fbpx
Mánudagur 29.apríl 2024
Fréttir

Læknastríð: Aðstoðarmaður heilbrigðisráðherra og fyrrverandi landlæknir sakaður um atvinnuróg

Ágúst Borgþór Sverrisson
Miðvikudaginn 26. júní 2019 10:19

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Læknastríð geisar á síðum Morgunblaðsins þessa dagana en þar hefur aðstoðarmaður heilbrigðisráðherra og fyrrverandi landlæknir, Birgir Jakobsson, látið til sín taka með eftirminnilegum hætti í ritdeilum um nýja heilbrigðisstefnu stjórnvalda. Fimm formenn og fyrrverandi formenn læknafélaga saka Birgi um atvinnuróg í grein sem birtist í Morgunblaðinu í dag.

Alþingi hefur samþykkt þingslályktunartillögu ríkisstjórnarinnar (heilbrigðisráðherra) um heilbrigðisstefnu til ársins 2030. Fylgiskjal með tilllögunni er um 30 blaðsíðna ritsmíð þar sem meðal annars er kveðið á um meiri hagkvæmni í heilbrigðisþjónustu. Þar segir meðal annars:

„Síðast en ekki síst hefur skort skýra stefnu varðandi uppbyggingu íslenska heilbrigðiskerfisins. Framboð þjónustu hefur ráðið meiru um þróunina en þarfir landsmanna, stefnumarkandi ákvarðanir hafa ekki verið teknar og forgangsröðun hefur skort.“

Sjálftaka sérfræðilækna?

Í grein sem Birgir birti í Morgunblaðinu á föstudag segir meðal annars:

„Í heilbrigðisstefnu er lögð áhersla á mikilvægi þess að kaup ríkisins á heilbrigðisþjónustu séu skilvirk, gerðar séu kröfur um aðgengi og gæði og að kaupin séu byggð á greiningu á þeirri þörf sem fyrir liggur og greiningu á kostnaði þeirrar þjónustu sem veitt er. Það virðist helst vera þetta sem fer fyrir brjóstið á sérgreinalæknum, en eins og allir vita og Ríkisendurskoðun hefur bent á hafa þeir haft sjálfdæmi um það hvaða þjónusta er veitt og af hverjum. Reikningurinn hefur verið sendur á ríkið óháð því hvort þörf hefur verið á þjónustunni eða ekki. Þjónustan er veitt á forsendum þjónustuveitenda en ekki eftir þörfum notenda.“

Fimm manna sveit lækna og læknafélagaformanna stígur fram í Morgunblaðinu í dag og mótmælir harðlega skrifum Birgis. Þetta eru þau Birna Jónsdóttir, Reynir Arngrímsson, Steinn Jónsson, Þorbjörn Jónsson og Þórarinn Guðnason. Ofangreindum athugasemdum Birgis svara greinarhöfundar svo:

Hér er komin margendurtekin ásökun um oflækningar og þessi fullyrðing er einfaldlega röng. Alþjóðlegur samanburður talar um það skýru máli og á þær staðreyndir hefur margoft verið bent. Dæmin sem hafa verið nefnd um oflækningar hafa ýmist verið hrakin af viðkomandi sérgreinafélögum eða af Sjúkratryggingum Íslands. Að auki eru læknar bundnir læknaeiðnum og landslögum auk eftirlits hinna ýmsu stofnana. Um gæði og hagkvæmni þessarar þjónustu þarf ekki að deila. Þar taka tölfræðilegar staðreyndir af öll tvímæli.

Enn fremur skrifar Birgir:

„Hvatakerfin hafa leynt og ljóst stýrt heilbrigðisstarfsfólki, ekki síst sérgreinalæknum, út í einkarekstur með neikvæðum afleiðingum fyrir opinbera þjónustuveitendur.“

Um þetta segja fimmmenningarnir:

Þetta er fjarri sanni. Það er fyrst og fremst þörfin fyrir fleiri valkosti en ríkisvæddan vinnustað sem hvetur lækna til að vinna sjálfstætt. Reynslan sýnir að sú þjónusta er ríkinu afar hagfelld. Það er hins vegar skorturinn og biðlistarnir í ríkisreknu þjónustunni sem hefur valdið því að þjónustan á læknastofunum hefur aukist. Sérgreinalæknar styðja styrkingu heilsugæslunnar og spítalanna auk sérfræðiþjónustunnar enda vinna þessi kerfi saman sem ein heild.

Birgir segir einkarekstur blása út á meðan opinbera kerfið sparar

Birgir heldur því einnig fram að markvisst hafi verið sparað í opinbera heilbrigðiskerfinu síðustu tvo áratugi á meðan einkarekstur hafi fengið frítt spil og vaxið. Þessu svara læknarnir fimm svo:

„Þessu væri réttara að lýsa þannig að læknar á stofu komu heilbrigðiskerfinu til bjargar þegar yfirvöld skáru niður þjónustuna annars staðar í kerfinu. Sem dæmi má nefna að árið 2011, þegar St. Jósepsspítala í Hafnafirði var lokað, fór nær öll þjónusta hans til sjálfstætt starfandi lækna enda enginn annar til þess að taka við henni. Ávirðingum heilbrigðisyfirvalda í garð sérfræðilækna fyrir að hafa brett upp ermar til þess að bjarga ófremdarástandi vegna niðurskurðar fjárveitinga þarf að linna.“

Læknarnir saka Birgi um atvinnuróg og segja alvarlegt að slíkt komi úr æðstu valdastöðum heilbrigðiskerfisins.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Snorri og Patrik vekja hneykslun: Konan hugsi um börnin og karlinn um peningana – „Gömlukallaraus í ungum mönnum“

Snorri og Patrik vekja hneykslun: Konan hugsi um börnin og karlinn um peningana – „Gömlukallaraus í ungum mönnum“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Þetta er umfjöllunin sem María Sigrún fékk ekki birta í Kveik

Þetta er umfjöllunin sem María Sigrún fékk ekki birta í Kveik
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Kári Hansen skilaði inn meðmælum til forseta Íslands rafrænt

Kári Hansen skilaði inn meðmælum til forseta Íslands rafrænt
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Löggan fellir niður sektir á þá sem voru gómaðir á nagladekkjum í vikunni

Löggan fellir niður sektir á þá sem voru gómaðir á nagladekkjum í vikunni