fbpx
Laugardagur 23.ágúst 2025
Fréttir

Harðræði lögreglu: Seinni hluti

Auður Ösp
Sunnudaginn 5. maí 2019 22:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Embætti héraðssaksóknara rannsakar um þessar mundir mál 25 ára konu sem lést fyrr í mánuðinum eftir afskipti lögreglu. Foreldrar stúlkunnar hafa gagnrýnt vinnubrögð lögreglumanna vegna atviksins og telja að röngum aðferðum hafi verið beitt.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem einstaklingur deyr hér á landi eftir afskipti lögreglu. Í september 2004 lést 33 ára karlmaður, Bjarki Hafþór Vilhjálmsson, eftir að hafa lent í átökum við lögregluna í Keflavík. Bjarki Hafþór fékk hjartaáfall í átökunum við lögreglumennina og lést á staðnum en atburðurinn átti sér stað við heimili hans að Íshússtíg.

Í kjölfarið fól Ríkissaksóknari lögreglunni í Reykjavík að rannsaka málsatvik en niðurstaðan var sú að andlát Bjarka hefði ekki orðið vegna vinnubragða lögreglu. Krufning átti eftir að leiða í ljós að dánarorsök Bjarka var hjartastopp.

Anna Hafbergsdóttir, móðir Bjarka, gagnrýndi lögregluna hins vegar harðlega og sagði í samtali við DV skömmu eftir atburðinn að lögreglan hefði drepið son hennar. Tveimur árum síðar ræddi hún aftur við DV og var ennþá á sömu skoðun.

„Það versta er að þetta mál var aldrei til lykta leitt. Það var aldrei rannsakað heldur var kærunni vísað frá. Ég las skýrslurnar í málinu og það liggur í augum uppi að Bjarki fékk hjartaáfall og lést vegna meðferðarinnar. Hann var hraustur drengur sem hafði verið í íþróttum og það er alveg á hreinu að ungir menn fá ekki hjartaáfall upp úr þurru.“

Annað mál kom upp í lok árs 2007 en þá lést Jón Helgason, 31 árs gamall, tveggja barna faðir úr Vogunum, á gjörgæsludeild Landspítalans. Jóni hafði verið haldið sofandi í öndunarvél í tæpa viku eftir að hann lenti í átökum við sveit lögreglumanna á hóteli í Reykjavík.

Opinber dánarorsök Jóns var svokallað æsingsóráðsheilkenni, en um er að ræða sjúkdómsástand sem kemur fram þegar einstaklingur er að veita mikið viðnám eða mótspyrnu. Mikil óvissa ríkti hins vegar um andlát hans og spruttu upp getgátur um að Jón hefði látist vegna súrefnisskorts sem stafaði af harkalegu kverkataki lögreglumannanna sem tókust á við hann. Fjölskylda Jóns steig nokkrum mánuðum seinna fram í sjónvarpsþættinum Kompási þar sem leitað var nánari svara.

Vitni sem DV ræddi við á sínum tíma töldu ljóst að lögreglumennirnir hefðu beitt svokölluðu svæfingartaki sem hefði riðið Jóni að fullu. Þess vegna hefði Jón legið látinn í lögreglubíl í tíu mínútur án þess að lögreglumennirnir yrðu þess varir. Í samtali við DV sagði Geir Jón Þórisson aðstoðaryfirlögregluþjónn að slíku taki hefði ekki verið beitt. „Það tíðkaðist hér áður fyrr að lögreglumenn notuðu kverkatak, en það er löngu liðin tíð. Það er bannað að nota slík tök í dag.“

 

Réðust inn á hjón í brúðkaupsferð

DV heldur áfram að rifja upp mál sem upp hafa komið hér á landi undanfarna áratugi þar sem lögregluembættið er sakað um harðræði og ofbeldi.

Í júlí 2013 réðst víkingasveitin inn í sumarbústað í Vaðnesi, skammt frá Selfossi, þar sem nýgiftu hjónin Ívar Aron Hill Ævarsson og Silja Sigurðardóttir voru stödd í brúðkaupsferð ásamt svaramanni Ívars, Hersi Má Jónssyni.

Hjónin lögðu í kjölfarið fram kæru á hendur lögreglunni og kröfðust bóta fyrir ólögmæta og grófa aðför að friðhelgi einkalífs þeirra. Sögðu þau víkingasveitina hafi ráðist á þau, án viðvörunar, snúið þau niður og frelsissvipt í dágóðan tíma á meðan lögreglan leitaði í bústaðnum án heim­ildar en aðfarirnar náðust á myndband.

Ívar og Silja Forsíða DV í júlí 2013.

