum tilfellum er þó um að ræða tilraun til að vinna gegn rótgrónu og mjög stýrandi kerfi en í leiðinni að auknu jafnrétti meðal kynjanna. Í báðum tilfellum er synt á móti straumnum með mikilli andstöðu innan kerfisins.“

Margrét greinir einnig frá sífelldri óvirðingu sem kvennakörfubolti hafi mátt þola hér á landi og segir hún að strákamótin hafi ávallt verið tekin meira alvarlega en stelpumótin. Grein hennar má lesa í heild með því að smella á tengilinn hér á neðan. Þar fyrir neðan drepum við hins vegar á grein eftir Viðar Halldórsson, prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands, en hann segir aðferðir Brynjars vera úreltar.

https://www.facebook.com/margret.markusdottir/posts/10165151855945232

 

Segir aðferðir Brynjars úreltar

Viðar Halldórsson, prófessor í félagsfræði, hefur birt grein um málið á Kjarnanum. Þar segir hann að markmið Brynjars sé gott en aðferðirnar ekki. Vandamálið sé að Brynjar hafi afreksvætt íþróttastarf 8-11 ára barna. „Sem er merki­legt þar sem þær þjálf­un­ar­að­ferðir sem þjálf­ar­inn beitir í mynd­inni eru löngu taldar úreltar enda ganga þær gegn allri fræði­legri þekk­ingu vís­inda­sam­fé­lags­ins, hag­nýtri þekk­ingu íþrótta­sam­fé­lag­ins, stefnu íþrótta­yf­ir­valda, skipu­lagi íþrótta­starfs hér á landi og þeirri íþrótta­menn­ingu sem hér rík­ir,“ segir Viðar.

Viðar segir afreksvæðingu íþrótta hjá börnum vera óæskilega því hún feli í sér að þjálfunaraðferðir fyrir fullorðna séu yfirfærðar á börn:

„Afrek­svæð­ing leiks­ins felur það í sér að þjálf­un­ar­að­ferðir sem not­aðar eru á full­orðna atvinnu­menn eru yfir­færðar á börn. Íþróttir barna fara með þessu að ein­kenn­ast af meiri alvöru og festu, snemm­bærri sér­hæf­ingu, fleiri æfingum og meira álagi, vænt­ingum og pressu en áður, allt með það að mark­miði að sigra og skapa grunn­inn að afrek­s­í­þrótta­fólki fram­tíð­ar­inn­ar. Hætt­urnar við afrek­svæð­ingu leiks­ins eru aftur á móti það alvar­legar fyrir börn og ung­menni að varað er við slíkum aðferð­um. Til að mynda þá birt­ast afleið­ing­arnar í auk­inni tíðni ofþjálf­unar og álags­meiðsla, auknu brott­falli, óhóf­legum og óþörfum fjár­hags­legum kostn­aði fjöl­skyldna, óraun­hæfra vænt­inga um árangur og frama, glat­aðrar barn­æsku, sem og að leik­ur­inn fer frá því að vera leikur og verður að vinnu, svo sitt­hvað sé nefnt. Stað­reynd­irnar tala sínu máli í þessu sam­band­i.“

Viðar setur spurningamerki við það viðhorf að íþróttastarf sé bara fyrir hina bestu. Hann segir að sumar stúlkurnar hafi getað staðist álagið sem Brynjar setti á þær á meðan aðrar gátu það ekki:

„„Þær eru sterkar per­són­ur, geta staðið á sín­u,“ sagði einn fað­ir­inn stoltur í heim­ilda­mynd­inni og hefur hann eflaust rétt fyrir sér hvað það varð­ar. Sumar stúlkn­anna gátu ábyggi­lega staðið í gegnum þetta og látið mót­lætið styrkja sig, en það gerðu aftur á móti alls ekki allar stúlk­urn­ar. Með öðrum orð­um, þá sýnir myndin sögu sig­ur­vegar­anna. Þeirra sterku stelpna sem komust í gegnum harð­ræð­ið. Myndin sýnir aftur á móti ekki hina hlið­ina; „aum­ingj­ana“ eins og tíð­rætt var um í mynd­inni. Hún segir ekki sögu þeirra sem helt­ust úr lest­inni, ein­hvers staðar á leið­inni, og sitja jafn­vel uppi með skömm­ina yfir að hafa grátið og gef­ist upp undan óæski­legu álag­inu og harð­ræð­inu – eins og jafnan er afleið­ing afrek­svæð­ingar barna- og ung­linga­í­þrótta. Stúlk­urnar sem fengu ekki að keppa við strák­ana eru því ekki einu fórn­ar­lömbin í þess­ari sögu, heldur ekki síður þær stúlkur sem hrökt­ust úr íþrótt­inni sinni og félag­inu sínu. Þeirra saga var ekki sögð.“

