Vegagerðin leitar áfram allra leiða til að ná samningum við skipasmíðastöðina Crist S.A um smíði á nýjum Herjólfi. Innköllun bankaábyrgðar verður ekki afturkölluð að sinni en það er mat Vegagerðarinnar að innköllunin feli ekki í sér riftun samnings. Þetta kemur fram í frétt á vef Vegagerðarinnar.
Áður hafði umboðsmaður skipasmíðastöðvarinnar, Björgvin Ólafsson, greint frá því að innköllun bankaábyrgðar jafngilti riftun samningsins. Þessari túlkun er Vegagerðin ósammála og kveðst áfram leita allra leiða til að finna lausn á deilum aðilanna. Deilan lýtur að viðbótargreiðslum sem Christ S.A hafa krafist vegna nýs Herjólfs, en Vegagerðin telur slíka greiðslu ekki heimila á grundvelli þeirra samninga sem gerðir hafa verið.
Ítrekað hefur legið við að bankaábyrgðir sem skipasmíðastöðinni er skylt að viðhalda renni út. Bankaábyrgðin er trygging Vegagerðarinnar fyrir því að endurheimta að mestu það fé sem þegar hefur verið greitt, standi skipasmíðastöðin ekki við gerða samninga.
Vegagerðin tekur fram að innköllun bankaábyrgðar felur ekki í sér riftun samnings og öll áform um að selja ferjuna öðrum aðila fælu í sér samningsrof með tilheyrandi tjóni fyrir alla aðila. Hér á sér eingöngu stað breyting á því hver heldur á kaupverði skipsins þegar gengið er til samninga. Hér eftir sem hingað til er það ásetningur Vegagerðarinnar að samningar verði efndir og ferjan afhent rekstraraðila Herjólfs til reksturs.
Viðbótargreiðslan nemur 8,9 milljónum evra sem Crist S.A segir stafa frá ferli við endurhönnun skipsins sem og kostnaði við samþykktarferlið og samræmingu aðal birgða. Á vef Vegagerðarinnar segir að skipasmíðastöðin hafi aldrei viðrað þennan viðbótarkostnað við Vegagerðina og hvergi sé í samskiptum aðila að finna nokkurn grundvöll fyrir kröfunni.
Vegagerðin hafnaði kröfu Crist S.A. um viðbótargreiðslur og bentu á að skipasmíðastöðin hefði tekið á sig fulla og ótakmarkaða ábyrgð á hönnun og smíði skipsins og þeir hefðu ekki getað sýnt fram á að aðrar breytingar hefðu verið gerðar á skipinu frá því að samið var um smíðina en þær breytingar sem samið hefði verið um skriflega eins og smíðasamningur kveður á um.
Vegagerðin hefur óskað eftir lögfræðilegri ráðgjöf dönsku lögfræðistofunnar Gorrissen Federspiel og hafa tveir fundir verið haldnir með aðilum með aðstoð lögmanna. Hins vegar er ekkert samkomulag í höfn.
Fram undan eru frekari samningaviðræður við Crist S.A og vonast Vegagerðin til þess að samkomulag náist um afhendingu skipsins innan skamms.
Sjá einnig:
Nýjar vendingar í deilum Vegagerðarinnar vegna nýs Herjólfs
Vegagerðin hafnar að samningi um nýjan Herjólf hafi verið rift