fbpx
Laugardagur 27.apríl 2024
Fréttir

Svik, prettir, flóð, mótorhjólaslys og iguanaeðlukúkur – Ævintýralegar raunir Héðins og Elvu í Kosta Ríka

Heimir Hannesson
Sunnudaginn 11. október 2020 19:00

Veitingastaður Héðins og Elvu í Kosta Ríka.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það var fyrir um tveimur og hálfu ári sem hjónin Héðinn Svarfdal Björnsson og Elva Sturludóttir ásamt sonum þeirra, Goða (11) og Víkingi (7), ákváðu að söðla um og fara á vitævintýranna í Kosta Ríka. Þau ævintýri áttu eftir að taka talsvert meira á en þeim gat grunað og snerta á iguanaeðluskít, svikum og prettum lögmanna og verktaka, innbroti, þjófnaði, mótorhjólaslysi, ítrekuðum bílavandræðum, hugsanlegum útlimamissi, flóði og jú, kórónaveirufaraldri.

„Já, þetta er búið að vera rosalegt ár, vægt til orða tekið. Maður veit ekki hvernig þetta endar,“ sagði Héðinn í samtali við blaðamann DV. Héðinn og Elva tóku sig til fyrir rúmum tveim árum síðan og fluttu til Kosta Ríka og hafa þar lent í hremmingum sem setja hugtakið „fordæmalausir tímar,“ í algjörlega nýtt samhengi fyrir okkur hin. „Við vorum búin að vera svolítið á Spáni yfir sumartímann og fundum að okkur langaði að breyta til. Við ákváðum því að finna einhvern álitlegan stað í heiminum og fara á vit ævintýranna. Öll lönd heims komu til greina fyrst, og á endanum völdum við Kosta Ríka. Okkur fannst það tikka í flest boxin. Kosta Ríka er öruggt land, hreint, þar er áhersla lögð á mennta- og menningarmál, heilbrigðisþjónustan í lagi og enginn her og ekkert vesen. Við bara skelltum okkur hingað,“ sagði Héðinn.

Aðeins voru þrír mánuðir liðnir af ævintýradvölinni í Mið-Ameríku þegar fjölskyldan lenti í innbroti. „Það var um miðja nótt sem var brotist inn til okkar og öllu steini léttara stolið. Það var auðvitað smá bakslag og erfitt fyrir okkur öll. Sjálfur var ég í Ástralíu sem gerði þetta enn erfiðara. Það var í sjálfu sér lítið við þessu að gera og við bara héldum áfram,“ sagði Héðinn. Fyrsta árið, segir hann, fór að mestu í að átta sig á því hvað þau ætluðu að gera í landinu. Að lokum ákvað fjölskyldan, þvert á fyrri yfirlýsingar þeirra, að opna veitingastað. „Við vorum búin að ákveða að gera það aldrei, en það var ákvörðunin.“

Svik, prettir, innbrot og Covid

„Við fundum verktaka í gegnum lögfræðing í landinu. Lögfræðingurinn átti samkvæmt okkar samningi að taka við peningunum og vera milliliður milli okkar og verktakans. Við treystum á þeim tíma lögmanni þessum ágætlega, en það kom svo á daginn að lögmaðurinn og verktakinn voru í einhverskonar samstarfi bakvið okkur.“ Þessi svik lögfræðingsins og verktakans kostuðu fjölskylduna dágóða summu og þriggja mánaða töf á opnun. „Vegna tafanna misstum við af ferðamannaatímabilinu þarna yfir jólin.“ Að lokum opnaði staðurinn í febrúar.

Fljótlega eftir opnun veitingastaðarins, eða aðeins tveimur vikum síðar, er brotist inn á veitingastaðinn og öll verðmæti tekin. „Vínið, peningakassinn, allt saman. Við vorum með myndavélar og lögreglan náði að handtaka innbrotsþjófinn næsta dag, en við fengum aldrei neitt af þýfinu til baka,“ útskýrir Héðinn. Áfram héldu þau, ótrauð.

