fbpx
Laugardagur 28.janúar 2023
Fréttir

Menntamálaráðherra: Óásættanlegt að þolendur eineltis þurfi að flýja skólann sinn – Svona hefur þú samband við fagráð eineltismála

Erla Hlynsdóttir
Föstudaginn 30. október 2020 10:00

Lilja Alfreðsdóttir. Mynd/Sigtryggur Ari

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Lilja D. Alfreðsdóttir ætlar að taka einelti föstum tökum og hefur fengið til liðs við sig einn helsta sérfræðing landsins í eineltismálum, Vöndu Sigurgeirsdóttur.

Lilja D. Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, hefur skorið upp herör gegn einelti. „Þessi mál snerta mig mikið. Ég stend vaktina, með og fyrir ykkur öll hin. Ég get haft raunveruleg áhrif á framvindu þessa málaflokks og þegar svona mikið er í húfi þá verð ég að setja alla mína krafta í að bæta og skerpa á úrræðum fyrir þolendur, gerendur og aðstandendur,“ segir hún.

Forvarnir í forgang

Mál Ólívers, 11 ára drengs í Garðabæ sem var lagður í einelti í skólanum sínum og hefur skipt um skóla, hefur vakið þjóðarathygli og sett fókusinn á hversu erfitt virðist í sumum skólum að taka á einelti. Móðir Ólívers skrifaði um reynslu hans á Facebook í síðustu viku og var menntamálaráðherra einn þeirra sem höfðu samband við fjölskylduna.

Lilja segir að við sem samfélag þurfum að vera á tánum gagnvart einelti og setja forvarnir í forgang. „Það er að mínu mati óásættanleg lausn mála að þolandi þurfi að færa sig úr sínum hverfisskóla til að losna undan einelti. Við verðum að byggja upp kerfi sem hefur burði til að tryggja farsæla lausn. Það er mitt næsta verkefni!“ segir hún.

Þá hefur Lilja gefið út að til standi að auka áherslu á fagráð eineltismála í grunn- og framhaldsskólum innan ráðuneytisins. Vanda Sigurgeirsdóttir, sérfræðingur í málaflokknum og lektor við Háskóla Íslands, verður ráðuneytinu til samráðs. Á degi gegn einelti í fyrra, 8. nóvember, veitti menntamálaráðherra Vöndu sérstök hvatningarverðlaun fyrir framlag hennar til rannsókna og forvarna gegn einelti, og úrlausna í einstökum eineltismálum.

Átta ára fagráð

Fagráð eineltismála var stofnað af mennta- og menningarmálaráðherra árið 2012. Hlutverk fagráðs eineltismála, samkvæmt verklagsreglum, er að veita skólasamfélaginu stuðning vegna eineltismála með almennri ráðgjöf, leiðbeiningum og upplýsingagjöf. Hægt er að vísa eineltismálum til fagráðsins ef ekki tekst að finna fullnægjandi lausn innan skóla eða sveitarfélags. Skal þá fagráðið veita ráðgefandi álit á grundvelli þeirra gagna og upplýsinga sem því berast. Þeir sem geta leitað til fagráðsins eru nemendur, foreldrar/forráðamenn og starfsfólk grunn- og framhaldsskóla. Einnig aðilar sem starfa með börnum í skóla-, frístunda- eða tómstundastarfi, sem hefur stoð í grunnskólalögum.

DV beindi þeirri spurningu til ráðuneytisins hvað myndi breytast nú þar sem ráðið er ekki nýtt af nálinni. Í svari ráðuneytis segir að verklag og regluverk sé í sífelldri skoðun. „Ráðuneytið er að setja af stað vinnu sem miðar að því að styrkja umgjörð eineltismála enn frekar en nú er og mun sú vinna taka mið af reynslu fagráðs eineltismála á undanförnum árum, þróun málanna sem hafa komið á borð fagráðsins og vinnu sem fram hefur farið undir forystu stjórnvalda í góðu samstarfi við hagsmunaaðila við mótun frumvarps um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna.“

