fbpx
Laugardagur 27.apríl 2024
Fréttir

Ólga í MR: Ásakanir um ógnarstjórn, einelti og geðþótta í hæfnismati

Ágúst Borgþór Sverrisson
Sunnudaginn 30. júní 2019 20:30

Sigríður Helga og Linda Rós. Mynd: Eyþór Árnason

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Ég vil vekja athygli á því hvernig staðið var að þessum hópuppsögnum í vor. Það má segja að ég komi fram fyrir hönd þeirra sem sagt var upp í vor á, að mínu mati, afar ófaglegan hátt,“ segir Sigríður Helga Sverrisdóttir, fyrrverandi kennari við Menntaskólann í Reykjavík, MR.

Nokkuð hefur verið fjallað um starfsanda í MR undanfarið í fjölmiðlum þar sem uppi hafa verið ásakanir um ómálefnalegar aðferðir við uppsagnir kennara, meintan slæman starfsanda í skólanum og meint einelti. Þær Sigríður Helga Sverrisdóttir og Linda Rós Michaelsdóttir hafa þar báðar stigið fram fyrir skjöldu og Elísabet Siemsen, rektor skólans frá því haustið 2017, hefur svarað fyrir hönd skólans, en henni vitanlega viðgengst ekki einelti í skólanum og telur hún að faglega hafi verið staðið að fækkun kennara í kjölfar niðurskurðar sem varð vegna styttingar framhaldsskólanáms úr fjórum árum í þrjú. Bæði Sigríður Helga og Linda Rós segjast hafa orðið fyrir einelti meðal nokkurra kennara og stjórnenda skólans án þess þó að þær vilji gera þá reynslu að aðalefni umkvartana sinna. Frá þeirra sjónarhóli er fjandskapurinn og einelti bundið við hluta kennara í enskudeild skólans og örfárra annarra, sem og stjórnendur hans.

Sigríður Helga og Linda Rós stíga nú fram að nýju og fara betur yfir málið í viðtali við DV og er saga Sigríðar Helgu þar í forgrunni. Þær telja báðar að stjórnendur skólans hafi lagað að eigin þörfum mælikvarða sem eiga að vera hlutlægir, við að meta hæfni kennara við skólann. „Það er merkilegt að þrír kennarar sem sagt hefur verið upp eiga það allir sameiginlegt að hafa gagnrýnt starfshætti og stjórnunarhætti rektors,“ segir Sigríður Helga.

Fram kom í samtali DV við rektor fyrr í vor að skera hefði þurft niður um 260 kennslustundir á viku vegna styttingar framhaldsskólans og niðurskurðurinn hefði verið mestur í ensku, íslensku og stærðfræði vegna þess að þar eru flestar kennslustundirnar.

„Svona ákvarðanir eru með því erfiðasta sem skólastjórnendur fara í gegnum og ég fullyrði að svona gerir enginn út í loftið. Stjórnandi tekur ekki svona ákvörðun að gamni sínu,“ segir Elísabet Siemsen, rektor MR, en hún tók við því starfi haustið 2017.

Sigríður Helga og Linda Rós benda á að fjármálaráðuneytið hafi gefið út árið 2011 leiðbeiningar til stjórnenda um uppsagnir ríkisstarfsmanna vegna rekstrarlegra ástæðna og þær sjái ekki að rektor hafi í einu eða neinu haft þessi gögn til hliðsjónar í uppsagnarferlinu.

Meintir eineltisgerendur látnir meta samskiptahæfni kennarans

„Það er verið að nota niðurskurð í kennslu til að fara í hreinsanir og losa sig við þá sem eru ekki þóknanlegir,” sagði Linda Rós við DV fyrr í vor.

Sex fastráðnum kennurum var sagt upp við MR í vor og fimmtán lausráðnir kennarar fengu ekki áframhaldandi starfssamning. Undanfari uppsagnanna var starfshæfismat sem lagt var á alla kennara skólans, í þremur þáttum, þar sem menntun vó 40%, starfsreynsla 30% og aðrir þættir, flestir huglægir, mynda 30%. Þær Sigríður Helga og Linda Rós telja að stjórnendur skólans hafi notað þennan síðasta hluta matsins til að draga niður þá kennara sem þeim er persónulega í nöp við, eða hafa dirfst að gagnrýna stjórnunarhætti í skólanum, og þessi vinnubrögð geri matið að skrípaleik. Nokkrir undirliðir eru undir þessum þriðja lið, þar á meðal samskipti og samvinnuhæfni. Sigríður Helga bendir á að þar séu kennarar sem hún sakar um einelti látnir leggja mat á samskiptahæfni hennar, auk stjórnenda sem hafi ráðist harkalega að henni.

