fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Fréttir

Margrét Gauja glímir enn við eftirköst COVID-19 – „Hvað verður um þetta fólk? Mun það ná sér?“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Sunnudaginn 7. júní 2020 12:08

Margrét Gauja

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þegar Margrét Gauja Magnúsdóttir, fyrrverandi bæjarfulltrúi og leiðsögumaður, ætlaði að ganga á Helgafellið á föstudag, að ráði sjúkraþjálfara, þá tóku þær ráðagerðir snöggan endi. Líkaminn sagði hingað og ekki lengra og nágranni fann hana ælandi út í garði á fjórum fótum og henni leið eins og hún væri að kafna.

Margrét, sem er á besta aldri og hefur ávallt verið við hestaheilsu, greindist með COVID-19 þann 26. mars síðastliðinn. Hún var laus við vírusinn fyrir lok apríl og fékk endanlega staðfestingu þess í byrjun maí. En því miður hefur hún glímt við ýmis og óútreiknanleg eftirköst sjúkdómsins síðan þá. Þó var Margrét ekki í hópi þeirra sem teljast vera með undirliggjandi vandamál og varð aldrei mjög veik allan þann tíma sem hún var með COVID-19:

„Ég var að koma úr fjögurra klukkustunda jökulgöngu með átta manns í eftirdragi rétt áður en ég greindist. Ég hvorki reyki né drekk þó að ég hafi gert það áður en hef í raun verið í þeim hópi sem tekur góðri heilsu sem sjálfsagðri. Hef alltaf verið hraust. Ég veiktist ekkert rosalega þegar ég var með covid, ég fékk ekki lungnabólgu og ég var ekki að hósta upp úr mér einhverju ógeði eins og ég hef  heyrt að fólk hafi lent í. Ég er mjög þakklát fyrir það,“ segir Margrét í viðtali við DV. Vissulega var hún þó með óþægileg einkenni:

„Ég var með hita í fjórar vikur, hausverk og vöðvaverki og alls konar annað skrýtið. En ég þurfti aldrei að leggjast inn á spítala.“

Margrét birti færslu á Facebook um atvikið á föstudag sem er að finna hér undir greininni. Það bakslag kemur eftir langa og nokkuð viðamikla endurhæfingu:

„Áður en þetta gerðist á föstudaginn var ég búin að eiga fjórar nokkuð góðar vikur, misorkumikil eftir dögum, stundum hausverkur, en ég hafði ekki veikst svona allan þann tíma. Ég er hjá sjúkraþjálfara tvisvar í viku og gengur vel og svo er ég í fjartímum í öndungarjóga, einkatímum hjá vinkonu minni. Í rauninni gengur þetta vel og ég er að gera allt rétt, að ég held.“

Síðla laugardags var Margrét ennþá það slæm eftir veikindin á föstudaginn að hún treysti sér ekki í viðtal við blaðamann. Þegar símtalið átti sér síðan stað upp úr klukkan tíu á sunnudagsmorguninn sagði Margrét að henni liði eins og hún væri þunn, sem væri nokkuð gremjulegt því hún hefði einmitt hætt að drekka til að verða ekki þunn aftur.

Margbreytileg og óútreiknanleg eftirköst

Margrét leggur þunga áherslu á það að hún hafi hvorki skrifað FB-færsluna né veitt DV viðtal vegna þess að hún þurfi á vorkunn eða stuðningi að halda. Hún sé að vinna ötullega að sínum bata og hafi sterkt bakland. En margir í þeim hópi sem glímir við langvarandi eftirköst eftir COVID-19 upplifa sig eina. Það er eins og kerfið hafi ekki gert ráð fyrir þeim og afleiðingarnar, þó að þær bitni á litlum hluta þeirra sem fengið hafa sjúkdóminn, virðast óhugnanlegar og ófyrirsjáanlegar með öllu. Margrét hefur meðal annars heyrt um Íslendinga sem hafa fengið blóðtappa í eftirköstum af sjúkdómnum. Óvissan er mikil og vekur bæði ótta og einmanakennd:

