fbpx
Mánudagur 29.apríl 2024
Fréttir

„Ég er búin að tapa lífinu sem ég átti“

Auður Ösp
Laugardaginn 16. nóvember 2019 11:32

Sárþjáð Ivana á sjúkrahúsinu. Mynd: Úr einkasafni

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ivana Díaz Hernández segir vanrækslu lækna á bráðamóttöku Landspítalans og sjúkrahúsinu á Akranesi hafa leitt til þess að hún er óvinnufær í dag. Hún hyggst leita réttar síns í málinu og segir mistök læknanna hafa haft hörmulegar afleiðingar. Ivana er 21 árs en hún er fædd í Mexíkóborg. Hún flutti til Íslands í september 2016 en áður en veikindi hennar hófust starfaði hún sem snyrti- og naglafræðingur.

Féll tvisvar í yfirlið

Í janúar 2018 var Ivana í Mexíkóborg og fór til læknis sem skrifaði upp á hormónagetnaðarvörn. Í febrúar fór hún aftur heim til Íslands en í byrjun apríl fékk hún skyndilega blæðingar sem hættu ekki. Segist hún hafa haft samband við lækninn í Mexíkóborg sem hafi ráðlagt henni að hætta inntöku lyfsins. Þann 27. apríl leitaði Ivana á bráðamóttöku Landspítalans í Fossvogi, eftir að hafa blætt stanslaust í 25 daga. Það var búið að líða yfir mig tvisvar sinnum stuttu áður en ég kom á spítalann og ég var orðin mjög veikburða.“

Hún segir starfsfólk bráðamóttökunnar ekki hafa sýnt ástandi hennar nokkurn skilning, heldur hafi henni verið tjáð þurrlega að ekki væri um bráðatilfelli að ræða. „Mér var sagt að ég myndi þurfa að greiða 600 þúsund krónur bara fyrir innlögn, og aukalega fyrir allar skoðanir og rannsóknir. Þegar ég sagðist vera með sjúkdómatryggingu hjá Sjóvá var mér sagt að fara og tala við tryggingafélagið „og koma svo kannski aftur eftir það.“

Ivana segist hafa leitað á Læknavaktina í kjölfarið og hitt þar heimilislækni. Hann hafi skrifað upp á blæðingalyf, Cyklokapron, auk lyfs sem gefið er vegna járnskorts og blóðleysis. „Ég vaknaði daginn eftir með verki í kviðnum og átti erfitt með að anda.“

Hún segir líðan síðan hafa hríðversnað næstu daga og að lokum hafi hún hringt í kvensjúkdómalækni móður sinnar í Mexíkóborg, sem hafi sagt henni að hætta samstundis að taka inn blæðingalyfið, og hringja aftur daginn eftir. Ivana segist hafa vaknað daginn eftir, enn sárkvalin, og ákveðið að leita á sjúkrahúsið á Akranesi, í von um að fá þar læknishjálp. Eftir að hafa reitt fram 14.200 krónur, var henni vísað inn til læknis.

„Hann sagði við mig: „Ég er ekki að segja að þú sért að þykjast, en ég hef séð fólk sem er kvalið, og þú ert ekki kvalin.“

Hún segir lækninn hafa skrifað upp á hormónalyf og verkjalyf, en ekkert spurt út í sjúkdómasöguna. Þegar vinkona mín, sem kom með mér, spurði hvort hann ætlaði ekki að skoða mig neitt meira eða skrifa upp á fleiri lyf, þá sagði henni að fara út út herberginu.“

Ivana segir að eftir henni var tjáð af starfsmanni apóteksins að lyfin sem henni hafði verið ávísað væru hormónar og verkjalyf, hafi hún farið aftur á spítalann og krafist þess að fá að hitta annan lækni. „Mér var þá vísað á annan lækni sem tók blóðprufur og mældi blóðþrýsting og hita og lét síðan kvensjúkdómalækni skoða mig.“

Ivana segist því næst hafa verið send heim með tvær gerðir af sýklalyfjum. Hún hafi farið aftur til Reykjavíkur eftir þetta og eytt deginum í rúminu, en verkirnir hurfu ekki heldur fóru versnandi með hverri mínútu. Hún hafi fengið verk í fótlegg og átt stöðugt erfiðara með andardrátt. „Daginn eftir vaknaði ég með hjartsláttartruflanir og ólýsanlegan sársauka. Vinstri fóturinn var orðinn stokkbólginn og fjólublár á litinn.“ Systir Ivönu og mágur hringdu á sjúkrabíl og var Ivana flutt á bráðamóttöku, þar sem hún gekkst undir blóðprufur og myndatöku. Hún reyndist vera með segamyndun í bláæðum og lungnasegarek, sem rakið er til þess að henni voru áður ávísuð hormónalyf.

Engin eftirfylgni

Ivana var lögð inn á hjartadeild í kjölfarið, þar sem hún gekkst undir frekari rannsóknir. Hún segir engan af þeim læknum sem hún hitti hafa sinnt henni lengur en í nokkrar mínútur, og hún hafi heldur aldrei hitt sama lækninn, fyrir utan einn. Henni voru gefin viðeigandi lyf og verkjalyf.