„Þetta fólk er allt vanhæft til að leggja mat á samvinnuhæfni mína; þarna eru samkennarar úr enskudeildinni sem lögðu mig í einelti og rektor og konrektor sem reyndu að bola mér frá störfum í haust,“ segir Sigríður Helga en hún kom illa út úr þessum undirlið. Einnig kom hún illa út úr undirlið sem kallast „Viðmót og þjónusta“. Hún telur þar vera um hreinan tilbúning að ræða.

„Við hverja töluðu þau eiginlega þegar þau könnuðu viðmót mitt og þjónustulund? Ég gæti nefnt marga nemendur og samstarfsmenn sem bera mér vel söguna hvað þetta varðar.“ Enn einn undirliðurinn er kennslumat nemenda en þar segist Sigríður Helga hafa verið í meðallagi. „Ég tel að 16 til 17 ára nemendur hafi varla þroska til að meta hæfni kennara og hef horft upp á hvernig þessar kennslukannanir eru notaðar af sumum nemendum til að kvarta undan kennurum sem þeim þykja vera of strangir,“ segir Sigríður Helga.

Mynd: Eyþór Árnason

Eineltið hófst með nýjum kennurum

„Ég byrjaði að kenna við skólann árið 2009 en árið 2012 og 2013 komu tveir nýir yngri kennarar til starfa við deildina. Fljótlega tók að bera á andúð og ríg í minn garð frá þeim. Ástandið fór versnandi, ef til vill vegna þess að því miður lét ég þetta yfir mig ganga of lengi. Þáverandi fagstjóra var kunnugt um ástandið en kaus að gera ekkert í því. Það kom fram í samtali mínu við hann vorið 2017.“

Að sögn Sigríðar Helgu fólst eineltið meðal annars í rógburði og slúðri, röngum ásökunum um frammistöðu í starfi, vinnuframlag hennar var talað niður, og óréttmæt gagnrýni var viðhöfð í viðurvist annarra. Enn fremur fólst eineltið í hunsun og útilokun frá ferðum deildarinnar, sumum samkvæmum og ýmsu öðru sem kennararnir gerðu sameiginlega. Segir Sigríður Helga að nokkrir kennarar hafi myndað klíku sem var henni mjög andsnúin.

„Mín mistök voru þau að fara ekki með þetta til fyrrverandi rektors. Ég þraukaði áfram og vonaði alltaf að ástandið myndi lagast. Svo er það þessi þolendaskömm, maður skammast sín og reynir að láta eins og ekkert sé, vill ekki viðurkenna þetta. Já, ég reyndi of lengi að umbera ástandið.

Vorið 2017 var mér hins vegar nóg boðið þegar ég frétti að einn af yngri kennurunum væri orðinn fagstjóri. Þar fannst mér framhjá mér gengið. Það hafði aldrei verið rætt um það í mín eyru að fyrrverandi fagstjóri hygðist hætta sem fagstjóri þannig að það hvarflaði ekki að mér að sækja um.“ Sigríður Helga segir dæmigert fyrir ástandið og viðmótið gagnvart henni að hún skyldi ekki hafa fengið að vita um þetta.

Í kjölfarið ræddi hún við þáverandi rektor skólans, Yngva Pétursson – sem hún ber vel söguna – og skýrði honum frá eineltinu auk þess sem hún óskaði eftir ársleyfi frá störfum. Þann tíma notaði hún til að kenna við Fjölbrautaskólann við Ármúla. Þar var hún við störf í einn vetur og kunni afar vel við sig.

Mynd: Eyþór Árnason
(F.v.) Linda Rós Michaelsdóttir og Sigríður Helga Sverrisdóttir

Telur fundinn hafa verið vel undirbúna árás

„Ég var alltaf að vona að þetta myndi lagast en ég fann strax þegar ég kom aftur síðastliðið haust að ástandið hafði bara versnað og ég fann að þetta yrði mjög erfitt fyrir mig,“ segir Sigríður Helga. Nýr rektor hafði tekið við í upphafi skólaársins sem Sigríður kenndi í FÁ, núverandi rektor, Elísabet Siemsen, og Sigríður Helga leitaði til hennar.

