fbpx
Laugardagur 23.ágúst 2025
Fréttir

Hákon hvetur skuldara smálána til að hætta að borga

Erla Dóra Magnúsdóttir
Mánudaginn 6. maí 2019 13:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hákon Stefánsson frá Creditinfo Group segir að til að stöðva smálánafyrirtæki sé auðveldasta leiðin sú að lántakendur neiti að greiða, sinni ekki innheimtubréfum eða borgi einfaldlega bara höfuðstólinn án aukakostnaðar.

Þetta sagði hann í Morgunútvarpi Rásar 2 í morgun. Þar greindi Oddný Harðardóttir, formaður þingflokks Samfylkingarinnar, jafnframt frá því að fyrir þingi liggi frumvarp sem ætlað er að taka á smálánastarfsemi sem þverpólitískur áhugi er fyrir að lögfesta.

„Þetta eru reyndar ekki íslensk fyrirtæki, þetta eru dönsk fyrirtæki með danska vefsíðu,“ sagði Hákon í  morgun en tók þó fram að þrátt fyrir að fyrirtækin séu dönsk þá sé óumdeilt að starfsemi þeirra falli undir íslensk lög.

„En síðan virðist vera frekar erfitt að ná að koma í veg fyrir og stöðva þessa starfsemi, hver svo sem ástæðan fyrir því er nú en yfirvöld hafa vissulega viss úrræði og eftirlitsaðilar.“

Hákon bendir þó á að líklega sé það besta leiðin til að stöðva starfsemina að lántakendur sjálfir mótmæli þeim með aðgerðarleysi.

„Það er einfaldlega þannig og kannski má segja það að auðveldasta leiðin til að stöðva þetta er fyrir þá lántakendur sem hafa tekið lán að einfaldlega neita því að greiða eða sinna ekki innheimtubréfum .Eða hugsanlega borga bara höfuðstólinn.“

Til þessa hafi ekki reynt á lögmæti þeirra smálána sem dönsku smálánafyrirtækin veita fyrir íslenskum dómstólum, hvorki hafi lánveitendur farið með mál fyrir dóm né skuldarar.

„Því að lánveitendurnir vita líklegast upp á sig sökina þannig að ef lántakandinn er ekki að borga af láninu eru þeir svo sem ekkert að gera neitt, og lántakandinn þekkir sjaldnast sína réttarstöðu og hefur oft svo sem ekki greiðslugetu þannig að staðan er mjög sérstök hvað þetta varðar.“

Smálán eru þó vissulega innheimt, en þó ekki gengið það langt að stefna skuldurum í vanskilum.

„Já það er ekki gengið alla leið með það en það er vissulega verið að rukka og senda ítrekanir, ég veit ekki svo sem innheimtuferlið á þessu er, en þeir kannski jafnvel hringja í fólk og eru að reyna að pressa fram einhverja greiðslu,“

„Samkvæmt mínum skilningi er það þannig að  ekkert af þessum málum sem hefur verið að innheimta fyrir þessi fyrirtæki sem eru staðsett  í Danmörku hafa farið fyrir íslenska dómstóla .“

Þegar Hákon talar um smálán er hann að vísa til þeirra lána sem veitt eru til skamms tíma, litlar fjárhæðir með miklum kostnaði. Hann er ekki að vísa í lán líkt og hægt er að fá hjá fyrirtækjunum Netgíró eða Pei. Hugtakið smálán þykir mjög neikvætt og vísar til okurvaxta sem eru margfaldir á við það sem heimilt er samkvæmt íslenskum lögum.

„Það hefur mjög neikvæða merkingu og fólk tengir þetta heilt yfir við lán þar sem kannski lánskjörin eru þannig að vaxtakostnaður og lántökukostnaður mælist í þúsundum en ekki í tugum prósenta.

Ef menn horfa í heildarkostnaðinn þá skiptir svo sem ekki máli hvaða nöfnum hann er kallaður á endanum er þetta kostnaður sem skuldarinn þarf að greiða og þegar hann fer yfir ákveðin mörk þá er lánið ólögmætt. “

Samkvæmt íslenskum lögum má svo nefnd árleg hlutfallstala kostnaðar ekki fara yfir 50 prósent sem þýðir að sé 100 þúsund króna lán tekið til tólf mánaða má endurgreiðsla ekki vera meiri en 150 þúsund krónur.

Segja má að Hákon ráðleggi lántakendum smálána að haga sér í algjörri andstöðu við kjörorð innheimtufyrirtækisins Motus, Ekki gera ekki neitt. Hann beinlínis hvetur skuldara til að gera alls ekki neitt.

