Laust fyrir klukkan eitt í nótt var tilkynnt um innbrot í hús í Grafarholti. Húsráðandi kom að þjófnum þar sem hann var að setja muni í poka. Sá síðarnefndi var handtekinn og er í haldi lögreglu.
Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar. Þar segir einnig frá því að um klukkan tvö í nótt var maður handtekinn í bílastæðahúsi í miðborginni þar sem hann var að skemma bíla. Var hann í mjög slæmu ástandi vegna vímuefnaneyslu.
Um svipað leyti var maður handtekinn fyrir innbrot í bíla í Hlíðunum. Hann var mjög drukkinn og gistir fangageymslur þar til hægt er að ræða við hann.
Rétt eftir miðnætti var tilkynnt um líkamsárás í heimahúsi í Breiðholti. Málið telst upplýst en rannsókn þess lauk í nótt að skýrslutökum loknum.
Rétt fyrir miðnætti var brotist inn í hús í Grafarvogi. Brotamennirnir eru ungir að árum og voru foreldrar kvaddir til svo unnt væri að ljúka málinu.