Ökumaður og farþegi í bíl hans voru fluttir með sjúkrabíl á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja í vikunni eftir umferðarslys í Grindavík. Farþeginn hlaut áverka á höfði en var þó ekki talinn alvarlega slasaður. Tildrög slyssins voru þau að ökumaður annars bílsins sinnti ekki stöðvunarskyldu og ók í veg fyrir fyrrgreinda bílinn.
Þá varð umferðaróhapp við Flugstöð Leifs Eiríkssonar þegar ferðamaður lenti í vandræðum með gírana á bíl sem hann ók með þeim afleiðingum að hann snarstöðvaðist á veginum. Annar ökumaður sem á eftir kom var þessu óviðbúinn og ók aftan á bíl ferðamannsins. Raunar taldi hann að ferðamaðurinn hefði ekið aftur á bak þegar óhappið varð. Ekki urðu slys á fólki.
Þá voru fáeinir ökumenn teknir úr umferð vegna gruns um vímuefnaakstur og einn ók á nagladekkjum. Bíll hins síðastnefnda var óskoður og voru skráningarmerki tekin af bílnum.