„Ég fór á fund rektors 3. september 2018 og rakti henni alla þessa sögu, rakti henni fjölmörg dæmi, hún skrifaði þetta allt samviskusamlega niður og sagðist ætla að ræða við aðra aðila í deildinni. Ég óskaði eftir því að fenginn yrði óháður fagaðili inn til að taka á þessu vandamáli, miklu betra að fá utanaðkomandi aðila til að rannsaka vandamál sem fengið hefur að grassera þetta lengi í skólanum, þar sem ákveðnir gerendur fengu að vaða uppi og höfðu náð miklum ítökum. Rektor var jákvæð og sagðist ætla að ræða málið við hina, sem hún og gerði nema hún talaði aldrei við Lindu Rós.

Það sem gerist í kjölfarið er að ástandið versnar um allan helming. Þeim í deildinni mislíkaði mjög að ég hefði tjáð mig við rektor, ástandið hafði verið slæmt fyrir en núna var ég alveg úti í kuldanum. Mér var ekki heilsað. Í raun var orðið óvinnufært.“

Ýkjur og útúrsnúningur

Nokkrum vikum síðar hafði Sigríður Helga aftur samband við rektor og spurði hvort hún ætlaði að aðhafast eitthvað. Í kjölfar þess segir hún að ástandið hafi lagast örlítið. En þann 12. nóvember 2018 féll stóra bomban:

„Þann 12. nóvember var ég kölluð með nokkurra klukkustunda fyrirvara á fund rektors. Ég vissi ekki erindið og hafði ekki tíma til að kalla til trúnaðarmann, vissi reyndar ekki hvort þörf væri á því, en ég var við kennslu þegar ég fékk fundarboðið.

Svo mæti ég til fundarins og þarna er konrektor auk rektors. Er mér sagt að umræðuefnið séu kvartanir frá nemendum en þau hafi fengið fjölda kvartana. Ég kom gjörsamlega af fjöllum og spyr hvaða kvartanir þetta séu. Rektor fer þá að lesa upp af blöðum hjá sér, tíunda ásakanir sem í mínum eyrum voru að mestu leyti stórkostlegar ýkjur eða útúrsnúningar, sumt algjör uppspuni, en einstaka umkvörtun átti sér einhverja stoð sem ég reyndi að svara fyrir. Ég fékk ekki að vita hvað þetta væru margir nemendur en rektor lagði áherslu á að þetta væru alvarlegar ásakanir og gerði mikið úr þessu.“ Engu að síðu hafði rektor á þessari stundu ekkert aðhafst í að sannreyna þessar ásakanir.

Er DV innir Sigríði Helgu eftir því í hverju þessar ásakanir hafi verið fólgnar segir hún:

„Ég átti að vera svo ströng, það má ekki vera strangur við nemendur og það má ekki lengur gera kröfur til nemenda. Sumir þeirra taka því illa. Það hefur sigið á ógæfuhliðina í þessum efnum á síðustu þremur árum og tengist það líklega styttingu framhaldsskólans. Í MR hefur það tíðkast að nemendur séu látnir læra heima. Ég uppgötvaði fljótt eftir að skólinn hófst þetta haust að nemendur á fyrsta ári töldu sig ekki þurfa að læra heima því nú útskrifast fjöldi nemenda úr grunnskóla án þess að hafa nokkurn tíma vanist heimanámi. Það tók mig um tvo mánuði að venja þau á heimanám. Ég notaði tímana til að fara með þeim yfir námsefnið og leyfði nemendum að gera skil á vinnu sinni. Þetta er eitthvað sem hefur tíðkast í MR en nú mátti þetta ekki lengur. Sumir nemendur  voru ekki sáttir við þetta fyrirkomulag, ef til vill vegna þess að þeir höfðu ekki lært heima. Í stað þess að líta í eigin barm fara þeir að kvarta undan þessu og rektor  virðist hafa tekið gagnrýnislaust við kvörtunum. Ég spyr mig einnig að því hvernig þessar kvartanir eru til komnar þar sem þær virtust aðallega berast frá tveimur bekkjum af fimm sem ég kenndi.“

Stillt upp við vegg

Sigríði Helgu þykir fráleitt að henni hafi ekki verið gefinn kostur á að hafa trúnaðarmann með sér á svo fjandsamlegum fundi sem þessi fundur var, því hún hafði engin vitni um það sem fram fór á fundinum. Auk þess hafi hún ekkert vitað um efni fundarsins á meðan rektor og konrektor voru „þrælundirbúin, með gögn uppi á borðum og konrektor klár í slaginn með upplognar ásakanir og rógburð sem hann hafði hlustað eftir“.

