„Flokkur fólksins er skýr í sinni afstöðu. Ef landið skal opnað fyrir ferðamönnum þá skulu þeir greiða fyrir komu sína sjálfir hvort sem rætt er um sýnatöku, sóttkví eða annað uppihald. Gengi krónunnar er þeim mörgum verulega hagstætt nú. Íslenskir skattpíndir skattgreiðendur hafa fengið meira en nóg,“ segir Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, í grein í Morgunblaðinu í dag.
Töluverð umræða hefur verið um hverjir eigi að bera kostnaðinn af væntanlegri skimun ferðamanna á Keflavíkurflugvelli eftir 15. júní. Heimir Hannesson, fjármálastjóri Tröllaferða, skrifaði grein fyrir skömmu sem vakti mikla athygli, en þar endurómaði hann sjónarmið sem eru útbreidd innan ferðaþjónustunnar. Heimir benti í að Ísland hefði möguleika á því ná sterku frumkvæði í samkeppni um ferðamenn eftir að opnast tekur fyrir ferðalög að nýju seinni hluta sumars – ef af verður:
„Hvað prófin varðar er sjálfsagt best að hið opinbera standi undir kostnaðinum af þeim, enda skilja ferðamenn margfalda þá upphæð eftir sig. Þess utan er Ísland nógu dýr áfangastaður án kórónuveiruprófs sem aðgöngumiða. Til gagns má geta að útgreiddar atvinnuleysisbætur námu 12 milljörðum um síðustu mánaðamót. Fyrir það hljóta að fást talsvert af strokum. Raunar hafa önnur lönd, t.d. Japan rætt um að ganga enn lengra og niðurgreiða allan ferðakostnað ferðamanna,“
skrifaði Heimir. Heimir hélt því fram að atvinnuleysisbætur til starfsfólks í ferðaþjónustu væru margfalt dýrari fyrir samfélagið en kostnaður af skimun.
Inga telur að yfirvöld hefðu átt að grípa til harðra aðgerða vegna faraldursins mun fyrr og þá hefði fjárhagstjónið orðið minna þegar upp er staðið:
„Hvað ef við hefðum gripið til róttækra aðgerða tveimur til þremur vikum fyrr og tekið mark á þeim hörmungum sem aðrar þjóðir voru þegar að ganga í gegnum varðandi faraldurinn? Jú, það hefði botnfrosið í ferðamannaiðnaðinum og afleiddum störfum út frá honum. Annað hefði gengið sinn vanagang hér heima. Stjórnvöld hefðu gripið til efnahagsbjörgunaraðgerða. En þær hefðu kostað íslenska skattgreiðendur tugum milljarða minna. Við hefðum ekki þurft að loka neinu. Eldri borgarar á hjúkrunarheimilum og elliheimilum hefðu ekki þurft að vera einangraðir frá ástvinum sínum. Við værum ekki að greiða fúlgur fjár í óteljandi björgunaraðgerðir til að reyna að halda fyrirtækjum á floti sem ekki hefðu þurft að skerða þjónustu sína við okkur á nokkurn hátt.“
Inga segir að íslenskir skattgreiðendur hafi borið nægar byrðar vegna kórónuveirufaraldursins, kostnaðinn af skimun verði ferðamenn að bera.