Ástæðan fyrir innrás víkingasveitarinnar var leit lögreglunnar að síbrotamanninum Stefáni Loga Sívars­syni sem talinn var dvelja í bústað hjónanna. Í samtali við DV á sínum tíma sögðust hjónin lítil sem engin tengsl hafa við Stefán. Fram kom að Ívar hefði verið góðkunningi lögreglunnar fimmtán ára aldri og hlotið fjölmarga refsidóma fyrir margs konar lögbrot, en væri hins vegar búinn að vera edrú í marga mánuði og kominn á beinu brautina.

Ívar sagðist hafa verið úti á palli þegar hann sá þyrlu Landhelgisgæslunnar sveima yfir bústaðnum. Kallaði hann á konu sína og svaramanninn sem komu út á pall. Í samtali við DV sagði Ívar víkingasveitarmennina hafa komið þeim algerlega að óvörum, á meðan þau voru að skoða þyrluna, og hafa ráðist að þeim án aðvörunar.

„Allt í einu heyrast bara öskur og þeir stökkva út úr trjánum með kylfurnar á lofti, og með byssur á sér. Svo rjúka þeir að okkur og ég er keyrð­ur niður. Lögreglumennirnir fóru svo inn í húsið, að sögn án þess að sýna þeim leitarheimild og án þess að greina frá ástæðum hinnar ofsafengnu inn­komu. „Þeir járna mig strax og þrýsta henni niður í gólfið.“

Þegar hjónin sáu víkingasveitina hörfuðu þau inn í húsið, þar sem þau voru snúin niður. „Hann var tæklaður í stofunni og ég í eldhúsinu,“ sagði Silja.

Fram kom að þegar Silja lá á eldhús­gólfinu með víkingasveitarmann á bakinu, hefði hún snúið andliti sínu í átt að honum og spurt hvað væri í gangi. Þá hafi hún fengið tröllvaxna hendi í andlitið á sér og því þrýst af miklu afli niður í gólfið.

„Ég var með handarfar í heilan sólarhring eftir þetta. Ég hélt að hann ætlaði að lemja mig, því kylfan var á lofti.“

Hjónin sögðu lögreglumennina hafa þráspurt þau hvar Stefán væri niðurkominn en því gátu þau ekki svarað.

Þau sögðu víkingasveitina síðan hafa látið sig hverfa um leið og hún hafði áttað sig á mistökunum. Hjónin sögðust aldrei hafa fengið að sjá húsleitarheimild þó svo að lögreglumennirnir hefðu leitað alls staðar í bústaðnum.

„Þeir sögðu bara að þetta væri „major fuck up“ hjá þeim og sögðu við okkur að við hefðum allavega um eitt­hvað að tala í kvöld,“ sagði Ívar.

 

Handtekinn í flogakasti

Í október 2003 sendu mæðginin Kristjana Hafdís Hreiðarsdóttir og Ágúst Hilmar Dearborn bréf til Ríkissaksóknara þar sem óskað var rannsóknar á handtöku Ágústs rúmlega mánuði áður. Ágúst lenti í bílslysi í Reykjanesbæ eftir að hafa fengið flogaveikiskast undir stýri og furðaði fjölskyldan sig á því að hann hefði verið handtekinn með valdi í stað þess að vera fluttur á sjúkrahús. Sögðu þau í samtali við Víkurfréttir að lögreglan hefði beitt miklu harðræði við handtökuna.

Fram kom að atvikið hefði átt sér stað með þeim hætti að bifreið sem Ágúst ók lenti á járngirðingu við Njarðarbraut í Njarðvík. Í lögregluskýrslu um málið kom fram að Ágúst hafi legið í götunni þegar lögreglan kom á vettvang og hann hafi verið með meðvitund en „mjög ringlaður og engu svarað.“

Ágúst Dearborn og fjölskylda hans Handtekinn í flogaveikiskasti.

Fram kom að hann hefði verið leiddur að sjúkrabifreið en neitað að fara inn í hana og reiðst mjög. Hann hefði að lokum verið handjárnaður þar sem ástand hans var talið óstöðugt og hann fluttur á lögreglustöðina í Keflavík.

Fram kom að hann hefði verið „frekar æstur“ og var hann færður í fangaklefa til að „róa hann niður.“ Þá kom fram að Ágúst hefði veitt mikla mótspyrnu.

