fbpx
Þriðjudagur 17.september 2019  |

DV - Frjáls og óháður miðill

Fréttir

Ólafur ætlar að áfrýja: „Mál þetta hefur tekið mikið á mig og mína fjölskyldu“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Föstudaginn 4. janúar 2019 18:52

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Friðhelgi heimilisins rofin. Barnsmóðir mín og sambýlismaður hennar ruddust inn á heimili mitt þann 16. júlí 2016 þegar barnið var í umgengni hjá mér samkvæmt úrskurði sýslumanns. Hún réðst á mig alveg tryllt eins og fram kemur í gögnum málsins og reyndi ég að verja mig og heimili mitt með að taka utan um hana og leggja í gólfið. Sambýlismaðurinn sló mig þá í bakið.“

Þetta segir Ólafur William Hand, upplýsingafulltrúi og markaðsstjóri hjá Eimskip, í stuttri yfirlýsingu eftir fréttaflutning DV af málum hans. Í febrúar árið 2017 kom Ólafur fram í löngu viðtali á Stöð 2 sem vakti þjóðarathygli þar sem hann sagðist ekki hafa fengið að sjá dóttur sína í átta mánuði. Þar var einnig tekið viðtal við dætur Ólafs og hann las upp hjartnæmt bréf í útsendingu. Tíminn frá viðtalinu er nákvæmlega sá tími sem liðinn var frá þeim atburðum sem lýst er í framangreindum dómi héraðsdóms. Ólafur hefur verið fundinn sekur um alvarlegt ofbeldi gegn barnsmóður sinni, sem og brot gegn barnaverndarlögum þar sem dóttir þeirra varð vitni að ofbeldinu. Dómur þessa efnis var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur þann 19. desember síðastliðinn.

Í frétt DV sem má lesa hér segir:

„Atvikið átti sér stað á heimili Ólafs sumarið 2016 er móðirin hugðist sækja dótturina og fara með hana í sumarleyfisdvöl til Indónesíu. Barnsmóðirin, sem fer ein með forsjá barnsins, greindi frá því fyrir dómi að af svörum Ólafs fyrir atvikið teldi hún mega ráða að hann ætlaði ekki að skila barninu í tíma fyrir ferðina þrátt fyrir úrskurð sýslumanns þar um. Vegna þessa og þar sem hún óttaðist viðbrögð hans hafi hún kallað eftir lögreglufylgd.

Barnsmóðirin kom á vettvang með lögreglumanni og sambýlismanni sínum. Hún fór inn í hús Ólafs í óleyfi þegar Ólafur opnaði fyrir henni. Sagði barnsmóðirin í vitnaskýrslu að hún hefði gert það þegar hún heyrði barnið kalla til sín grátandi álengdar. Ólafur var ákærður fyrir að hafa tekið barnsmóðurina hálstaki og þrengt ítrekað að hálsi hennar, hrint henni þannig að hún féll í gólfið, rifið í hár hennar og ýtt henni utan í vegg. Þá er eiginkona Ólafs ákærð fyrir að hafa hlaupið ítrekað á konuna og klórað hana. Hin ákærðu sökuðu barnsmóðurina um húsbrot og ofbeldi á vettvangi. Lögreglan féll hins vegar frá saksókn á hendur barnsmóðurinni og var sú ákvörðun síðar staðfest af ríkissaksóknara.

Ólafur neitaði að hafa tekið barnsmóðurina hálstaki, hrint henni í gólfið eða ýtt henni utan í vegg. Hann segist hins vegar hafa gripið um hana ofarlega og lagt hana niður í gólfið.

Áverkar á barnsmóðurinni

Barnsmóðirin kvartaði undan verk í hálsi eftir atvikið, sársauka við að kyngja, hósta, blóðbragði í munni, sem og höfuðverk og verk í herðum og baki. Þá hafi blóð verið í þvagi hennar. Hún segist jafnframt hafa orðið fyrir fósturláti vegna árásarinnar. Staðfest er að hún missti fóstur um þetta leyti. Samkvæmt dómsniðurstöðu bera gögn hins vegar ekki með sér að fósturlátið megi rekja til árásarinnar. Gögn og myndir bráðamóttöku LSH vegna líkamsskoðunar leiða í ljós marga yfirborðsáverka á hálsi, tognun og ofreynslu á hálshrygg, yfirborðsáverka á bakvegg og brjóstkassa, og loks tognun og ofreynslu á brjósthrygg.