„Svo gerist það að við tökum eftir því að staðurinn er að verða vinsæll. Við erum þá komin með sex manns í vinnu og hlutirnir líta sæmilega út, þá skellur Covid á og túristarnir hverfa. Fljótlega eftir það fara heimamennirnir að tínast burt.“ Kosta Ríka, svipað og hérna heima, reiðir sig mikið á ferðamenn og ferðaþjónusta veigamikill hluti hagkerfisins. „Við horfðum bara á viðskiptavini okkar hverfa einn af öðrum. Atvinnuleysi jókst í landinu og við þurftum líka að fækka starfsfólki og stytta opnunartímann.“

Fótlegg fátækari í fjóra daga

Kórónuveirufaraldurinn gerði það líka að verkum að skólum var lokað og voru strákarnir þá settir í Zoom kennslu. „Svo á föstudagskvöldi verð ég var við það að öryggiskerfi veitingastaðarins gaf til kynna að ein hurð veitingastaðarins væri opin. Ég ákveð að bruna á veitingastaðinn á mótorhjólinu mínu og athuga málið.“ Á leiðinni þvælist iguana eðla í veg fyrir Héðinn sem endar út í skurði með mótorhjólið ofan á sér. „Ég finn að bensínið lekur yfir mig og ég hugsa bara ef það kviknar í þá er ég í mjög vondum málum. Ég næ að velta hjólinu af mér og held áfram för.“

Daginn eftir áttaði Héðinn sig á því að hann hafði verið í losti daginn áður. Héðinn reyndist töluvert slasaður en eftir læknaheimsókn kom á daginn að annar fóturinn væri þakinn annars stigs brunasárum eftir púströr mótorhjólsins og pinni úr hjólinu hafði gengið inn í hæl á hinum fætinum. Í því sári hafði myndast alvarleg sýking sem læknar Héðins sögðu að myndi kosta hann fótinn. „Bráðasýkingar eru mjög alvarlegar í þessum heimshluta,“ segir Héðinn, „og það er ekki óalgengt að þeir leysi slíkar bráðasýkingar með því að taka útlimi.“ Fjórum dögum síðar kom á daginn að Héðinn fékk að halda fætinum. Í fjóra daga hélt Héðinn að fjarlægja þyrfti fótlegg hans. Við tók talsverð meðferð við sýkingu og brunasárum og þurfti hann meðal annars að fara til læknis daglega í tíu daga og gangast undir mjög sársaukafulla meðferð við brunasárum og sýkingu.

Viðvörunin sem Héðinn var að gá að, reyndist vera batteríslaus skynjari.

Héðinn er listakokkur. Mynd: TM

Iguanaeðlur gera sig heimakomnar

„Svo lentum við auðvitað í, eins og flestir veitingahúsaeigendur kannski, allskonar svikum og prettum. Þjófnaður er mjög algengt vandamál. Við settum til dæmis upp, á þessum erfiðu tímum, ókeypis mat á mánudögum fyrir þá sem það þurfti en urðum strax vör við jakkafataklætt fólk leggja rándýrum bílum sínum fyrir utan og heimta ókeypis mat.“ Þar að auki bilaði bíllinn okkar þrisvar, fjórum sinnum sprakk dekk undir honum. Mótorhjólið var í tætlum eftir slysið. Ísvél sem þau keyptu í janúar sprakk með látum svo að eldur spúðist út um op hennar, tvisvar.

Þetta voru hvorki fyrstu kynni Héðins af heilbrigðiskerfi Kosta Ríka né iguanaeðlum, en á fyrra heimili fjölskyldunnar hafði fjölskyldan farið að taka eftir brúnum taumum lekandi niður veggi úr loftinu. Kom þá á daginn að veggir hússins voru fullir af maurum og taumarnir sem láku niður veggi voru saur úr iguanaeðlum sem hreiðrað höfðu um sig í lofti hússins. Þegar Héðinn og annar sonur hans þurftu að leita læknishjálpar vegna útbrota af völdum mauranna, flutti fjölskyldan.

Fluttist þá fjölskyldan til Potrero, sem er bær utan við Brasilito, þar sem veitingastaðurinn er. Árið í ár hefur verið eitt mesta rigningarsumar í sögu Kosta Ríka. Eftir mikla rigningarnótt lenti fjölskyldan í því að flætt hafði inn í húsið og nokkurra sentimetra vatnslag á gólfi þess. Pappakassar með verðmætum bókum, listaverk og dýr tölvubúnaður skemmdist og er margt af því ónýtt.

