fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Fréttir

Ófriðareldur logar enn hjá Flugfreyjum – „Trúi ekki að þeir ætli í stríð númer tvö“

Heimir Hannesson
Þriðjudaginn 28. júlí 2020 14:10

Keflavíkurflugvöllur. Mynd/Ernir

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hveitibrauðsdagar nýs kjarasamnings Flugfreyjufélags Íslands og Icelandair entust ekki lengi. Samkvæmt heimildum DV gætir nú gríðarlegrar óánægju með endurráðningaferli Icelandair.

Eins og kunnugt er sagði Icelandair upp 897 flugfreyjum- og þjónum 22. apríl síðastliðinn. Héldu þá 41 flugfreyja störfum sínum. Afgangi flugfreyja var svo sagt upp í kjölfar þess að félagsmenn Flugfreyjufélagsins kolfelldu kjarasamning sem undirritaður hafði verið hjá ríkissáttasemjara í lok júní. Stefndi þá í að flugmenn tækju að sér hlutverk „öryggisfulltrúa“ um borð til að halda vélunum gangandi án flugfreyja þegar nýr samningur var svo undirritaður á elleftu stundu. Sá samningur var samþykktur í atkvæðagreiðslu í gær.

Óánægja flugfreyjanna í þetta sinn beinist að starfsháttum Icelandair við endurráðningar á flugfreyjum félagsins. Hefð hefur verið fyrir því hingað til hjá Icelandair að styðjast við svokallað starfsaldurskerfi í ráðningar úr öllum þremur flugstéttarfélögunum. Þar er einfaldlega listi starfsfólks eftir starfaldri, og „last in-first out“ reglan látin gilda. Þannig eru þeim sem síðastir eru á lista fyrst sagt upp þegar til uppsagna kemur, og svo þeir sem efstir eru á lista fyrstir inn þegar ráðið er í störf.

Flugfreyju númer „tvöhundruðfjörutíuogeitthvað“ boðið starf

RUV hafði í gær eftir Guðlaugu Líney Jóhannsdóttur, formanni flugfreyjufélagsins, að Icelandair væri með stórt verkefni í höndunum, „að endurbyggja traustið.“ Þar sagði einnig að Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, hafi sagt að um 200 flugfreyjur yrðu endurráðnar fyrir haustið og þörfin svo endurmetin í kjölfarið. Það var því ekki annað að sjá en að ófriðarbálið hafi verið slökkt og bjart framundan í samskiptum Flugfreyjufélagsins og Icelandair.

Það vakti því upp talsverða furðu og reiði þegar fréttir tóku að berast af því í dag að flugfreyjur, mun neðar á lista en nr. 200, fóru að fá símtöl og tölvupósta um endurráðningar. Samkvæmt heimildum DV hafa flugfreyjur og þjónar verið, hvert af öðru, að fá símtöl og tölvupósta í gær og í dag með afturköllun á uppsögn. Ljóst er að Icelandair hefur ekki fyllt allar stöður flugfreyja enn og því óljóst hver loka niðurstaðan verður, en samkvæmt heimildum DV hefur Icelandair þegar boðið þó nokkrum flugfreyjum neðar en 200 áframhaldandi starf. Ein þeirra sem boðið var starf var neðar en 240. sæti.

Samkvæmt viðmælendum DV virðist sem Icelandair sé að fara framhjá flugfreyjum sem ýmist hafa farið í veikindaleyfi á undanförnum árum og þeim sem „létu heyra í sér,“ í tengslum við deilur Icelandair og Flugfreyjufélagsins.

Ná ekki sambandi við vinnuveitanda sinn

Óánægja flugfreyjanna beinist einnig að samskiptum þeirra við Icelandair. Nú sé yfirflugfreyjan, Klara Vigfúsdóttir, hætt störfum og sumar flugfreyjur viti ekki hvert þær eigi að snúa sér. Sagðist ein flugfreyja Icelandair nauðbeygð til þess að hringja í skiptiborð Icelandair og „biðja um einhvern sem ræður einhverju,“ til að fá svör við sínum spurningum.

Bogi Nils sagði í kvöldfréttum RUV í gærkvöldi að farið yrði eftir áðurnefndu starfsaldurskerfi, „og frammistöðu.“ DV lagði spurningu fyrir Icelandair fyrr í dag hvað þau orð Boga þýddu og hvernig sú „frammistaða“ væri metin. DV hafði ekki borist svör þegar þessi frétt var birt.

Ekki náðist í formann Flugfreyjufélagsins við vinnslu fréttarinnar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Spáir ekki dropa úr lofti í Reykjavík fyrr en í maí – Sumarið lítur sérstaklega vel út

Spáir ekki dropa úr lofti í Reykjavík fyrr en í maí – Sumarið lítur sérstaklega vel út
Fréttir
Í gær

Stofna góðgerðarfélag til minningar um Þuríði Örnu – Blásið til tónleikaveislu 1. maí

Stofna góðgerðarfélag til minningar um Þuríði Örnu – Blásið til tónleikaveislu 1. maí
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Íbúar brjálaðir út í Hafnarfjarðarbæ: „Þetta er til háborinnar skammar og engin lausn“

Íbúar brjálaðir út í Hafnarfjarðarbæ: „Þetta er til háborinnar skammar og engin lausn“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Réðst á dreng sem ætlaði að gera dyraat

Réðst á dreng sem ætlaði að gera dyraat