„Ef það eru fleiri en 1800 manns sem fengu þessa greiningu hér á landi þá eru örugglega fleiri en ég í þessum sporum. Ef einhver þeirra lesa þetta þá vita þau að þau eru ekki ein og þau eru ekki geðveik. Ég hringdi buguð í covid-deildina á föstudagskvöld og grenjaði bara, af því ég skil þetta ekki. Ég er gamall náttúrufræðikennari og ég vil fá að vita hvað er að mér. Mér var hálfpartinn bent á að tala við sálfræðing. En ég er í mjög góðu andlegu jafnvægi og þarf ekki sálfræðing út af þessu. Ég þarf að fá svör. Ég get ekki einu sinni spurt Google um þetta vegna þess að Google veit þetta ekki. Þetta er rosalega einmanalegt. Ég hef lesið erlendar ritrýndar greinar um þessi mál og er í erlendum covid-hópi sem telur yfir 10.000 manns hvaðanæva út heiminum og þar er miklu dýpri umræða um eftirköst vírussins en hér heima. Mér finnst athyglin á eftirköstin mjög lítil hér á landi.“

Þakkar íslenskum stjórnvöldum

„Við skulum öll þakka íslenskum stjórnvöldum fyrir hvað þau tóku harkalega á þessu. Út um allan heim er fólk að þjást af alvarlegum eftirköstum þessa sjúkdóms, fólk sem er að þjást miklu meira en ég hef gert. Hvað verður um þetta fólk? Mun það ná sér?“

Margrét bendir á að ef ekki hefði verið tekið svona harkalega á faraldrinum hér á landi hefðu margfalt fleiri smitast og þar með hefðu margfalt fleiri fengið alvarleg eftirköst eins og hún, eða verri.

„Núna eru rannsóknir farnar benda til þess að þetta sé ekki lungnasjúkdómur eins og áður var talið heldur æða- og blóðsjúkdómur. Ég verð eitthvað svo ráðvillt yfir þessari óvissu og dálítið örvæntingarfull.“

Margrét segir að ákaflega vel hafi verið hugsað um sig þegar hún var með COVID-19: „Ég fékk fína þjónustu, daglegar hringingar og allt til fyrirmyndar. En núna upplifir maður sig dálítið einmana.“

Þrátt fyrir þessa erfiðleika horfir Margrét björtum augum til framtíðarinnar. „Ég er að byrja í nýju starfi þann 1. ágúst og eina verkefnið mitt þangað til að er að ná mér góðri.“

Hún bendir á að mikilvægt sé að gera sér grein fyrir því að sumir sem greinast með COVID-19 fá alvarleg og langvarandi eftirköst og það er engan veginn komið á hreint hverjar þær margbrotnu afleiðingar geta verið hjá hverjum og einum.

Mikilvægt að covid-greindir geti rætt saman

Margrét er í Facebook-hópnum „Við sem fengum COVID-19“. Þetta er lokaður hópur en mikilvægt er að allir sem fengið hafa COVID-19 viti af honum vegna þess að meðal þeirra eru einhverjir sem glíma við langvarandi eftirköst.

„Það er afskaplega mikilvægt að geta speglað sig í öðrum og þeir sem eru að glíma við eftirköst og vita ekki hvað er í gangi þurfa á vettvangi að halda þar sem þeir geta rætt þetta við aðra í sömu sporum. Þeir þurfa að vita að þeir séu ekki einir.“

Og eitt að lokum: „COVID-19 er ekki flensa. Ég verð pirruð þegar ég heyri sjúkdóminn kallaðan flensu. Ég veit hef fengið flensu og trúið mér, þetta er ekki það.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Einingaverksmiðjan og Rafmennt unnu til verðlauna á Verk og vit 

Einingaverksmiðjan og Rafmennt unnu til verðlauna á Verk og vit 
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Harmleikurinn á Akureyri – Nágranni ber fólkinu vel söguna – „Það fer rosalega lítið fyrir þeim“

Harmleikurinn á Akureyri – Nágranni ber fólkinu vel söguna – „Það fer rosalega lítið fyrir þeim“