Fá mál til ráðsins

Athygli vekur að heldur fá mál hafa ratað til ráðsins á undanförnum árum. Það sem af er ári hafa sex mál verið send tilráðsins, tvö voru send ráðinu í fyrra og aðeins eitt mál árið 2018. Á árunum 2014-2017 var átta málum vísað til fagráðs eineltismála en sautján á fyrstu tveimur árum eftir að ráðið var stofnað, 2012-2014. Mennta- og menningarmálaráðuneytið hafði ekki tök á því að svara til um mögulegar ástæður fyrir því að fjöldi mála sem rata til ráðsins virðist ekki endurspegla vanda innan skóla til að ráða niðurlögum eineltis.

Í svari til DV við því hversu algengt sé að málum sem vísað er til fagráðins ljúki með tilfærslu barns í annan skóla segir að í einhverjum tilvikum hafi börn þegar verið búin að skipta um skóla þegar málin koma til ráðsins. „Er þá áhersla lögð á að athuga hvort skólar hafi fylgt verkferlum og hvað hafi farið úrskeiðis með það að markmiði að nauðsynlegar úrbætur séu gerðar. Hins vegar hefur ekki komið til þess í þeim málum sem fagráðið hefur haft til meðferðar að talið sé best að barnið sé látið skipta um skóla.“

Fyrirspurnum fjölgar

Í ársskýrslu fagráðsins fyrir 2019 segir um fundi á árinu: „Alls voru haldnir 26 fundir á árinu 2019, bæði fastir fundir og svo vinnufundir í einstökum málum. Nokkrir fundir voru haldnir bæði með aðal- og varamönnum. Þeir fundir voru um innri málefni fagráðs svo sem um breytingar á heimasíðu, kynningarmál, verklagsreglur, vinnureglur og fleira. Þá var í tengslum við nýja persónuverndarlöggjöf unninn vinnuferill á meðferð gagna fagráðs í samstarfi við lögfræðing Menntamálastofnunar.“

Þá segir í ársskýrslunni að fyrirspurnum til fagráðs hafi fjölgað frá fyrri árum og eigi þær oftast við um mál þar sem einelti er yfirstandandi, varða oftast grunnskólanema og yfirleitt eru það foreldrar sem hafa samband, annaðhvort með símtali eða tölvupósti. Algengt sé að fyrirspurnir til ráðsins varði boðleiðir í eineltismálum. Í slíkum tilfellum er veitt ráðgjöf um hvert er hægt að leita og hvernig best er að bera sig að. „Foreldrar sem eiga börn sem verða fyrir meintueinelti leita einnig oft eftir stuðningi og ráðgjöf.“

Með því að smella hér má nálgast allar upplýsingar um fagráðið.

Hér eru ítarlegar leiðbeiningar um hvernig málum er vísað til ráðsins. 

Eftirfarandi upplýsingar þurfa að koma fram í vísun máls til ráðsins:

Nafn sendanda, kennitala og símanúmer.
Tengsl sendanda við barnið
Nafn barns, aldur og í hvaða bekk.
Nöfn foreldra.
Nöfn forráðamanna.
Nafn skóla.
Skólastjórnandi.

Hvenær hófst vandinn?
Hvernig lýsir vandinn sér?
Hvernig er málið statt í dag?
Hverjar hafa verið aðgerðir skólans? (t.d. umsjónarkennara, stjórnenda, eineltisteymis, náms- og starfsráðgjafa og fl.).

Hafa aðrir aðilar komið að málinu? (t.d. sérfræðiþjónusta, skólaskrifstofa sveitarfélagsins og fl.).

Hvaða væntingar eru til fagráðs varðandi umfjöllun um málið?

Þessi grein birtist fyrst í nýju helgarblaði DV þar sem ítarlega er fjallað um einelti og reynslusögur birtar.

Einfalt er að gerast áskrifandi að vef- og/eða prentútgáfu DV með því að smella hér: dv.is/skraning 

Lokað er fyrir athugasemdir
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt