fbpx
Fimmtudagur 26.nóvember 2020
Fréttir

Hjúkrunarfræðingur á COVID-deild: Þurfa að sinna ungum börnum sínum með hanska og grímu

Erla Hlynsdóttir
Laugardaginn 31. október 2020 19:00

Erna Niluka Njálsdóttir hjúkrunarfræðingur, til hægri með fullan hlífðarbúnað. Myndir/Anton Brink Samsett mynd

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Á þessum fordæmalausu tímum starfar fjöldi fólks í framlínunni við krefjandi aðstæður. DV fékk innsýn í dagleg störf þriggja þeirra. Hér er fyrsta frásögnin.

Greinin birtist fyrst í helgarblaði DV 24. október.

Erna Niluka Njálsdóttir hefur starfað á COVID-göngudeild Landspítalans frá því hún var sett á laggirnar í vor og tók þátt í uppbyggingu deildarinnar. Þar vinnur teymi hjúkrunarfræðinga, lækna, sjúkraliða og ritara og á skömmum tíma skapaðist þar mikil sérþekking. Deildin er í gömlu iðnaðarhúsnæði á lóð Landspítalans í Fossvogi, gulu húsi sem kallast Birkiborg.

„Þessi deild er alveg mögnuð. Hún var búin til á þremur sólarhringum. Iðnaðarmenn voru að störfum þegar ég fór heim á miðnætti og enn voru iðnaðarmenn að störfum þegar ég mætti klukkan sjö um morguninn. Það hefur verið einstakt að taka þátt í þessu verkefni þar sem fólk tók höndum saman. Við fundum öll strax að veiran var óvinurinn og við vorum öll saman í liði gegn henni.“

Stór hópur að veikjast núna

Erna segir deildina í raun vera heilsugæslu allra COVID-smitaðra á meðferðartíma sjúkdómsins. Markmiðið sé að fólk geti verið heima og þurfi ekki á innlögn að halda. „Við vinnum út frá lista yfir alla smitaða. Þegar fólk greinist smitað þá erum það við sem hringjum og tilkynnum um smitið. Við gerum áhættumat sem er meðal annars skipt niður í grænan, gulan og rauðan. Eftirlit okkar er síðan skipulagt eftir þessu áhættumati. Grænn merkir að fólki líður vel og er með lítil einkenni, gulur að fólk sé veikt og versnandi og rauður að fólk sé með alvarleg einkenni og þarfnist læknis.“ Áfram er síðan hringt reglulega í fólk og staðan tekin.

Erna Niluka Njálsdóttir. Mynd/Anton Brink

„Ef einstaklingur fer allt í einu að upplifa einhvers konar versnun þá fær hann tíma á göngudeildinni. Þar tökum við lífsmörk og blóðprufu. Stundum kemur fólk daglega á göngudeildina, fær heildrænt mat og jafnvel vökvagjöf og lyfjameðferð, fer heim og kemur síðan aftur næsta dag. Við reynum að grípa inn í tímanlega til að fyrirbyggja innlögn. Á sjöunda til tíunda degi versnar fólki oft mjög en það er ýmislegt hægt til að minnka líkur á því með því að meðhöndla einkenni sjúkdómsins. Það er alveg brjálað að gera núna í framhaldi af því þegar yfir þrjú hundruð manns smituðust á þremur dögum nýlega. Það fólk er að veikjast núna.“

Skima vímuefnaneytendur

Undanfarið hefur Erna meðal annars verið vaktstjóri á göngudeildinni en einnig sinnt ýmsum sérverkefnum. „Við höfum tveir hjúkrunarfræðingar verið að fara með lögreglu að skima vímuefnaneytendur. Það hafa verið að koma upp smit í undirheimunum og þar sem þessir einstaklingar eru mjög ólíklegir til að koma sjálfir í próf förum við til þeirra. Við hringjum þá á undan okkur og fáum samþykki. Það eru ekki allir til í þetta en fólk er almennt mjög þakklátt.“

Hún segir mestu áskoranirnar tengjast fólki í neyslu og þeim sem búa við erfiðar félagslegar aðstæður. „Einstæðar mæður hafa þurft að vera veikar heima með þrjú börn í einangrun. Sumir hafa þurft að sinna ungum börnum sínum með hanska og grímu. Við höfum engin úrræði til að hjálpa fólki í þessum aðstæðum. Við höfum meira að segja íhugað að senda fólk með mótefni inn á heimili til að hjálpa en þá gæti fólk komið út með snertismit sem síðan dreifði sér og yrði eflaust of flókið með tilliti til sóttvarna. Það reynir líka mikið á andlega þegar fólk þarf kannski að vera lokað inni í einu herbergi íbúðarinnar fjarri öðrum í fjölskyldunni.

Erna Niluka Njálsdóttir. Mynd/Anton Brink

Sturta eftir hverja vakt

Erna segir sérstakt að vinna í hlífðargallanum og starfsfólk hafi fengið kennslu í að fara í hann og úr til að sóttvarnir séu tryggðar. „Við reynum að tryggja að enginn þurfi að vera í gallanum lengur en eina, tvær klukkustundir. Það er mjög heitt, svitinn lekur af manni og fólk er með móðu á gleraugunum að setja upp nálar og taka blóðprufur. Eftir hverja vakt, og stundum á miðri vakt, förum við í sturtu. Það gladdi okkur mikið þegar hárvörufyrirtæki gaf okkur vörur og allt í einu voru allir með svo vel ilmandi hár eftir vinnu. Þetta gerði mikið fyrir andlega hlið starfsfólks ásamt öðrum gjöfum.“

Hún segir gallann gera það að verkum að það sé erfitt að vera persónulegur við sjúklinga. „Það getur verið erfitt að sýna hlýju bara með augunum. Fólk er oft mjög þakklátt fyrir snertinguna þegar við tökum í höndina á því, jafnvel þó við séum í hlífðarfatnaði, því snerting er okkur svo mikilvæg.“

Þrátt fyrir krefjandi verkefni segir hún starfsandann á deildinni vera afskaplega góðan. „Ég hlakka alltaf til að koma í vinnuna. Á þessum undarlegu tímum höfum við heilbrigðisstarfsfólk líka fundið fyrir því að við skiptum máli og höfum tilgang. Það gefur manni auka orku til að halda áfram.“

Einfalt er að gerast áskrifandi að vef- og/eða prentútgáfu blaðsins með því að smella hér: dv.is/skraning

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

„Ef ferðaþjónustan er ekki gjaldþrota nú þegar þá verður hún það innan tíðar“

„Ef ferðaþjónustan er ekki gjaldþrota nú þegar þá verður hún það innan tíðar“
Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Stella segir „skuggafaraldur“ geisa í skjóli faraldursins – „Ekkert þríeyki stigið fram til að bjarga þeim“

Stella segir „skuggafaraldur“ geisa í skjóli faraldursins – „Ekkert þríeyki stigið fram til að bjarga þeim“
Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum
Sjö greindust í gær
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Gagnrýna styrktarsamning Reykjavíkurborgar við RÚV

Gagnrýna styrktarsamning Reykjavíkurborgar við RÚV
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Gripdeild og leigubílstjóri laminn

Gripdeild og leigubílstjóri laminn
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Leggja til að netsala á áfengi verið bönnuð með öllu

Leggja til að netsala á áfengi verið bönnuð með öllu
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Stúlkan er fundin

Stúlkan er fundin