„Ólafur missti vinnuna í kjölfar dóms er hann hlaut eftir að ráðist var inn á heimili okkar,“ segir Kolbrún Anna Jónsdóttir, eiginkona Ólafs William Hand í samtali við mbl.is. Ólafur var í desember sakfelldur fyrir alvarlegt ofbeldi gegn barnsmóður sinni og brot gegn barnaverndarlögum. Nú ætlar hann ásamt eiginkonu sinni að ganga Jakobsveginn, eða Vegur hins heilaga Jakobs, sem er ein þekkasta pílagrímaleið í Evrópu, en þau munu ganga frönsku leiðina sem telur um 900 kílómetra.
Pílagrímsferðin mun taka að lágmarki mánuð, samkvæmt heimasíðu gönguleiðarinnar tekur hún um 35 daga ef gengnir eru 25 km á hverjum degi. Algengt mun þó vera að fólk taki sér einhverja daga inn á milli til að hvílast eða fyrir skoðunarferðir.
Kolbrún Anna segir að þau hjónin hafi búið í Rottedam í rúmt ár þegar líf þeirra breyttist algjörlega eftir að Ólafur var sakfelldur fyrir brot gegn barnsmóður sinni í desember.
Við ákváðum að við þurftum að gera eitthvað uppbyggjandi saman til að átta okkur á stöðunni fram að því að málið verður tekið fyrir í Landsrétti,“ sagði Kolbrún.
Ólafur hefur áður gengið frönsku leiðina og segir þetta mikla upplifun. „Ég fór í júlí og gekk fram í miðjan ágúst. Það var rosalega heitt en mikil upplifun. Þessi ferð verður alltaf eftirminnileg fyrir þær sakir að í henni tók ég þá ákvörðun um að biðja Kolbrúnar og hérna erum við saman komin fimm árum síðar.“
Fyrsta kafla ferðarinnar ætla hjónin að tileinka Kraft, stuðningsfélagi fyrir ungt fólk með krabbamein. Hjónin ætla að að gefa félaginu 100 krónur fyrir hvern genginn kílómetra og hvetja aðra til að styrkja félagið um leið.
Annar kafli ferðarinnar verður tileinkaður huganum og síðan sá þriðji sálinni. „Maður kemur vonandi á leiðarenda sem betri manneskja og í líkamlega góðu formi.“
Ólafur og Kolbrún hafa stofnað hóp á Facebook þar sem hægt verður að fylgjast með ævintýrum þeirra.
DV hefur fjallað töluvert um sakfellingu Ólafs. Hann var ákærður fyrir að hafa tekið barnsmóðurina hálstaki og þrengt ítrekað að hálsi hennar, hrint henni þannig að hún féll í gólfið, rifið í hár hennar og ýtt henni utan í vegg. Kolbrún var sömuleiðis ákærð fyrir að hafa hlaupið ítrekað á barnsmóðurina og klórað hana, en hún var sýknuð af þeim sökum.
Ólafur hefur áfrýjað málinu og kveðst hafa verið dæmdur fyrir að verja sitt eigið heimili.
Ólafur Hand sakfelldur fyrir ofbeldi gegn barnsmóður sinni
Ólafur ætlar að áfrýja – Þetta mál hefur tekið mikið á mig og mína fjölskyldu
Elísabet um mál Ólafs – Aumingjaskapur hinna meðvirku
Ólafur Hand rekinn frá Eimskip – Tók barnsmóður hálstaki og þrengdi að
Ólafur Hand áfram í stjórn GR – Dómurinn hefur ekki áhrif á stjórnarsetuna