Ólafur sakfelldur en eiginkona hans sýknuð

Ólafur var fundinn sekur um líkamsárás á barnsmóður sína sem og um brot á barnaverndarlögum þar sem dómurinn taldi sannað að dóttir hans hefði orðið vitni að árásinni. Var hann fundinn sekur um að hafa tekið barnsmóður sína hálstaki, þrengt ítrekað að hálsi hennar og hrint henni þannig að hún féll í gólfið – en sýknaður af því að hafa rifið í hár hennar og hrint henni utan í vegg. Er Ólafur dæmdur í tveggja mánaða skilorðsbundið fangelsi. Þá er hann dæmdur til að greiða konunni 400.000 krónur í miskabætur og verjanda sínum um 1,5 milljónir króna.

Eiginkona Ólafs var sýknuð af ákæru um líkamsárás.

Dráttur á rannsókn kann að hafa forðað Ólafi frá fangelsisvist en fram kemur í dómsorði að rannsókn málsins hafi dregist svo lengi að óhjákvæmilegt sé að skilorðsbinda refsingu Ólafs.“

Ólafur hefur skrifað yfirlýsingu vegna fréttar DV. Í henni segir Ólafur:

Vegna fréttar í dag vegna dómsmáls vil ég koma eftirfarandi á framfæri.

Friðhelgi heimilisins rofin.

Barnsmóðir mín og sambýlismaður hennar ruddust inn á heimili mitt þann 16. júlí 2016 þegar barnið var í umgengni hjá mér samkvæmt úrskurði sýslumanns. Hún réðst á mig alveg tryllt eins og fram kemur í gögnum málsins og reyndi ég að verja mig og heimili mitt með að taka utan um hana og leggja í gólfið. Sambýlismaðurinn sló mig þá í bakið.

Barnsmóðir mín tók barnið og fór með það út gegn vilja barnsins eins og fram kemur í vitnisburði ótengds aðila sem stóð fyrir utan heimili mitt.

Rétt er að ég var dæmdur fyrir að reyna að verja mitt heimili en ég tók hana aldrei hálstaki eins og ég var sakfelldur fyrir. Hef ég tekið ákvörðun um að áfrýja þessum dómi.

Mál þetta hefur tekið mikið á mig og mína fjöldskyldu og vekur upp spurningar um hvort að í dómi þessum felist skilaboð um að það sé réttlætanlegt að ráðast inn á heimili fólks og nema barn á brott í skjóli lögreglu. Að mati lögreglu og ríkissaksóknara þá var ekki ástæða til að kæra barnsmóður mína og sambýlismann hennar fyrir húsbrot né brottnám barns með þeim rökum að almannahagsmunir kröfuðust þess ekki. Dæmi hver fyrir sig.

Ég vil þakka öllum vinum okkar fyrir þann stuðning sem þið hafið sýnt okkur í dag. Vinskapur ykkar er ómetanlegur. Takk.

Ég mun örugglega taka mér frí frá Facebook næstu daga þannig ekki vera sár þó ég svari ykkur ekki. En ég veit af velvild ykkar.

Líkt og kemur fram í frétt DV sem má lesa í heild hér var Ólafur sakfelldur vegna málsins.

Rétt er að halda því til haga að ásakanir Ólafs um ofbeldi barnsmóður hans gegn sér sem og að sambýlismaður hennar hafi slegið sig í bakið eru með öllu ósannaðar og á skjön við dóm Héraðsdóms.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Netþrjótar kúga Íslendinga með klámi – Sjálfsfróun notuð í svikamyllunni

Netþrjótar kúga Íslendinga með klámi – Sjálfsfróun notuð í svikamyllunni
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Rán í miðborginni upplýst

Rán í miðborginni upplýst