„Á þessum fundi var mér stillt upp við vegg og mér boðnir tveir kostir. Annar var sá að þiggja starfslokasamning en hinn að ég fengi áminningu. Rektor tók sérstaklega fram að ef ég fengi áminningu yrði erfitt fyrir mig að fá vinnu við kennslu annars staðar. Þetta var viss hótun. Ég neitaði hins vegar að skrifa undir starfslok, enda taldi ég á engan hátt rétt staðið að málum hér.

Konrektor hellti sér einnig yfir mig á fundinum með ótrúlegum svívirðingum, úthúðaði mér og kallaði mig öllum illum nöfnum. Þau reyndu að þjarma að mér til að reyna að fá mig til að játa á mig þessar „ásakanir“ og þessi fundur varð að tveggja tíma yfirheyrslu. Ég ein á móti þeim tveimur.“

Annar kennari fór í veikindaleyfi vegna eineltis – kvartað til ráðuneytis

Sigríður Helga telur að slæmur starfsandi ríki í MR en ítrekar þó að 90% af starfsfólkinu sé yndislegt fólk, að hennar mati. Lítill hópur standi fyrir einelti og ógnarstjórnun, örfáir mótmæli þeim tilburðum og stjórnarháttum við skólann og taki afleiðingunum, sem eru útskúfun og eða uppsögn; en flestir þori ekki að tjá sig af ótta um eigin stöðu. Sigríður Helga bendir á að MR hafi hrunið í árlegri starfsánægjukönnun meðal stofnana ríkisins á síðasta ári.

„Í janúar á þessu ári fór þýskukennari í veikindaleyfi vegna eineltis og yfirgangs stjórnenda en Lindu Rós tókst að þrauka fram á vor þrátt fyrir mikinn fjandskap sem hún upplifði,“ segir Sigríður Helga en Linda Rós segist hafa verið látin gjalda þess að hún tók upp hanskann fyrir Sigríði Helgu og lagði til að óháður aðili, helst vinnustaðasálfræðingur, yrði fenginn að skólanum til að kanna einelti og uppræta það. Fyrir það segist Linda Rós hafa mátt þola útskúfun deildarinnar og að lokum ótímabær starfslok.

Elísabet Siemsen rektor hefur í fyrri umfjöllun DV um málið bent á að mennta- og menningarmálaráðuneytið hefði svarað kvörtunum kennaranna sem hér eiga í hlut og gefið það álit að ekki hefði átt sér stað einelti í skólanum. Sigríður Helga hefur aðra sögu að segja um þetta:

Eftir að hún hafði sent greinargerð sína til ráðuneytisins voru gögn send til rektors sem fékk andmælarétt. Í vor kom síðan tilkynning frá menntamálaráðuneytinu þar sem ráðherra, Lilja Alfreðsdóttir, taldi sig vanhæfa til að úrskurða í málinu. Málið fór þaðan til forsætisráðherra, Katrínar Jakobsdóttur, sem sendi málið til forseta Íslands. Hann skipaði Sigurð Inga Jóhannsson samgönguráðherra úrskurðaraðila. Álit hans var á þann veg að rektor hefði ekki lagt Sigríði Helgu í einelti:

„En ég var ekki að kvarta undan einelti af hálfu rektors. Í bréfi mínu til menntamálaráðuneytisins gerði ég hins vegar alvarlegar athugasemdir við starfshætti rektors og vildi fá álit ráðuneytisins á því hvort hugsanlega hafi verið brotin á mér stjórnsýslulög. Auk þess kvartaði ég undan einelti í skólanum og að ég treysti ekki stjórnendum skólans til að taka á því,“ segir Sigríður Helga og minnir á að sú hafi jafnframt verið niðurstaða ráðherra, að það sé til staðar samskiptavandi á meðal starfsfólks skólans sem nauðsynlegt sé að bregðast við, án tillits til þess hvort einelti sé í gangi eða ekki. „Ráðuneytið viðurkennir sem sagt að það sé til staðar samskiptavandi í skólanum sem þurfi að taka á.“