„Ég lá í svitapolli á maganum og handjárnaður aftur fyrir bak. Ég lá á bekknum og lögreglumennirnir keyrðu hnén í bakið á mér,“ sagði Ágúst og bætti því við að honum hefði liðið eins og hann væri að kafna. „Ég var grátandi, allur í slefi, svita og tárum og mér leið eins og ég væri að kafna. Ég grátbað þá um að hætta og sagði að ég yrði góður. Ég sá lögreglumenn í kringum mig á meðan ég var keyrður niður og síðan slokknar aftur á mér. Það næsta sem ég man er að það er öskrað að foreldrar mínir séu komnir. Síðan man ég eftir mér í bílnum á leiðinni heim með mömmu.“

Ingólfur og Hafdís sögðust hafa farið á lögreglustöðina eftir að þeim var sagt frá handtökunni. Sögðust þau ítrekað hafa sagt við lögreglumann sem ræddi við þau að Ágúst væri flogaveikur og krafist þess að fá að fara til hans, en þau sögðust hafa heyrt hróp og vein frá Ágústi úr fangaklefanum. Ágústi var hins vegar ekki sleppt fyrr en eftir dágóða stund. „Ég sá hann var hann rennandi blautur af svita og ég fékk að fara með hann heim þar sem ég kom honum í rúmið,“ sagði Hafdís.

Fjölskyldan sagði vitni í málinu hafa sagt þeim að lögreglumenn á vettvangi hefðu verið látnir vita af flogaveiki Ágústs.

„Það skipti greinilega engu máli og það sem við erum líka gríðarlega ósátt við er að honum hafi verið hent í fangaklefa í stað þess að fara með hann á heilsugæsluna. Lögreglan vissi að hann væri flogaveikur.“

Fjölskyldan sagðist hafa fundið fyrir kjaftasögum um að Ágúst hefði verið undir áhrifum eiturlyfja þegar áreksturinn átti sér stað. Þau tóku fram að vissulega hefði Ágúst komist í kast við lögin í gegnum árin, en að hann hefði ekki verið undir áhrifum eiturlyfja.

Hafdís tók fram að þó að sonur hennar ætti sér sér einhverja fortíð gagnvart lögreglunni, þá ætti ekki að koma fram við einstaklinga á þann hátt sem gert var.

„Ágúst er enginn engill. Hann hefur mikið skap og hann hefur lent í lögreglunni. Hann er ekki glæpamaður. En drottinn minn dýri, svona á ekki að fara með veika einstaklinga.“

Fram kom að fjölskyldan hefði skrifað Ríkissaksóknara bréf þar sem hún hefði krafist rannsóknar á málinu.

„Lögreglan á ekki að koma svona fram við veika einstaklinga. Ágúst er svo sannarlega ekki sá eini sem er flogaveikur á Íslandi. Hann hefði getað dáið í fangaklefanum vegna meðferðar lögreglumannanna á honum,“ sagði Hafdís.

Þá sagði Ágúst: „Ég bara skil ekki hvernig þessir lögreglumenn, sem héldu mér og trömpuðu á mér í klefanum, hafi getað tekið þátt í þessu. Það á enginn maður skilið þá meðferð sem ég fékk.“

Engar skýringar

„Ég er marinn og með sár eftir að þeir lögðust með hnén í bakið á mér á harðri stéttinni og eftir handjárnin,“ sagði Birgir Jónsson, tvítugur menntaskólanemi, í samtali við DV í september 2004 en hann sagði farir sínar ekki sléttar af samskiptum hans við lögregluna á Egilsstöðum.

Birgir Jónsson Illa útleikinn eftir lögregluna.

Birgir hafði nokkrum dögum áður verið handtekinn fyrir utan dansleik í bænum. Sagði hann tvo lögreglumenn hafa fellt hann í götuna þegar hann gat ekki sýnt þeim skilríki sem þeir báðu hann um. Þeir hefðu síðan hert handjárn um úlnliði hans, svo fast að hann hlaut sár. Birgir sagðist í kjölfarið hafa verið fluttur í fangaklefa, þar sem hann fékk hvorki skýringu á handtökunni né að hringja til að láta vita af sér.

„Ég spurði þá margoft af hverju ég hefði verið handtekinn og eina skýringin sem þeir gáfu var mótþrói við handtöku sem þeir gátu ekki gefið ástæðu fyrir,“ sagði Birgir jafnframt, en honum var sleppt eftir rúmlega tvær klukkustundir, án nokkurra skýringa. „Maður trúir því bara ekki að svona geti gerst.“

Ljósmyndir sem fylgdu fréttinni sýndu að Birgir var marinn á hné og olnboga auk þess sem hann var með sár á úlnlið.

