fbpx
Laugardagur 27.apríl 2024
Fréttir

Sonur Sigríðar sífellt veikur vegna mygluskemmda í Fossvogsskóla

Ágúst Borgþór Sverrisson
Fimmtudaginn 3. desember 2020 12:24

Fossvogsskóli hefur orðið fyrir barðinu á myglusvepp. Mynd: Valli

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sonur Sigríðar Ólafsdóttur hjúkrunarfræðings er í þriðja bekk í Fossvogsskóla. Vegna mygluskemmda er hann sífellt veikur þegar hann er í skólanum. Hann fær margvísleg slæm einkenni, til dæmis öndunarfærasýkingar, höfuðverk og heilaþoku og sýnir einbeitingarskort. Að sögn Sigríðar hafa endurbætur á húsnæðinu litlum árangri skilað en hún fer yfir málið í grein í Fréttablaðinu í dag. Þar segir:

„Ég er móðir barns í þriðja bekk í Fossvogsskóla. Barnið mitt hefur alla sína skólagöngu veikst í skólahúsnæðinu vegna myglu og rakaskemmda þar. Eftir mikla baráttu foreldra og Skólaráðs Fossvogsskóla hefur í tvígang verið farið viðgerðir á Fossvogsskóla sem hafa þó ekki tekist betur til en svo að fjöldi barna er enn að veikjast í skólanum.

Fyrir ári síðan hófum við hjónin að skrifa bréf til Skóla og frístundaráðs og Umhverfis og skipulagsráðs Reykjavíkur til að benda þeim á að barnið okkar væri enn að veikjast í Fossvogsskóla. Það er vægt til orða tekið að segja að okkur hafi mætt tómlæti. Í heilt ár höfum sjaldnast fengið svar við umleitunum okkar.“

Sigríður bendir á að sonur hennar sé í lögbundnu námi og í yfirlýsingu frá borginni komi fram að Reykjavíkurborg leggi áherslu á að allt skóla- og frístundastarf í borginni fari fram í heilnæmu húsnæði. Reynsla hennar sé að þetta séu orðin tóm. Sigríður skrifar:

„Drengurinn minn fær margskonar einkenni í skólanum sem mygla og rakaskemmt efni eru þekkt fyrir að valda. Hann hefur fengið öndunarfærasýkingar, höfuðverk, heilaþoku og sýnir einbeitingarskort. Hann á erfitt með að sitja kyrr og læra, fær exem á andlit og líkama. Hann fær meltingarfæraeinkenni, er oft pirraður og líður illa. Á hverjum degi þarf að hann að mæta í húsnæði sem gerir hann veikan. Það skal tekið fram að hann hefur farið inn í fjölda annara húsa um ævina og hvergi sýnir hann einkenni neitt í líkingu það sem hann sýnir eftir dvöl í skólanum. Einkenni hans minnka um helgar og hverfa í lengri fríum frá skólanum.

Ekki sér fyrir endann á þessu máli þar sem úrræði borgarinnar virðast engin vera. Enn mætir okkur algjört tómlæti og hunsun. Skortur á vilja til að bæta ástandið virðist algjör hjá starfsmönnum borgarinnar. Umhyggja fyrir heilsu sonar míns og framtíð virðist af mjög skornum skammti.“

Í skrifum Sigríðar kemur fram að einkennin hverfi hjá syni hennar þegar hann nær einhverjum tíma frá skólanum, t.d. um helgar og í fríum. Aðgerðir sem boðaðar hafi verið fyrr í haust hafi látið standa á sér en Sigríður fer yfir ferlið í málinu undanfarið:

„Í yfirlýsingu sem send var á foreldra barna í Fossvogsskóla og dagsett var þann 01.10 2020 kom fram að athugun Náttúrufræðistofnunar á fjórum snertisýnum úr skólanum, sem tekin voru síðastliðið haust, sýndi að eftir ræktun var þar meðal annars enn að finna tvær tegundir myglusveppa sem teljast varasamar innanhúss. Í ljósi álits Náttúrufræðistofnunar var ákveðið að fyrstu viðbrögð yrðu þau að skólahúsnæðið yrði þrifið vandlega og aftur tekin sýni að mánuði liðnum sem send yrðu til tegundagreiningar hjá Náttúrufræðistofnun. Vakni grunur um raka eða leka í skólanum eða að enn séu skemmdir í byggingarefni verði brugðist við því með viðeigandi hætti.

Á meðan á þessum aðgerðum stæði var lofað að gerðar yrðu ráðstafanir til að bæta líðan þeirra barna, sem sérstakar áhyggjur eru af, í samstarfi við foreldra þeirra. Við bíðum enn eftir þessum úrræðum nú tæpum tveimur mánuðum síðar. Á meðan er sonur minn veikur í skólanum og heilsa hans versnar dag frá degi. Hver er réttur hans? Hvar er samráðið við foreldra veiku barnanna í Fossvogsskóla? Hvernig eigum við að treysta því, eftir allt sem á undan er gengið, að þær framkvæmdir sem ráðist er í nú séu fullnægjandi og umfram allt annað gerðar með hagsmuni og heilsu barna í Fossvogsskóla í fyrirrúmi?“

Sigríður skorar á viðeigandi stofnanir borgarinnar að láta sig málefni Fossvogsskóla varða og sjá til þess að staðið verði við gefin loforð um úrræði fyrir þau börn sem veikjast í húsnæði skólans: „Að sýnt sé í verki og án tafa að raunverulega sé vilji til að rannsaka og laga Fossvogsskóla að fullu og á þann hátt að við foreldrar getum raunverulega treyst þeim aðgerðum. Þá fyrst geta börnin í Fossvogsskóla farið að byggja upp heilsu sína á nýjan leik. Þau mega engan tíma missa.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Jóhann hlaut dóm í héraði – Leigði ólöglega brunagildru í Þverholti til búsetu og stofnaði lífum í hættu

Jóhann hlaut dóm í héraði – Leigði ólöglega brunagildru í Þverholti til búsetu og stofnaði lífum í hættu
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ólafur Þ. Harðarson: Stjórnarflokkarnir eru að koma sér upp þægilegum merkimiðum þegar styttist í kosningar

Ólafur Þ. Harðarson: Stjórnarflokkarnir eru að koma sér upp þægilegum merkimiðum þegar styttist í kosningar
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Stofna góðgerðarfélag til minningar um Þuríði Örnu – Blásið til tónleikaveislu 1. maí

Stofna góðgerðarfélag til minningar um Þuríði Örnu – Blásið til tónleikaveislu 1. maí
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Næsta skref – byltingakenndar breytingar

Næsta skref – byltingakenndar breytingar