Strákarnir sendir heim og óvænt dvöl í París

Sem fyrr sagði var skólahald aflagt í mars, ásamt íþróttum og öllum tómstundum barna. Þar sem ekkert var fyrir krakkana að gera ákváðu foreldrarnir að senda börnin til foreldra sinna á Akureyri. „Þetta var orðið frekar dapurlegt tímabil fyrir strákana,“ sagði Héðinn. „Eftir sumarið ákváðum við því að best væri fyrir strákana að komast heim í skóla. Þá ákváðum við í samráði við frábærar ömmur og afa á Akureyri, að þeir gætu bara komið heim í skóla þangað.“ Það var hárrétt ákvörðun, hér er enn ekkert skólahald og þeir eru ekki að missa af neinu hérna.

„Ég tók að mér að koma þeim heim og við flugum saman frá San Jose í Kosta Ríka, til Madrídar, þaðan til Parísar og svo til Kaupmannahafnar þar sem strákarnir flugu síðasta legginn heim í flugfreyjufylgd,“ sagði Héðinn. „Það gekk allt í lagi, við náðum að kíkja á Eiffel turninn og strákarnir voru glaðir að fá vestrænan mat.“ Þegar Héðinn svo snýr við frá Kaupmannahöfn lendir hann í pattstöðu. „Á flugvellinum í París er bara hægt að fá Covid próf á 72 klukkustundum, en yfirvöld í Kosta Ríka hleypa engum inn nema þeir séu með Covid próf sem er 48 klukkustunda gamalt eða yngra.“ Héðinn hafði samband við sendiráðið í París, heilbrigðisyfirvöld í Frakklandi og í Kosta Ríka, en allt þetta tók sinn tíma. Héðinn var fastur í þrjár vikur í París á meðan úr þessu fékkst skorið.

„Smá pása“ tekin á ævintýrunum

„Þetta er auðvitað ævintýri líkast, maður er hættur að kippa sér upp við þetta. Og því miður farinn að reikna með að ef eitthvað getur farið úrskeiðis, þá mun það fara úrskeiðis,“ segir hann. Aðspurður hvað tekur nú við svarar Héðinn að fjölskyldan geti ekki verið aðskilin lengur. „Við getum ekkert verið í burtu frá börnunum okkar í lengri tíma og við erum svona í því ljósi farin að velta fyrir okkur næstu skrefum.“ Héðinn segir jafnframt að ekki gangi að halda börnunum úr skóla. Nú er því stefnan tekin á að fara heim og vera með börnunum í vetur. „Strákarnir eru mjög glaðir á Akureyri og komnir í góðan félagsskap og íþróttir og svona. Enginn veit sína framtíð og allt það, en nú er komið að því að fara heim.“

Héðinn segir að í þessu felist ekki uppgjöf, en að hollt sé að þekkja sín mörk og engar forsendur séu fyrir veitingarekstri á Covid tímum. Aðspurður hvort stefnan sé að snúa aftur til Kosta Ríka þegar Covid ástandinu linnir svarar Héðinn: „Það veltur bara svolítið á því hver okkar staða verður þegar heim er komið. Ef við sjáum að börnin eru glöð heima og við komin í ánægjuleg verkefni. Við útilokum ekki neitt, en við þurfum held ég að taka smá pásu á ævintýrunum í bili.“

„Það eru mörk á hversu mikil þrautseigjan getur verið.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Lögregla kölluð út vegna tjaldbúða í miðborginni

Lögregla kölluð út vegna tjaldbúða í miðborginni
Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Fordæmalaus staða gæti komið upp á gosstöðvunum á Reykjanesskaga – „Þetta er fyrsta skiptið sem við sjáum svona“

Fordæmalaus staða gæti komið upp á gosstöðvunum á Reykjanesskaga – „Þetta er fyrsta skiptið sem við sjáum svona“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Jóhann hlaut dóm í héraði – Leigði ólöglega brunagildru í Þverholti til búsetu og stofnaði lífum í hættu

Jóhann hlaut dóm í héraði – Leigði ólöglega brunagildru í Þverholti til búsetu og stofnaði lífum í hættu
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ólafur Þ. Harðarson: Stjórnarflokkarnir eru að koma sér upp þægilegum merkimiðum þegar styttist í kosningar

Ólafur Þ. Harðarson: Stjórnarflokkarnir eru að koma sér upp þægilegum merkimiðum þegar styttist í kosningar
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Stofna góðgerðarfélag til minningar um Þuríði Örnu – Blásið til tónleikaveislu 1. maí

Stofna góðgerðarfélag til minningar um Þuríði Örnu – Blásið til tónleikaveislu 1. maí
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Næsta skref – byltingakenndar breytingar

Næsta skref – byltingakenndar breytingar