fbpx
Föstudagur 18.september 2020
Fréttir

Slökkviliðsmenn æfir yfir gríni Ingibjargar í heimagleðskap – „Það voru starfsmenn hérna sem nánast grétu af reiði þegar þeir sáu þetta“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Mánudaginn 23. mars 2020 13:22

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Gífurleg reiði á meðal að minnsta kosti hluta starfsliðs Slökkvililiðs höfuðborgarsvæðisins geisar nú eftir Facebook-færslu og myndbirtingu Ingibjargar Óðinsdóttur, mannauðsstjóra slökkviliðsins, á föstudagskvöldið. Myndin sýnir Ingibjörgu og nokkrar vinkonur hennar í heimagleðskap og yfirskriftin er „COVID hvað?“ Vilja óánægðu starfsmennirnir meina að Ingibjörg sé þarna að gera lítið úr COVID-19 faraldrinum.

Starfsmenn slökkviliðsins hafa átt mjög erfiða daga eftir að kórónuveiran nam land hér. Af þeim sökum sárnar þeim færslan en auk þess telja viðmælendur DV að þessi háttsemi Ingibargar sé bara enn eitt atvikið sem vekur óánægju í framgöngu hennar. DV barst eftirfarandi bréf frá starfsmanni slökkviliðsins auk skjáskots af Facebook-færslu Ingibjargar:

„Eins og allir vita er skelfilegur vírus að herja á heimsbyggðina  Covid-19 og er búið að hafa gríðarleg áhrif. Meðal annars á Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins, m.a er búið að skipta Skógarhlíðnni í mörg  svæði, leigja aðstöðu út í bæ, menn hittast ekki á vaktaskiptum, starfsmenn skrifstofu vinna heima sem geta það,  gríðaleg vinna og kostnaður sem hefur fylgt þessu og gríðalegt álag á starfsmönnum. starfmenn hafa veikst og nokkrir mjög alvarlega, nokkrir í sóttkví.

Mikil óánægja er í slökkviliðinu og í starfsánægukönnunum hefur starfsemin komið mjög illa út og hafa tvær kannanir verið gerðar og er allt rautt…

Mikið af þessari óánægu má rekja til mannauðsstjórans Ingibjargar Óðinsdóttir eftir að hún kom til starfa hefur starfsánægja starfsmanna eiginlega hrunið.

En það gerið okkur starfsmenn alveg orðlausa var færsla sem  Ingibjörg Óðinsdóttir setti á Facebooksíðu sína síðastliðinn föstudag.

Það er engu líkara en að hún sé að gera lítið úr Covid-19 og hún skemmti sér með vinkonum sínum.

Ég veit ekki en ég varð að koma þessu frá mér þetta er algerlega taktlaust, ógfagmannlegt og kom eins og blaut tuska framan í andlitið á okkur, við erum sár, reið og mjög vonsvikin, við eigum þetta ekki skilið því við stöndum okkur 100% í okkar störfum.“

Slökkviliðið fékk falleinkunn í starfsánægjukönnun í fyrra. Kom fram í könnuninni að slökkviliðsmenn væru almennt frekar ósáttir í vinnunni og þá helst með samskipti við næstu yfirmenn. Vísir.is greindi frá.

Slökkviliðsmenn sýktir af COVID-19

DV ræddi í síma við slökkviliðsmann sem segir að starfsmenn slökkviliðsmenn séu gjörsamlega orðlausir yfir Facebook-færslunni. „Þetta er svo ósmekklegt. Það er búið að vera mjög erfitt undanfarið, þetta ástand hefur reynt svo mikið á okkur að það er svakalegt. Menn hafa smitast í sjúkrahússútköllum og nokkrir slökkviðliðsmenn eru veikir af veirunni,“ segir maðurinn. Komið hefur fram í fréttum að á annan tug slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna eru nú í sóttkví.

„Það voru starfsmenn hérna sem nánast grétu af reiði þegar þeir sáu þetta,“ segir maðurinn enn fremur.

Mistök í 10 mínútur

DV bar málið undir Ingibjörgu Óðinsdóttur, mannauðsstjóra slökkviliðsins, sem sagði:

„Í viðbragðsgeiranum notum við stundum kaldan húmor þegar ástandið er sem verst og þannig var þessi færsla hugsuð. Ég ætlaði að birta hana á síðu vinkvennahóps með gamalli mynd af okkur frá því allt lék í lyndi, en hún birtist fyrir mistök á minni Facebook-síðu og var þar í 10 mínútur áður en ég tók hana út. Mér þykir miður ef einhverjir hafa misskilið hana því ég geri mér fullkomlega grein fyrir því ástandi sem nú ríkir, enda gengur okkar starf í dag alfarið út á það að bregðast við ólíkum uppákomum vegna COVID. Þrátt fyrir það þurfum við öll að vera áfram til, reyna að vera jákvæð og standa saman,“ segir Ingibjörg.

Þess má geta að skjáskotið sem DV fékk sent af færslunni var tekið þegar færslan hafði staðið í tíu mínútur. Samkvæmt orðum Ingibjargar var færslan tekin niður um það leyti.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Í vikunni