Ivana segist hafa verið útskrifuð af sjúkrahúsinu 6. maí. „Ég fékk engar leiðbeiningar um framhaldið eða hvernig ég ætti að fara að því að jafna mig heima. Það sagði mér enginn hvað ég ætti að gefa mér mikinn tíma í að hvíla mig eða hversu mikið ég mætti hreyfa mig. Ég fékk engar sérstakar ráðleggingar eða leiðbeiningar og ég hafði enga hugmynd um hvort ég ætti að vera vakandi fyrir einhverjum einkennum.“

Við heimkomuna var hún áfram með stöðuga verki, og í ofanálag hafi hinn fóturinn byrjað að bólgna líka. Leitaði hún enn og aftur á bráðamóttökuna, þar sem fóturinn var mældur og hún gekkst undir sneiðmyndatöku en síðan sagt að þræðing væri of áhættusöm. Ivana segist hafa hitt lungnasérfræðing nokkrum vikum síðar, þann 16. maí, en hann hafi samstundis fyrirskipað þræðingu og sagt henni að hún hefði fyrir löngu átt að gangast undir slíka aðgerð. Ivana segir heilsu sína í rúst eftir þetta. „Ég hef ekki tölu á því hversu oft ég hef þurft að leita á bráðamóttöku undanfarna mánuði, og það virðist ekkert hægt að gera til að hjálpa mér. Ég var stöðugt fjarverandi úr vinnu og endaði á því að hætta í vinnunni, sem ég hafði haft mjög gaman af og gaf mér góðar tekjur.“

Dagarnir líða hægt

Ivana segir augljóst að veikindi hennar megi rekja til vanrækslu lækna. „Ég væri ekki í þessari stöðu ef einhver af læknunum sem ég hitti hefði sýnt raunverulegan áhuga á því að finna út hvert vandamálið var. Ef einhver þeirra hefði kannað sjúkdómasöguna mína,“ segir hún. „Það erfiðasta við þetta allt saman er að ég er búin að tapa lífinu sem ég átti, rútínunni minni. Bara það að ganga upp stiga, eða ganga nokkra metra er þrekraun. Ég get ekki gert neitt nema vera heima, ég get ekki farið út og hitt fólk. Dagarnir líða mjög hægt að og það er mjög erfitt að halda dampi. Ég get ekki sinnt heimilinu, en sem betur fer er maðurinn minn til staðar og getur hjálpað mér, auk þess sem foreldrar mínir hafa komið og verið til staðar.“

Ivana segir að augljóslega hafi allt þetta ferli haft slæm áhrif á fjárhagslegu hliðina. „Við vitum öll að Ísland er dýrt land, en ef þú ert í fullri vinnu og skipuleggur fjármálin þá áttu að geta lifað ágætlega. Ég fæ takmarkaðar bætur frá stéttarfélaginu mínu, VR en það er engan veginn nóg til að lifa og greiða fyrir leigu, mat, lyf, lækniskostnað og lögfræðikostnað.“

Lögfræðingur hennar hefur ráðlagt henni að sækja um örorkubætur og þá vonast hún til að komast í endurhæfingu á Reykjalundi sem fyrst. „Það gefur mér allavega smá hvatningu og von. Allt þetta ferli er búið hafa hrikalegar afleiðingar, líkamlegar, tilfinningalegar og fjárhagslegar. Ekki bara fyrir mig, heldur alla í kringum mig.“

Ivana er íslenskur ríkisborgari og á því rétt á einhverjum niðurgreiðslum frá Sjúktratryggingum. Hún stendur þó frammi fyrir gífurlegum kostnaði þegar kemur að lyfjakaupum, endurhæfingu og lögfræðikostnaði.  Á vef Gofundme er búið að hrinda af stað söfnun þar sem hægt er að styðja við bakið á Ivönu með frjálsum fjárframlögum. Margt smátt gerir eitt stórt.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Framsóknarmenn styðji ÁTVR og forvarnir – „Atlaga Sjálfstæðisflokksins að ÁTVR er ævintýraleg“

Framsóknarmenn styðji ÁTVR og forvarnir – „Atlaga Sjálfstæðisflokksins að ÁTVR er ævintýraleg“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Pálmatré raunhæft verkefni en aðeins eitt tré mun rísa

Pálmatré raunhæft verkefni en aðeins eitt tré mun rísa
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Grænkerar harma auglýsingar forsetaframbjóðenda – „Borða pulsur úr gösuðum þjáðum svínum“

Grænkerar harma auglýsingar forsetaframbjóðenda – „Borða pulsur úr gösuðum þjáðum svínum“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Mótmælin á Tenerife – Vill ekki ferðamenn með „allt-innifalið“ armbönd

Mótmælin á Tenerife – Vill ekki ferðamenn með „allt-innifalið“ armbönd