„Mín skoðun er sú að einfaldast er fyrir lántakendurna að huga að því hvort þeir eigi yfir höfuð að greiða eða skipta sér af innheimtuaðgerðum þessara lánveitanda.“

Smálánafyrirtækin veita lán til íslenskra neytenda en haga þeim með  þeim hætti að þau brjóta gegn lögum um neytendalán. Þetta telur Hákon enga tilviljun. Þarna sé um beinan og einbeittan ásetning að ræða. Því telur hann afar líklegt að ef smálánafyrirtæki stefnir skuldara fyrir dóm, þá muni dómari aðeins gera skuldara skylt að greiða höfuðstól lánsins. Hann telur þar að auki ólíklegt að þeim verði einu sinni gert að greiða málskostnað.

„Mér finnst mjög ólíklegt að hann gæti innheimt nokkurn kostnað af skuldaranum. Ekki einu sinni þennan löglega kostnað sem íslensk lög heimila.“

„Gegnum gangandi er það þannig að eins og í lögum um neytendalán þá er verið að tryggja réttindi neytenda og það eru skýr ákvæði sem banna tiltekna starfsemi eða háttsemi lánveitenda og mér þætt mjög ólíklegt ef niðurstaða dóms eða dómara ef lánveitandi með ásettu ráði, þetta er ekki tilviljun, stundar það að lána peninga og þessi lánastarfsemi brýtur gróflega í bága við lög.“

Oddný Harðardóttir ræddi einnig smálán í Morgunútvarpinu.

„Ég lagði fram frumvarp núna í september um svona umgjörð um rekstur smálána því þetta  náttúrulega getur alls ekki gengið áfram og þetta hefur gengið alltof lengi þannig að það er engin lagaumgjör utan um smálánafyrirtæki.“

„Það er ekki einu sinni hægt að taka af þeim rekstrarleyfið vegna þess að þau þurfa ekki rekstrarleyfi samkvæmt núgildandi lögum. Í mínu frumvarpi þar sem ég fékk fólk úr öllum flokkum til að flytja með  mér þannig það er þverpólitískur áhugi til að taka á málunum þó að stjórnvöld hafi ekki gert það ennþá sem er með ólíkindum því þessi vandi hefur legið fyrir lengi. Í þessu frumvarpi sem ég vann er gert ráð fyrir að eftirlit fari undir fjármálaeftirlitið og það sé leyfiskylt að reka svona fyrirtæki. Það þurfi að vera ákveðinn peningur til og ákveðnar upplýsingar um eigendur og þá sem sitja í stjórn og heimilisfang og svona. „

Þar að auki verði smálánafyrirtækjum meinað að greiða lánin út með hraði. En með því móti mætti telja að þar með minnki freistni almennings til að taka slík lán.

„Í mínu frumvarpi geri ég ráð fyrir að það megi ekki greiða út smálán nema bíða í  48 klukkustundir. Það verði að greiða það út á skrifstofutíma, ekki um helgar og ekki á nóttunni eins og má gera núna.“

Oddný benti á að samkvæmt umboðsmanni skuldara væri stór hluti ungs fólks í skuldavanda á Íslandi að leita sér aðstoðar embættisins vegna smálána.

„Þetta eru ekki bara einhver ungmenni sem stunda áhættu hegðun heldur er þarna líka láglaunafólk sem nær ekki endum saman og freistast til að fara þessa leið. „

Frumvarpið mun líka koma í veg fyrir að fyrirtæki geti gert líkt og smálánafyrirtækin hafa gert núna, fært fyrirtækið sjálft úr landi, en ekki reksturinn.

„Í frumvarpinu mínu verður heimilisfesti að vera á Íslandi.“

„Það þýðir ekkert fyrir okkur að fórna höndum og segja þetta er hræðilegt og þetta eru okurvextir og allt það ef við tökum ekki á því. Við erum löggjafinn og við eigum að gera það og ættum að vera löngu búin að því.“

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Póstburðarmaður vekur mikla athygli eftir að þetta náðist á myndband

Póstburðarmaður vekur mikla athygli eftir að þetta náðist á myndband
Fréttir
Í gær

Svona verður veðrið á Menningarnótt

Svona verður veðrið á Menningarnótt
Fréttir
Fyrir 2 dögum

„Annar hver Íslendingur er sérfræðingur í myglu“

„Annar hver Íslendingur er sérfræðingur í myglu“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Íris segir heilbrigðiskerfið hafa brugðist móður sinni – Fékk heilabilun en taldi skárra að fá frekar krabbamein

Íris segir heilbrigðiskerfið hafa brugðist móður sinni – Fékk heilabilun en taldi skárra að fá frekar krabbamein
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Gerður Magnúsdóttir skólastjóri Barnaskóla Kársness

Gerður Magnúsdóttir skólastjóri Barnaskóla Kársness
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Stafrænar eignir Latabæjar koma heim – Samstarf við OK

Stafrænar eignir Latabæjar koma heim – Samstarf við OK