Mynd: Eyþór Árnason
(F.v.) Linda Rós Michaelsdóttir og Sigríður Helga Sverrisdóttir

Mikil reiði á átakafundi

Frétt á dv.is þann 3. júní um starfslok Lindu Rósar Michaelsdóttur frá MR vakti mikla athygli. Þjóðþekkt fólk steig þá fram og vitnaði um einstakan kennara sem mikill missir væri af. Þess má geta að Linda Rós er komin á eftirlaunaaldur en má lögum samkvæmt kenna í tvö ár til viðbótar. Hún hafði óskað þess að vera áfram í hlutastarfi en bundinn var endi á starfsferil hennar við skólann í kjölfar þess að hún gagnrýndi meðferðina á Sigríði Helgu og lagði til, eins og Sigríður Helga, að fenginn yrði utanaðkomandi fagaðili til að freista þess að laga samskipti kennara og vinna gegn einelti.

Þegar Sigríður Helga fór í veikindaleyfi eftir 12. nóvember síðastliðinn óskaði Linda Rós eftir fundi með fagstjóra enskudeildar til að ræða stöðuna sem upp var komin. Einhverra hluta vegna vísaði fagstjóri fundarbeiðninni til rektors og boðaði rektor til fundar 22. nóvember síðastliðinn og kom fram að á fundinum yrðu rektor, konrektor, kennslustjóri, fagstjóri enskudeildar og þrír aðrir kennarar enskudeildar auk Lindu Rósar. Samtals sjö manns gegn Lindu Rós. Þegar Linda Rós sá þetta ákvað hún að fá trúnaðarmann til að mæta með sér á fundinn og hann yrði jafnframt ritari fundarins.

Linda Rós segist vera afar fegin að hafa tekið með sér trúnaðarmann og ritara: „Annars væri ég ein til frásagnar um það sem fram fór á þessum fundi.“ Hún sagði að tillaga hennar um að fenginn yrði óháður aðili til að vinna í samskiptavandamálum í skólanum hafi vakið mikla reiði. „Ég ítreka enn og aftur að eini tilgangurinn minn með þessum fundi sem ég óskaði eftir, var að fara fram á að óháður fagaðili yrði fenginn að skólanum til að vinna í þessum samskiptamálum. Ég er ekki sérfræðingur í einelti og þá síður rektor. En þessu var mjög illa tekið. Konrektor missti stjórn á sér, fagstjóri enskudeildar missti stjórn á sér. Þegar ég benti á að nú þegar væri einn kennari kominn í veikindaleyfi vegna samskiptaerfiðleika barði rektor í borðið, byrsti sig og sagði að hún hefði ekki leyfi til að ræða mál einstakra kennara.“

Algjört frost

Eftir fundinn segist Linda Rós hafa mætt algjöru frosti í samskiptum við stjórnendur skólans og samkennara í enskudeild. Hún fullyrðir einnig, líkt og Sigríður Helga, að við hæfnismatið sem lagt var til grundvallar þegar teknar voru ákvarðanir um fækkun kennara, hafi stjórnendur leikið sér með huglægu þættina til að draga matið á henni eins lágt niður og hægt var, enda stendur hún ákaflega sterkt að vígi hvað snertir menntun, starfsreynslu, ástundun og kennslukannanir. Þess má geta að auk kennslunnar hefur Linda Rós sinnt stjórnunarstörfum við skólann þar sem hún var starfandi rektor í eitt ár og starfandi konrektor í eitt ár.

Í rökstuðningi rektors og konrektors um Lindu Rós segir: „Starfsmaðurinn raðaðist næst lægst í hæfismatinu. Þeir þættir í matskenndum hluta sem að mestu ráða niðurstöðum um röðun starfsmannsins byggja á því að samstarf starfsmannsins við aðra kennara deildarinnar hefur gengið afar illa um nokkurt skeið og hafa samstarfskennarar kvartað yfir starfsmanninum og sagst vera hrædd við starfsmanninn.“

„Ég get ekki séð neitt faglegt við þessi rök og í raun tel ég þau kjánaleg. Ég tel alveg fráleitt að starfsfólk í deildinni, hávaxið, heilsuhraust fólk á fertugs- og fimmtugsaldri, sem auk þess hefur sýnt mér fullkominn fjandskap frá 22. nóvember, skuli hafa mest um það að segja að mér sé sagt upp af því þau séu hrædd við mig, 67 ára gamla konu.“

„Mér þykir fáránlegt að þetta fólk sem hafði verið að leggja Sigríði Helgu í einelti skuli vera sama fólkið og leggur nafn sitt við rökstuðning um hæfnismat okkar beggja,“ segir Linda Rós.

