fbpx
Mánudagur 29.apríl 2024
Fréttir

Hneig niður á æfingu og stefnir Óperunni fyrir samningsbrot

Ágúst Borgþór Sverrisson
Fimmtudaginn 16. apríl 2020 12:49

Mynd: Fréttablaðið / Anton

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þóra Einarsdóttir söngkona stefnir Íslensku óperunni vegna vangoldinna launa við uppfærslu á Brúðkaupi Fígarós síðastliðið haust. Þetta kemur fram í fréttaskýringu Fréttablaðsins í dag.

Að mati Félags íslenskra hljómlistarmanna, FÍH, braut Óperan samninga við söngvara í uppfærslunni en þessu er Steinunn Birna Ragnarsdóttir óperustjóri ósammála og segir við Fréttablaðið að heildargreiðslur Óperunnar til söngvaranna í Brúðkaupi Fígarós hafi verið hærri en taxtar FÍH geri ráð fyrir.

Þóra Einarsdóttir söngkona veitti DV viðtal vegna málsins en kröfur hennar snúast meðal annars um það að greiðslur hafi ekki verið í samræmi við vinnuálag:

„Það er mjög skýrt í okkar samningum að við erum til reiðu á æfingatíma innan vinnuverndarákvæða samninga FÍH og Íslensku óperunnar. Kjarni málsins er kannski sá að það var verið að þjappa saman æfingatímanum, líklega til að spara. Ég hef töluverða reynslu af að æfa fyrir óperur og venjulega er æfingatíminn um sjö vikur og þykir jafnvel knappt fyrir stykki eins og Brúðkaup Fígarós, sem er með lengri og flóknari óperum. Að gera allar sviðsæfingar á einum mánuði er rosalega strembið og krefst þess að allt gangi mjög vel. Þessu var þjappað inn í fjórar vikur og reyndar vorum við líka boðuð á æfingar fyrir þann tíma sem ekki var greitt fyrir heldur var okkur sagt að þær væru í boði fyrir okkur á vegum Óperunnar. Þau taka líka ekki með tímann sem fer í að mæta í hárgreiðslu og förðun heldur miða bara við strípaðan æfingatíma á sviði.

„Í grunninn snýst þetta um að við stöndum vörð um okkar vinnuaðstæður og getum staðið við okkar hlut. Ef þessi mörk á æfingatíma eru ekki virt hvar liggja þá mörkin? Við höfum ekkert í höndunum ef þessi samningsákvæði eru ekki virt.

Það er alveg ljóst að þau fara ekki eftir töxtum FÍH, gera samning við okkur einslega. Yngri söngvarar eru í þeirri stöðu að þeir halda að þeir þurfi bara að taka því sem að þeim er rétt. Ég er dálítið að taka slaginn fyrir þá. Það er verið að bjóða fyrir þennan æfingatíma greiðslur sem eru langt undir því lágmarki sem segir til um í samningi FÍH og Íslensku óperunnar. Við leitum til FÍH út af þessu því eitthvað þurfum við að gera og það er ekkert eðlilegra en að leita til síns stéttarfélags þegar svona kemur upp.“

Hneig niður á æfingu

Álagið á æfingum fyrir Brúðkaup Fígarós í fyrra mun hafa verið gífurlegt og hneig Þóra niður á æfingu skömmu fyrir frumsýningu:

„Þetta var bara á einni lokaæfingunni fyrir frumsýningu. Það var bara rosalega mikið álag á okkur. Maður er á hlaupum, er að syngja og í aksjón allan þennan tíma og þarf síðan að vinna úr öllum leiðbeiningum og nótum frá leikstjóra í hléum. Við höfum þessa samninga sem verja okkar starfsaðstæður þannig að við getum skilað okkar hlut sem bestum. Við erum svo mikið tilbúin að gera allt sem í okkar valdi stendur til að skila af okkur góðum sýningum. En einhvern tíma kemur að því að maður getur ekki meira. Við höfum bara stéttarfélagið til að verja okkur en það er svo sannarlega ekki þannig að við séum að gera miklar kröfur og biðja um mikla peninga. Það hafa íslenskir söngvarar aldrei gert.“

Segir laun söngvara lækka á meðan reksturinn versnar

Gunnar Hrafnsson, formaður FÍH, veltir því fyrir sér hvort stjórnunarkostnaður hafi hækkað hjá Íslensku óperunni en hann segir laun söngvara fara lækkandi en þó sé reksturinn í járnum. Hann hefur hins vegar ekki aðgang að ársreikningum Óperunnar:

„Ég bara velti því fyrir mér, ég veit ekki um það, þar sem ég hef ekki aðgang að þessum gögnum. En ég er búinn að taka tvö eða þrjú dæmi þar sem ég fer yfir söngvara sem eiga langa sögu og ég sé bara að laun þeirra lækka að raungildi yfir árabil.“

Þar sem Íslenska óperan er sjálfseignarstofnun ber henni ekki skylda til að opinbera ársreikninga. Gunnar segir annarra að afsanna kenningu hans um hækkandi stjórnunarkostnað:

„Ég leyfi mér að setja fram þá tilgátu að laun söngvara lækki og stjórnunarkostnaður hækki – það er þá annarra að afsanna það með tölulegum rökum en þetta er plagsiður í okkar umhverfi, tónlistarmanna og annarra listamanna, að það er alltaf talað eins og höfuðvandræði í listinni séu laun listamanna. En þarna erum við með stofnun sem fær 230 milljónir á ári til að setja upp eina óperu og nokkur smærri verkefni og hún getur ekki rekið sig. Þá spyr maður sig: Af hverju eru ekki allar tölur uppi á borðum?“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Snorri og Patrik vekja hneykslun: Konan hugsi um börnin og karlinn um peningana – „Gömlukallaraus í ungum mönnum“

Snorri og Patrik vekja hneykslun: Konan hugsi um börnin og karlinn um peningana – „Gömlukallaraus í ungum mönnum“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Þetta er umfjöllunin sem María Sigrún fékk ekki birta í Kveik

Þetta er umfjöllunin sem María Sigrún fékk ekki birta í Kveik
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Kári Hansen skilaði inn meðmælum til forseta Íslands rafrænt

Kári Hansen skilaði inn meðmælum til forseta Íslands rafrænt
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Löggan fellir niður sektir á þá sem voru gómaðir á nagladekkjum í vikunni

Löggan fellir niður sektir á þá sem voru gómaðir á nagladekkjum í vikunni