Loka þurfti um helgina gistiskýlinu á Granda vegna Covid-smits. Um er að ræða neyðarskýli fyrir unga heimilislausa karla sem opnað var árið 2019.
Samkvæmt upplýsingum frá Hólmfríði Helgu Sigurðardóttur, upplýsingafulltrúa Velferðarsviðs Reykjavíkurborgar, kom upp smit hjá starfsmanni gistiskýlisins og er hann kominn í einangrun og sjö starfsmenn eru komnir í sóttkví.
Fjórtán gestir gistiskýlisins þurftu jafnframt að fara í sóttkví og er tekið á móti þeim í sóttvarnahúsinu á Rauðarárstíg.
Loka þurfti gistiskýlinu þar sem sótthreinsa þarf húsið en þjónustan er eftir sem áður tryggð, því gistiskýlið á Lindargötu 48 tekur á móti öllum heimilislausum karlmönnum sem þurfa á gistingu að halda.