Sigríður Helga bætir við einu atriði sem hún telur virkilegt umhugsunarefni:

„Fimm starfsmenn, sem sagt var upp í vor, hafa leitað til Kennarasambands Íslands til að fá ráðgjöf og óska eftir aðstoð lögfræðings félagsins. Þegar við leituðum til Félags framhaldsskólakennara (FF) eftir uppsagnirnar neitaði formaður FF, Guðríður Eldey Arnardóttir, okkur um aðgang að lögfræðingi félagsins. Formaðurinn hélt því jafnframt fram að að rektor stæði í fullum rétti til að segja okkur upp og sá ekkert athugavert við þessar uppsagnir. Síðan hefur komiðí ljós að formaður FF var einmitt einn af umsækjendum um konrektorsstöðuna í MR sem auglýst var laus til umsóknar nú í vor. Og ekki batnar það að rektor hefur ekki orðið við beiðni um að gefa upp nöfn umsækjenda um konrektorsstöðuna. Hún lét nægja að senda út tilkynningu þegar búið var að ráða í stöðuna.“

HLIÐAREFNI:

Rektor vill ekki tjá sig frekar um málið

Elísabet Siemsen er 64 ára gömul og hefur starfað sem rektor MR frá því í ágúst 2017. Elísabet neitaði að tjá sig um málið er DV hafði samband að þessu sinni. Í fyrri fréttum DV um málefni MR hefur hún sagt að henni vitanlega eigi sér ekki stað einelti við skólann en hún hafi starfað stutt og hafi ekki endilega fulla yfirsýn yfir samskipti. Einnig hefur Elísabet bent á að ráðuneytið hafi úrskurðað að einelti hafi ekki átt sér stað í máli Sigríðar Helgu Sverrisdóttur. En Sigríður Helga bendir á að í því áliti sé eingöngu sagt að rektor hafi ekki beitt Sigríði Helgu einelti – nokkuð sem hún hafi ekki spurt eftir. Enn fremur hafi komið fram í áliti frá ráðuneytinu að samskiptavandi sé til staðar innan MR. Elísabet hefur einnig tjáð DV við fyrri tækifæri að farið verði yfir samskiptamál í MR með faglegum hætti næsta haust.

Elísabet Siemsen. Mynd af vef MR

HLIÐAREFNI

Undirskriftasöfnun hafin

Maður að nafni Einar Björnsson hefur hafið undirskriftasöfnun á vefnum Change.org þar sem þrýst er á skólastjórnendur að ráða Lindu Rós aftur til starfa. Segir Einar að ekki hafi verið staðið að uppsögn hennar með sóma og telur hana einn besta kennara sem hann hefur haft.

„Ég myndi helst vilja að hún yrði endurráðin sem fyrst þar sem hún er einn besti kennari sem ég hef nokkurn tímann haft. Ég hef aldrei talað við neinn sem hefur sagst hafa eitthvað á móti henni, en hins vegar þá hef ég talað við fólk sem hefur sagt mér að Linda hafi hjálpað þeim ótrúlega mikið námslega, hún er þekkt fyrir það að vera ströng en þrátt fyrir það afar ljúf og yfir höfuð æðislegur kennari,“ skrifar Einar við undirskriftalistann.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Jóhann hlaut dóm í héraði – Leigði ólöglega brunagildru í Þverholti til búsetu og stofnaði lífum í hættu

Jóhann hlaut dóm í héraði – Leigði ólöglega brunagildru í Þverholti til búsetu og stofnaði lífum í hættu
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ólafur Þ. Harðarson: Stjórnarflokkarnir eru að koma sér upp þægilegum merkimiðum þegar styttist í kosningar

Ólafur Þ. Harðarson: Stjórnarflokkarnir eru að koma sér upp þægilegum merkimiðum þegar styttist í kosningar
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Stofna góðgerðarfélag til minningar um Þuríði Örnu – Blásið til tónleikaveislu 1. maí

Stofna góðgerðarfélag til minningar um Þuríði Örnu – Blásið til tónleikaveislu 1. maí
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Næsta skref – byltingakenndar breytingar

Næsta skref – byltingakenndar breytingar