Svo virðist sem sólin ætli í helgarfrí þessa helgina og leyfa skýjunum að taka við. Þykkt yfir landinu öllu og um og yfir 10 stiga hiti. Fínt veður til hverskyns útivistar þó sólin skíni ekki, enda lítill vindur og þurrt á landinu öllu. Hlýjast á suðurströndinni alla helgina og ef til vill tilvalin helgi til að prófa nýja golfvelli á Suðurlandinu eða skella sér í rauðu rennibrautina í sundlauginni á Hvolsvelli.
Á mánudag er væta í kortunum. Myndarlegur úrkomubakki stefnir að okkur að suðvestan og virðist ætla að banka á dyr höfuðborgarbúa á sunnudagskvöld. Sá bakki færir sig svo yfir landsmenn alla á mánudag.
Laugardagur: Fínt veður, um 10-12 gráður, logn svo að segja og þurrt. Lognið mun þó hreyfast aðeins hraðar á Austurlandi og uppsveitum Árnessýslu. Hlýjast á Suðurlandi eða um 15 gráður. Fer að blása á Snæfellsnesinu um kvöldið.
Sunnudagur: Hangir þurr fram að kvöldmat, logn og þurrt. Hlýjast meðfram suðurströndinni. Fer að blása og blotna um kvöldmatarleytið suðvestantil.