fbpx
Þriðjudagur 13.apríl 2021
FréttirLeiðari

Glæpur og refsing

Lilja Katrín Gunnarsdóttir
Sunnudaginn 6. október 2019 17:15

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ég var komin á „gamalsaldur“ þegar ég eignaðist mína fyrstu íbúð. Ég var komin yfir þrítugt, enda höfðu jafnaldrar mínir lítinn áhuga á að eyða peningum í steinsteypu upp úr tvítugu. Það var ýmislegt annað sem lenti ofar í forgangsröðuninni, misgáfulegt kannski. Þessi fyrsta íbúð mín var draumur í mínum augum. Heilir 56 fermetrar í gömlu hús á Laugarnesinu. Þvottavélin við hliðina á ísskápnum og herbergið fyrir þá einkadótturina stúkað af í stofunni. Fimmtíu kílóa túbusjónvarpið rammaði inn bjarta stofuna og fimm þúsund króna sófinn af nytjamarkaðinum yljaði mér á köldum vetrarkvöldum.

Það má með sanni segja að ég hafi skorið við nögl í þessum búskap mínum. Ég var einstæð móðir og einstaklega hagsýn í innkaupum, enda leyfði launaseðillinn ekki annað. Ég átti samt mitt eigið heimili og sú tilfinning var ómóstæðileg, þó að ég borðaði grjónagraut stundum þrisvar sinnum í viku og pylsupasta þess á milli.

Svo gerðist lífið og ég sameinaðist annarri dásamlegri fjölskyldu. Við ákváðum að fara saman í ævintýri til Taílands í þrjá mánuði. Ég var staðráðin í að leigja út þessa draumaíbúð mína til einhvers sem ég kannaðist við. Það tókst og hélt ég leiguverðinu í lágmarki. Þegar ég var búin að borga af íbúðalánunum, hita, rafmagn, net og sjónvarp átti ég um það bil tuttugu þúsund krónur eftir af leigutekjunum á mánuði.

Þegar heim var komið ákvað ég að það væri orðið tímabært að selja þessa perlu á Laugarnesinu sökum þess að fjölskyldustærð mín hafði óvænt margfaldast. Hún seldist strax og fékk ég ágætis pening upp í næstu eign við þessa sölu. Ég var ansi lukkuleg með þetta allt saman.

Þar til kom að gerð skattframtals. Þá féllust mér hendur. Ég gaf að sjálfsögðu leigutekjurnar upp en mér til mikillar undrunar stóðu útreikningarnir þannig að ég þurfti að borga rúmlega hundrað þúsund krónur í skatt af tekjunum, þótt ég hefði aðeins fengið um sextíu þúsund krónur í vasann af þeim þessa þrjá mánuði. Ég fór að grennslast fyrir um þetta og fékk þau svör að ég gæti sýnt fram á að ég hefði borgað leigu annars staðar til að lækka þennan skatt. Því skilaði ég inn langtímaleigu á Airbnb í Taílandi þessu til niðurfellingar. Þá sagði tölvan bara nei. Langtímaleiga á Airbnb var ekki tekin gild. Gott og vel. En hvað ef ég sýndi fram á rekstrarkostnað íbúðarinnar og hve lítið ég hefði fengið í eigin vasa út frá þessum tekjum? Aftur sagði tölvan þvert nei. Ég endaði því í fimmtíu þúsund króna mínus eftir þetta leiguævintýri.

Annað áfallið kom svo þegar ég rak augun í litla klausu um að ég hefði selt íbúðina mína innan tveggja ára. Því þyrfti ég að borga enn meiri skatt. Þessi klausa var víst til að fyrirbyggja fasteignabrask.

Ég hugsa oft til þessa skattframtals og hvað ég var vonsvikin. Vonsvikin yfir því að standa í skilum þó að það bitnaði á fjölbreytileikanum á matarborðinu. Vonsvikin yfir því að hafa ekki látið græðgina taka völdin og farið fram á sanngjarnar leigutekjur. Vonsvikin yfir því að hafa dirfst að selja íbúðina mína innan tveggja ára einfaldlega út af því að ég var ástfangin. Ég fékk enga umbun fyrir að standa mig vel. Og það hefur ekkert breyst. Í staðinn fyrir hvatakerfi ákveða yfirvöld alltaf að búa til ný gjöld og skatta til að þvinga fólk til breytinga. Hækka bensínið svo ég skipti yfir í umhverfisvænan kost í staðinn fyrir að lækka gjöld á umhverfisvæna bíla og gefa mér einhver örlítil fríðindi fyrir orkuskiptin. Setja á urðunargjald svo ég hendi minna í staðinn fyrir að klappa mér á bakið fyrir að flokka í öll þessi ár og kenna mér hvernig best sé að minnka neysluna. Banna mér að nota plastpoka en refsa mér þegar heim er komið og ég fer að týna úr pokunum allar tilgangslausu plastumbúðirnar sem ég þarf svo sjálf að flokka og borga skatt af.

Það yrði lítið gert heima hjá mér ef hvatakerfið um húsverkin snerist um að sá sem þau innti af hendi myndi þurfa að borga með sér. Þetta er ekkert ofboðslega flókið dæmi nefnilega og myndi örugglega hvetja fleiri til dáða en álögur, skattar og gjöld.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Tiffany í Breiðablik
Fréttir
Í gær

Meghan Markle mætir ekki í jarðarförina – Prinsinn hittir drottninguna í fyrsta skipti eftir Oprah viðtalið

Meghan Markle mætir ekki í jarðarförina – Prinsinn hittir drottninguna í fyrsta skipti eftir Oprah viðtalið
Fréttir
Í gær

Allt sem þú þarft að vita um pilluna: Áhætta og ávinningur – Staðan á pillu fyrir karlmenn

Allt sem þú þarft að vita um pilluna: Áhætta og ávinningur – Staðan á pillu fyrir karlmenn