Fyrir helgi var karlmaður dæmdur í 45 daga fangelsi fyrir heimilisofbeldi gegn föður sínum. Athyglisvert er að foreldrar mannsins höfðu aðeins samband við lögreglu þar sem félagsþjónustan sem þau höfðu leitað til í von um úrræði fyrir soninn, sagði þeim að með því að hafa samband við lögreglu þá fengi sonurinn hjálp. Þess í stað var hann færður til afplánunar og sakfelldur fyrir brot gegn föður, þrátt fyrir að faðir hans hafi ekki viljað frekari afskipti lögreglu.
Maðurinn mætti heim til foreldra sinna með vini sínum og fór fram á að fá greidda peninga. Þegar honum varð ljóst að foreldrar hans ætluðu ekki að fara að fyrirmælum hans dró hann upp hníf.
En móðir ákærða kvað hann hafa sagt að hann væri með hníf í vasanum áður en hann hefði dregið hann upp svo að hún sæi. Hafi brotaþoli ítrekað að hann fengi ekki peninga og hafi hann að lokum farið.“
Maðurinn gafst þó ekki upp að svo búnu, en hann taldi sig eiga inni töluverða fjármuni hjá foreldrum sínum. Hann mætti því aftur degi síðar, en í þetta skiptið var hann einn á ferð.
„Tilefni þess að þau hringdu á lögreglu í þetta skipti hefði verið að ákærði hefði enn komið og nú einn og heimtað peninga. Hafi ákærði verið með háreysti og hrint eða ýtt við brotaþola þannig að hann datt utan í vegg“
Foreldrarnir hringdu í lögreglu vegna þess að þeim hefði verið sagt hjá félagsþjónustunni að ef eitthvað kæmi upp á ættu þau að hringja í lögreglu. Þá væri unnt að grípa inn í fá hjálp fyrir son þeirra. Foreldrarnir höfðu margoft leitað aðstoðar geðdeildar með son þeirra, en jafnan verið vísað frá. Það var aðdragandinn að því að þau höfðu samband við félagsþjónustuna til að fá úrræði fyrir son þeirra.
Sonurinn játaði brot sitt við skýrslutöku hjá lögreglu.
„Kvaðst hann hafa komið og beðið foreldra sína um 100.000 krónur sem hann hefði talið sig eiga réttmæta kröfu til, en hann hefði talið sig eiga inni hjá þeim verulega mikið fé. Kannaðist ákærði við að hafa hrint föður sínum sem hefði þá „komið við hilluna“ en þeir hefðu rifist og kynni ákærði að hafa sagt eitthvað sem hefði misskilist. Einnig kannaðist hann við að hafa komið með vini sínum í sömu erindagjörðum og þá haft meðferðis hnífa. Hafi hann gert föður sínum grein fyrir því og spurt hann í framhaldinu „hver er peningurinn?“ Gengi hann almennt með hnífa til að verja sig.“
Foreldrar hans könnuðust bæði við að hann gengi með hnífa sér sér, en tóku bæði fram í skýrslutöku að þau hefðu aðeins haft samband við lögreglu til að fá hjálp fyrir son sinn, þau óttuðust hann ekki og vildu ekki frekar afskipti lögreglu af málinu.
„Brotaþoli kvaðst ekki óttast ákærða. Ákærði væri veikur og þyrfti á aðstoð að halda. Vildi hann að lögregla myndi ekki aðhafast frekar.“
Fyrir dómi kannaðist sonurinn ekki við framburð sinn í skýrslutöku lögreglu og bar við minnisleysi. Hann hefði verið í „rugli eins og alltaf“. Foreldrarnir báðust undan því að bera vitni fyrir dómi og staðfestu að þeim hefði:
„Gengið það eitt til að fylgja fyrirmælum félagsþjónustunnar og tilkynna lögreglu um atvik. Ákærði hefði verið í neyslu og andlega veikur. Hafi hann í aðdraganda þess sem gerðist verið á mörkum þess að fara í geðrof þegar atvik áttu sér stað. Hafi þau staðið í þeirri trú að ákærði fengi aðstoð á geðdeild í kjölfarið en þess í stað hefði hann verið fluttur í afplánun.“
Dómara þótti ekki sannað að ákærði hefði haft ásetning til að ræna foreldra sína, og var því sýknað af þeim lið ákæru. Hins vegar þótti sannað að hann hefði beitt föður sinn ofbeldi og því var honum gert að sæta 45 daga fangelsi. Dómari gagnrýndi jafnframt ákæruvaldið í niðurlagi dóms. Rannsókn málsins, sem væri ekki umfangs mikið, hefði lokið þremur mánuðum eftir að atvik áttu sér stað en ákæra var ekki gefin út fyrr en löngu síðar.