Viðar segir að íþróttastarf kvenna sé að mörgu leyti heilbrigðara en íþróttastarf karla. Hann tekur þá stöðu að vinna beri gegn karlrembu, ruddaskap og óheiðarleika í íþróttum í stað þess að innprenta stúlkum lesti karlaíþrótta. Hann spyr hvort íþróttir eigi ekki frekar að vera meira á forsendum kvenna en að úreltar karlmennskuhugmyndir séu innleiddar í kvennaíþróttir:

„Það er einnig umhugs­un­ar­efni hvort það sé rétta leiðin að gera stelpur að meiri strákum í íþrótt­um; að gera þær að meiri „töff­ur­um“ eins og lagt var upp með í mynd­inni. Að mörgu leiti þá er íþrótta­starf stúlkna mun heil­brigð­ara en íþrótta­starf pilta. Hjá piltum er meira um ein­elti, hörku og hroka, en hjá stúlk­um, sem allt eru óæski­legir fylgi­fiskar keppn­is­í­þrótta. Oft hefur líka verið rætt um að íþróttir kvenna feli í sér minni leik­ara­skap og svindl en í íþróttum karla. Að því leyti mætti segja að íþróttir kvenna séu þannig í raun hreinni og óspillt­ari en íþróttir karla. Það er gríð­ar­lega mik­il­vægt að vinna gegn ljótu tali (rusltali), hroka, ein­elti og óþarfa hörku í íþróttum yfir­höf­uð. Það þarf að vinna gegn þeirri karl­rembu og ömur­leg­heitum sem rætt var um í mynd­inni, en ekki að stuðla að óþarfa töffara­skap og ömur­leg­heitum hjá þeim sem það skort­ir. Eiga íþróttir kvenna ekki að vera á for­sendum kvenna frekar en úrsér­gengnum karl­mennsku­hug­myndum sem hægt og bít­andi eru að renna sitt skeið? Það eru nýir tím­ar. Staða kvenna í íþróttum batnar ár frá ári. Þátt­töku­töl­urnar sýna það. Árang­ur­inn sýnir það, á vell­in­um, sem og utan hans. Konur eru komnar í æðstu stöður í íþrótta­hreyf­ing­unni. Fram­kvæmda­stjórar ÍSÍ, UMFÍ og KSÍ eru til að mynda allt konur sem hafa áhrif á að móta íþrótta­starfið fyrir nýja tíma. Tíð­ar­and­inn er ann­ar, sem gerir konum loks­ins kleift að vera gjald­gengar í íþróttum og bæta íþrótt­irnar á eigin for­send­um, með því að vera eins og kon­ur.“

Grein Viðars má lesa hér

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 13 klukkutímum

Yfirmaður úkraínsku leyniþjónustunnar er með áætlun tilbúna til að mæta yfirvofandi stórsókn Rússa

Yfirmaður úkraínsku leyniþjónustunnar er með áætlun tilbúna til að mæta yfirvofandi stórsókn Rússa
Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Grænkerar harma auglýsingar forsetaframbjóðenda – „Borða pulsur úr gösuðum þjáðum svínum“

Grænkerar harma auglýsingar forsetaframbjóðenda – „Borða pulsur úr gösuðum þjáðum svínum“
Fréttir
Í gær

Sendiherra Trump á Íslandi þykist vera kúreki í kosningabaráttu sinni – „Það er ekki hægt að skálda þetta“

Sendiherra Trump á Íslandi þykist vera kúreki í kosningabaráttu sinni – „Það er ekki hægt að skálda þetta“
Fréttir
Í gær

Svívirðileg brot gegn sjö ára stjúpdóttur

Svívirðileg brot gegn sjö ára stjúpdóttur
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Móðirin í Kópavogi ákærð fyrir að reyna að drepa eldri soninn líka

Móðirin í Kópavogi ákærð fyrir að reyna að drepa eldri soninn líka
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Björn Leví: Þess vegna telja Píratar að ekki sé hægt að vinna með Sjálfstæðisflokknum

Björn Leví: Þess vegna telja Píratar að ekki sé hægt að vinna með Sjálfstæðisflokknum