Margrét Friðriksdóttir, sem meðal annars er þekkt fyrir að stýra Facebook-hópnum Stjórnmálaspjallið, segir farir sínar ekki sléttar af sendingaþjónustunni DHL. Hún segist hafa fengið vöru þremur dögum of seint og að viðbrögð fyrirtækisins hafi verið til skammar.
„Ég mæli ekki með DHL, keypti express sendingarþjónustu og átti varan að vera keyrð beint upp að dyrum, þeir létu svo ekki sjá sig á tilsettum tíma, svo kom helgarfrí þannig ég fékk ekki vöruna afhenta fyrr en 3 dögum of seint. Fyrirtækið segist ekkert geta gert neitt í þessu þyki þetta bara leitt og mun ég ekki fá endurgreitt þjónustu sem ég fékk ekki en greiddi fyrir til baka,“ lýsir Margrét á Facebook-síðu sinni.
Til að bæta gráu ofan á svart þá þurfti Margrét að sækja vöruna sjálf. „Ég þurfti svo að sækja vöruna sjálf á skrifstofuna á mánudagsmorgun því varan hefði ekki borist fyrr en síðar um daginn sem ekki gekk upp. Þetta kalla ég ekki express sendingaþjónustu og viðbrögðin fyrirtækinu til skammar, ég mun aldrei versla við þá meir, þetta er ekkert annað en þjófnaður og ótrúlega óheiðarleg vinnubrögð verður að segjast,“ segir Margrét ósátt.