Staðan er erfið fyrir fjölskyldu Jóns Þrastar Jónssonar sem hvarf í Dublin laugardaginn 9. febrúar. „Staðan er óbreytt, eina sem hefur gerst er að tíminn hefur liðið. En að öðru leyti er rannsóknin á mjög svipuðum stað,“ segir Davíð Karl Wiium, bróðir Jóns, í viðtali við mbl.is í kvöld.
Fjölskyldan hefur nú opnað upplýsingasíðuna jonjonssonmissing.com en þar er safnað saman á einn stað öllum upplýsingum um málið. Er þar mikið efni að skoða. Davíð segir í viðtal við mbl.is að langlíklegast sé að Jón Þröstur sé ekki á lífi. Hins vegar sé ekki hægt að útiloka neitt. Hann segir einnig mikilvægt að leyfa lífinu að halda áfram þó að rannsókninni sé haldið lifandi.
Ekki er búið að loka rannsókninni á málinu hjá írsku lögreglunni en ekkert hefur þokast í rannsókn málsins undanfarið.
Jón ætlaði að taka þátt í pókermóti í Dublin ásamt unnustu sinni. Hún kom ekki til Dublin fyrr en degi á eftir Jóni. Skömmu eftir að hún kom á hótelberbergi til hans gekk Jón út af hótelinu og síðan hefur ekki sést til hans. Jón tapaði verulegum fjárhæðum í póker skömmu fyrir hvarfið en að sögn fjölskyldunnar voru þeir fjármunir þó innan viðráðanlegra marka og hefðu ekki átt að leiða til örvæntingarfullra ráðstafana.