fbpx
Mánudagur 06.júlí 2020
Fréttir

Ólöf: „Góða fólkið fundar“ – Gerir lítið úr „málamyndasamkomulagi“ gegn ofbeldi og vændi

Ritstjórn DV
Miðvikudaginn 11. september 2019 08:58

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Ef hægt væri að semja sig frá mannlegum harmleik í Ráðhúsinu væri Ísland vímuefnalaust, ungmenni myndu öll stunda hópíþróttir og stjórnmálamenn gætu samið um að hér fyndu allir hamingjuna,“ segir Ólöf Skaftadóttir, ritstjóri Fréttablaðsins, í leiðara blaðsins í dag.

Þar skrifar Ólöf um samkomulag sem var undirritað í gær en það á meðal annars að sporna gegn vændi á hótelum og gistiheimilum og bæta öryggi á og við skemmtistaði borgarinnar. Ólöf gerir lítið úr þessu í leiðara sínum, sem ber yfirskriftina Góða fólkið fundar, og segir að samkomulagið um ofbeldislausa skemmtistaði sé „málamyndasamkomulag“ og samkomulag um vændislaus hótel sé „þýðingarlaust.“

„Reykjavíkurborg, Samtök ferðaþjónustu fyrir hönd skemmtistaða, lögreglan og slökkviliðið taka höndum saman um þessi háleitu markmið. Hin svokallaða ofbeldisvarnarnefnd borgarinnar ber ábyrgð á utanumhaldi,“ segir Ólöf og bendir á að til að ná markmiðum sínum treysti aðilar samkomulagsins á stefnugerð, samvinnu og ársfjórðungslega fundi. Þá sé því bent að þeim sem reka skemmtistaði og hafa lifibrauð sitt af vínsölu að „afgreiða ekki áfengi til þeirra sem sýnilega eru ölvaðir“ eins og það er orðað.

Ólöf segir að tilefnið sé ærið en það sé mikil einföldun að halda því fram að þetta muni skila miklum árangri. Hún nefnir nokkur dæmi máli sínu til stuðnings.

„Sannað er að gríðarlegt framboð af vændi sé í Reykjavík. Samt er áratugur frá því að lög tóku gildi um málaflokkinn sem áttu að ná til fólks í vændi og auðvelda því leið út. Hvorki virðist hafa gengið né rekið í þeirri baráttu, þótt margir mætir hafi reynt. Nú ætla embættismenn sér að hittast fjórum sinnum á ári til þess að uppræta þau þjóðfélagslegu mein sem engu ríki hefur lánast að uppræta. Kannski hefur samt best tekist til í Hollandi, þar sem vændi er löglegt og ekki úthýst þangað sem enginn sér.“

Ólöf gerir ekki lítið úr því að viðfangsefnið er bæði flókið og stórt en skilningsleysi á aðstæðum fólks sem stundar vændi eða beitir ofbeldi sé áþreifanlegt með málamyndaaðgerðum sem þessum.

„Rót vandans, í flestum tilfellum, er fíkn. Fíklar heyja baráttu fyrir lífi sínu á hverjum degi. Oft þurfa þeir að verða sér úti um efni eftir ógeðfelldum leiðum, vændi og afbrotum. Efnin eru dýr og oft keypt á svörtum markaði í undirheimum þar sem fáir sjá til og ofbeldi þrífst. Fíklarnir fá enga innihaldslýsingu á efnunum.“

Ólöf segir að heillavænlegra skref væri að útvega þeim lengst leiddu fíkniefnin eftir löglegum leiðum og uppi á borðum, opna neyslurými og fjölga skaðaminnkandi úrræðum.

„Sjálfboðaliðaverkefni á borð við Frú Ragnheiði, þar sem áhersla er lögð á að minnka skaðann sem hlýst af fíkniefnaneyslu, með því að útvega hreinar nálar, aðhlynningu og spjall, eru ómetanleg. Með aðgerðum í þá átt mætti bjarga mannslífum og koma í veg fyrir óhamingju. Þessi meinta góðmennska fer hins vegar á hilluna við hliðina á öðru fáránlegu samkomulagi sem kvað á um „Fíkniefnalaust Ísland árið 2000“.“

Lokað er fyrir athugasemdir
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Katrín svarar Kára
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Fólk sem fékk COVID-19 en lagðist ekki á spítala þarf endurhæfingu

Fólk sem fékk COVID-19 en lagðist ekki á spítala þarf endurhæfingu
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Hjálpartæki til að fylgja eftir mikilvægri endurhæfingu ekki talið nauðsynlegt og styrkbeiðni hafnað

Hjálpartæki til að fylgja eftir mikilvægri endurhæfingu ekki talið nauðsynlegt og styrkbeiðni hafnað
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Lögreglustjórakapall Áslaugar heldur áfram – Páley nýr lögreglustjóri á norðausturlandi

Lögreglustjórakapall Áslaugar heldur áfram – Páley nýr lögreglustjóri á norðausturlandi
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Tveir ofurölvi menn á vappi með innkaupakerru í Keflavík

Tveir ofurölvi menn á vappi með innkaupakerru í Keflavík