Laust eftir klukkan 15 í dag var tilkynnt um árás á 12 ára stúlku sem var á leið heim úr skóla og hlaut hún áverka í andliti eftir árásarmanninn. Hann var einn á ferð og var árásin tilefnislaus. Stúlkan gat gefið lögreglu greinargóða lýsingu á manninum og er málið í rannsókn. Atvikið átti sér stað á svæði lögreglustöðvar 2, sem er Hafnarfjörður, Garðabær og Álftanes.
Um ellefuleytið í morgun slógust tvær ungar konur í hverfi 108. Voru slagsmálin yfirstaðin þegar lögregla kom á staðinn. Ásakanir voru á báða bóga en áverkar minniháttar. Hugsanlegt er að kærur verði lagðar fram.
Í hádeginu var tilkynnt um innbrot og þjófnað úr geymslu í fjölbýlishúsi í hverfi 107. Allskyns munum var stolið en málið er í rannsókn.