„Hann hefur þá stöðu enn að vera grunaður um samverknað,“ segir Anja Indbjör, handhafi ákæruvaldsins hjá lögreglunni í Finnmörku í Noregi, í samtali við Morgunblaðið í dag. Er hún þar að ræða um Almar Smára Ásgeirsson sem látinn hefur verið laus úr varðhaldi. Gunnar Jóhann Gunnarsson situr í varðhaldi og er grunaður um að hafa orðið hálfbróður sínum, Gísla Þór Þórarinssyni, að bana í smábænum Mehamn, laugardaginn 27. apríl. Almar Smári var handtekinn um leið og Gunnar Jóhann og dæmdur í vikulangt gæsluvarðhald. Hann hefur nú verið látinn laus.
Eins og kom fram á dv.is í gær sendu foreldrar Almars Smára frá sér yfirlýsingu þar sem þau segja son sinn alsaklausan af hlutdeild í glæpnum. Þar sagði meðal annars:
„Sonur okkar er frjáls vegna þess að hann er saklaus um aðild að morðinu á Gísla Þór Þórarinssyni. Hann var ekki á staðnum þegar það var framið og hann hringdi á hjálp um leið og hann vissi hvað hefði gerst.“
Í frétt Morgunblaðsins kemur enn fremur fram að verjandi Almars Smára, Jens Herstad, meti stöðuna svo að Almar Smári eigi ekki von á ákæru í málinu. Í fréttinni segir enn fremur:
„Indbjør sagði að báðir hinna grunuðu hefðu skýrt mál sitt fyrir lögreglu, málið væri í rannsókn og vildi að öðru leyti ekki tjá sig.“