Eiríkur Guðmundsson, skólafélagi Birgis, varð vitni að atvikinu og staðfesti frásögn hans. „Þeir lágu báðir á honum með hnén í bakinu á honum og mér virtist hann ekki vera að streitast á móti, enda tveir fullvaxnir karlmenn ofan á honum,“ sagði hann og bætti við á öðrum stað. „Þessir menn hafa horft á of margar bíómyndir, sem þeir rugla greinilega saman við raunveruleikann.“

Þrírifbeinsbrotinn og alblóðugur

Ragnheiður J. Sverrisdóttir félagsfræðingur flutti erindi um harðræði lögreglu á lögregluráðstefnu á Akureyri fyrr á árinu. Erindið var byggt á gögnum úr MA-rannsókn hennar við Háskóla Íslands auk þess sem hún tók viðtöl við einstaklinga sem telja sig hafa orðið fyrir harðræði, ofbeldi eða valdmisbeitingu af hálfu lögreglunnar.

Ungur maður sem rætt var við sagðist hafa orðið fyrir grófu ofbeldi af hálfu lögreglu í tvígang. Hann hafi verið barinn sundur og saman með kylfum eftir að hafa verið járnaður og verið haldið í margar klukkustundir án þess að fá að drekka, borða eða fara á salerni. Hann fékk mikla áverka eftir þessa útreið.

„Seinna skiptið var hann barinn svo illa í lögreglubíl og fangaklefa að hann var þrírifbeinsbrotinn og alblóðugur og þannig fékk hann að dúsa í klefa yfir nóttina. Hann segist hafa verið hvattur til að kæra þessa meðferð. Hann taldi það ekki þýða neitt þar sem hann hafði verið í fíkniefnaneyslu og framið nokkur minni háttar brot. Þá yrði þetta hvort eð er fellt niður og myndi bara þýða aukinn kostnað og vesen.“

Annað dæmi segir frá ungri konu sem var handtekin í heimahúsi. Foreldrar hennar höfðu óskað eftir aðstoð lögreglu þar sem dóttir þeirra var í geðrofi og þau náðu ekki sambandi við hana. Hún var klæðlítil og reyndu foreldrarnir að fá að henda teppi eða einhverri flík yfir hana, en var meinað um það.

„Þau báðu einnig um að hún yrði flutt á geðdeild, en við því var ekki orðið, heldur var farið með hana í fangaklefa og þar fékk hún að dúsa fram á næsta dag án þess að fá drekka eða neitt til að hylja sig. Hún grátbað um að komast á geðdeild þegar hún rankaði við sér en það var ekki hlustað. Hún var fárveik andlega, bæði vegna endurtekinna áfalla og fíkniefnaneyslu.“

Sjö málum vísað frá

Eftirlitsnefnd með störfum lögreglu tók til starfa í ársbyrjun 2017 eftir að breytingar voru gerðar á lögreglulögum. 81 mál kom til meðferðar hjá nefndinni það ár, þar af 16 mál sem þegar voru komin í ferli. Flest málin lutu að handtöku einstaklinga. Nefndin lauk að fullu meðferð 22 mála á árinu. Í sjö tilvikum taldi nefndin ekki tilefni til þess að senda mál til frekari meðferðar eða skoðunar, þremur málum var vísað frá nefndinni vegna þess að þau heyrðu ekki undir valdsvið hennar og kvartandi féll frá kvörtun í einu tilviki. Skýrsla nefndarinnar fyrir árið 2018 hefur ekki verið gefin út.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Fimm ára drengur nærri drukknaður á Tenerife

Fimm ára drengur nærri drukknaður á Tenerife
Fréttir
Í gær

Segir Landsvirkjun ásælast Þjórsárver eins og Rússar Úkraínu

Segir Landsvirkjun ásælast Þjórsárver eins og Rússar Úkraínu
Fréttir
Í gær

Þetta eru tíu tekjuhæstu Íslendingarnir á síðasta ári – Fengu samtals um 30 milljarða

Þetta eru tíu tekjuhæstu Íslendingarnir á síðasta ári – Fengu samtals um 30 milljarða
Fréttir
Í gær

Þórdís Kolbrún sár út í Ragnar: „Ákaflega ógagnlegt og ámælisvert”

Þórdís Kolbrún sár út í Ragnar: „Ákaflega ógagnlegt og ámælisvert”
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Bendir á þessa hvimleiðu hegðun ökumanna sem hefur gormaáhrif á háannatíma

Bendir á þessa hvimleiðu hegðun ökumanna sem hefur gormaáhrif á háannatíma
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Tvær mjög ungar konur ákærðar fyrir stórfellt fíkniefnabrot

Tvær mjög ungar konur ákærðar fyrir stórfellt fíkniefnabrot