Oddný Harðardóttir, formaður þingflokks Samfylkingarinnar, telur veiðigjöld íslenskra stjórnvalda alltof lág einkum þegar þau eru borin saman við nágranna okkar í Færeyjum. Á Íslandi er auðlindadrifið hagkerfi en stjórnvöld taka ekki af því nægilegt gjald sem rennur í sameiginlega sjóði sem almenningur nýtur. Henni þykir mikilvægt að bjóða út aflaheimildirnar til að fá raunsæja hugmynd um verðmæti þeirra, koma í veg fyrir samþjöppun og auka nýliðun. Þetta kom fram í Morgunútvarpi Rásar 2 í morgun.
„Færeyingar þeir gerðu fyrst tilraunir með útboð á aflaheimildum 2016 og voru þá að leggja drög að því að færa sig út í útboð sem þeir lögfestu svo 2018. Þeir bjóða út 10 prósent af aflanum sínum á fjarlægum miðum. Þegar útboðin duttu í hús í fyrra þá kom strax í ljós þessi mikli munur á því sem íslensk stjórnvöld láta út með lögum að útgerðin eigi að greiða í veiðigjöld fyrir kílóið af fiski, hann er ekki tvöfaldur eða þrefaldur, hann er mörg hundruð prósent og mörg þúsund prósent þegar kemur að makrílnum og kolmunna til dæmis. Síðan halda Færeyingar áfram og eru nú búnir að bjóða út fyrir fyrsta hlutan á 2019 og þá er munurinn enn meiri.“
Nú liggur fyrir Alþingi frumvarp um að kvótasetja makríl. Oddný segir Samfylkinguna nokkrum sinnum hafa lagt fram frumvarp um að bjóða út makríl, nýjar tegundir og viðbótarafla, í þeim tilgangi að fá viðmiðunarverð fyrri veiðigjöldin.
„Það hefur annað hvort verið svæft í nefnd eða fellt í þingsal. Nú eigum við að líta til Færeyja og við eigum að krefja stjórnvöld um svör á þessu. Hvernig stendur á þessum mun? Er það bara vegna þess að þetta er of lítið? Bara 10 prósent, er það þess vegna sem verðið er lágt. Væri það meira ef þetta væri stærri hluti? Það þyrfti samt að lækka svo rosalega mikið til að nálgast þessi veiðigjöld sem við erum með hér.“
Oddný segir að Ísland sé ríkt af auðlindum. „En við erum ekki dugleg eða flink í því að taka gjald sem rennur síðan í ríkissjóð sem almenningur fær síðan að njóta. Þetta er svona með fiskveiðiauðlindina, þetta er svona með náttúruauðlindirnar. Hvort sem það eru ferðaþjónustan eða orkufyrirtækin. Við erum ekki að rukka auðlindagjöld eins og við ættum að vera að gera.“
Svörin sem Oddný hefur fengið á Alþingi eru á þá leið að útboð aflaheimilda muni leiða til meiri samþjöppunar. Tók hún fram að það væri einkum Sjálfstæðisflokkurinn sem svaraði á þá leið.
„Til dæmis er núna verið að bjóða út hrossamakríl og sardínur í Chile og þar eru stórútgerðir í miklum deilum við stjórnvöld vegna þess að stjórnvöld settu fram útboð til að taka á samþjöppun og það er hægt að gera það með reglum um útboð.“
„Ég vil útboð á aflaheimildum fyrst og fremst til að auka jafnræði. Til að auka möguleika á nýliðun. Nú er bara kvótinn á fárra höndum og nú hefur til dæmis þorsk-kvótinn tvöfaldast, leyfilegt magn af þorski til veiða hefur tvöfaldast á undanförnum 10 árum. Stjórnvöld hafa ákveðið að sú viðbót fari bara til þeirra sem hafa kvóta fyrir, fyrir utan einhver 5 prósent sem fer í byggðakvóta“
Algengt sé að hafa útboð þegar kemur að því að ríkið þurfi að velja á milli fyrirtækja, til dæmis í byggingariðnaði og þegar sérleyfi eru boðin út.
„Alls staðar nema þegar kemur að auðlindinni okkar. Þá viljum við ekki að útgerðin bjóði í eða keppi um að fá að veiða fisk. Við viljum að stjórnmálamenn rétti út fingurinn og ákveði hvað það eru margar krónur á kílóið fyrir hverja tegund fyrir sig.“
Þó svo að útboð á aflaheimildunum fari fram þá mun mun fiskurinn eftir sem áður verða veiddur. Hins vegar komi útboð í veg fyrir að sama útgerðarfyrirtækið geti veitt sama magn af fisk ár eftir ár og fái auk þess alla viðbótina til sín.
„Bátar eru hreyfanlegir, þeir ganga kaupum og sölum og færast á milli hafna. Þetta er ekkert öðruvísi. Þetta er bara spurning um það að allir hafi jafnan aðgang að auðlindinni og við sem eigum hana fáum fyrir hana fullt verð. En það má ekki. “
Oddný hefur áhyggjur af því að sérhagsmunagæsla sé rótgróin á Íslandi og bendir á að í auðlindadrifnum hagkerfum líkt og því íslenska þurfi að varast spillingu.
„Ef við horfum bara út í heiminn á lönd sem eru auðlindadrifin, hagkerfi sem eru auðlindadrifin eins og okkar. Þá viðgengst þar mikil spilling og við þurfum að gæta okkar þegar kemur að okkar auðlindum. Ég hef áhyggjur af því að þarna sé sérhagsmunagæslan rótgróin á íslandi og við eigum að stíga skref til að reyna að uppræta það með því að bjóða út aflaheimildir. Við getum byrjað á nýjum tegundum, við getum byrjað á viðbótaraflanum. Þá erum við ekki að taka neitt af neinum, til þess að stíga þessi skref í átt að jafnræði og réttlátri verðmyndun.“