fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Fréttir

Harmleikurinn á þjóðhátíð þegar níu manns létust – „Óhugnanleg kvalaóp frá spítalanum“

Ritstjórn DV
Miðvikudaginn 5. júní 2019 20:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Í viðtölum mínum við þetta gamla fólk sagði það að mikil sorg hafi verið í loftinu, en þetta hafi farið mjög hljótt. Það lá í loftinu skömm og sorg sem kom út í þagnargildi. Það var ekki hægt að koma svona hörmungum í orð og þá er betra að þegja.“

Þetta hefur Læknablaðið eftir Ragnari Jónssyni bæklunarlækni í grein um erindi sem hann hélt á aðalfundi Félags áhugamanna um sögu læknisfræðinnar á Þjóðminjasafninu fyrir skemmstu. Umfjöllunarefnið var harmleikur sem átti sér stað á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum árið 1943. Í inngangi að greininni sem finna má í nýjasta tölublaði Læknablaðsins segir:

„Níu létust eftir að hafa drukkið tréspíra á Þjóðhátíð í Eyjum fyrir tæpum áttatíu árum. Nokkrir tugir veiktust og um tuttugu voru lagðir inn á spítalann í Vestmannaeyjum. Eyjamenn lýstu óhugnanlegum kvalaópum frá spítalanum.“

Dularfull tunna fannst í sjónum

Að því er fram kemur í Læknablaðinu hefur Ragnar unnið að því að vernda sögu tréspíradrykkju og afleiðingar hennar á Þjóðhátíð í Eyjum árið 1943. Vann Ragnar meðal annars rannsókn um málið þar sem hann ræddi við fólk sem mundi eftir atburðinum.

Upphafið af öllu þessu má rekja til þriggja manna áhafnar á bátnum Stakksárfossi VE 245. Áhöfnin samanstóð af þeim Ólafi Davíðssyni, Guðna Hirti Guðnasyni og Halldóri E. Halldórssyni en þeir höfðu fundið ryðgaða og þaravaxna járntunnu í sjónum skammt vestur af Þrídröngum.

Í umfjölluninni kemur fram að þeir hafi dregið hana um borð, opnað hana og fundið spíralyktina. „Tunnuna hafi þeir tekið heim en viljað fá innihaldið staðfest hjá lyfsala bæjarins með leynd. Tveimur dögum seinna sagðist lyfsalinn ekki geta sagt til um innihaldið og óljóst með hvernig þeir meðtóku skilaboðin en að nokkrum dögum liðnum voru níu látnir,“ segir í greininni.

Hvíslað um málið löngu síðar

Ragnar sagði að hann hafi fyrst heyrt af málinu þegar hann var átta ára gamall. Þá hafi faðir hans og Stefán Árnason yfirlögregluþjónn rætt saman og talað um málið hálfum hljóðum.

„Þessi viðbrögð voru þó ekkert einsdæmi. Tréspíramálið á Þjóðhátíðinni 1943 hafði mikil langvinn áhrif á bæjarbúa, svo mikil að enn var hvíslað um málið mörgum árum síðar. Mörgum áratugum síðar, fjörutíu, fimmtíu, sextíu árum síðar, var fyrst hægt að tala um tréspíramálið án þess að fara í felur með það en þá voru ekki margir eftir til svara,“ hefur Læknablaðið meðal annars eftir Ragnari sem, eins og að framan greinir, ræddi við marga sem mundu eftir atburðinum.

Þremenningarnir sem fundu umrædda tunnu skiptu innihaldinu á milli sín þannig að hver fékk um það bil 50 lítra. Svo virðist þó vera sem þeir hafi verið meðvitaðir um að innihald tunnunnar væri mögulega hættulegt. Þannig hafi Hjörtur leitað til Þorláks Sverrissonar kaupmanns sem þekkti héraðslækninn í Eyjum. Sá hafi fengið sýni og sagt að um væri að ræða venjulegan spíra, tréspíri væri öðruvísi. Þorlákur drakk svo tréspírann og fannst lík hans á mánudaginum eftir Þjóðhátíð. Ragnar lýsti því í erindi sínu hvernig Hjörtur dreifði tréspíranum á þjóðhátíð. Sjálfur hafi hann drukkið spírann og vaknað með einkenni eitrunar á sunnudeginum. Sjálfur hafi hann lifað af.

Nánar má lesa um málið á vef Læknablaðsins en þar er einnig að finna nöfn þeirra sem létust.

Dæmdir fyrir manndráp af gáleysi

Í umfjöllun í Morgunblaðinu um málið árið 2012 kemur fram að ákæruvaldið hafi sótt mál gegn þeim Hirti og Halldóri fyrir brot á tollalögum. Þá voru Hjörtur og Guðni Einarsson, sá sem tók þátt í að dreifa spíranum, ákærðir fyrir aðild að manndrápum af gáleysi. Halldór var sýknaður í Hæstarétti en Hjörtur var dæmdur í eins árs fangelsi og Guðni hlaut sex mánaða dóm. Ólafur Davíðsson, skipstjóri á Stakksárfossi, var sá síðasti sem lést eftir að hafa drukkið sírann. Hann lést 11. ágúst.

„Sagan segir að eftir að hann hafði gert sér grein fyrir afleiðingum tunnufundarins og dreifingu innihaldsins, hafi hann tekið þá ákvörðun að taka forlögin í eigin hendur og nýtti hann sér tréspírann til þess,“ sagði Ragnar í erindi sínu í Þjóðminjasafninu í vor.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Búið að tryggja Úkraínumönnum 500 þúsund sprengjuskot – Íslendingar gáfu 300 milljónir króna

Búið að tryggja Úkraínumönnum 500 þúsund sprengjuskot – Íslendingar gáfu 300 milljónir króna
Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Ósátt við myndatöku af hnúajárni og „neyslupokum“ en fær hvorki bætur né afslátt af húsaleigunni

Ósátt við myndatöku af hnúajárni og „neyslupokum“ en fær hvorki bætur né afslátt af húsaleigunni