fbpx
Laugardagur 23.ágúst 2025
Fréttir

Fyrrverandi starfsfólk sakar Innheimtustofnun um ógnarstjórnun

Ágúst Borgþór Sverrisson
Laugardaginn 4. maí 2019 13:00

Innheimtustofnun sveitarfélaga.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Andlegt ofbeldi, einelti, ógnarstjórnun, yfirgangur gegn konum, margföld trúnaðarbrot og furðuleg afskipti af einkalífi starfsmanna eru á meðal ásakana sem fjórir fyrrverandi starfsmenn Innheimtustofnunar sveitarfélaga – allt konur – bera á stjórnendur stofnunarinnar. Halda þær því fram að forstöðumaður útibús stofnunarinnar á Ísafirði stýri stofnuninni eins og einkafyrirtæki sínu. Meginhlutverk Innheimtustofnunar sveitarfélaga er innheimta meðlagsgreiðslna og er ekki um stóran vinnustað að ræða. Aðalstöðvarnar eru í Reykjavík, útibú var opnað á Flateyri árið 2011 en var síðan flutt til Ísafjarðar. Starfsmenn eru núna átta á Ísafirði og tólf í Reykjavík.

Þær XXXXX, XXXXXX, Guðríður Kristjánsdóttir og Daðína Helgadóttir eru allar fyrrverandi starfsmenn Innheimtustofnunar sveitarfélaga. Allar vitna þær um ákveðið mynstur framkomu í garð starfsmanna sem falla í ónáð forstöðumannsins og nefna þær dæmi um starfslok fjögurra starfsmanna í kjölfar hegðunar sem þær líkja við ofsóknir. Allir starfsmennirnir eru konur. XXXXX lýsir því auk þess hvernig hún telur sig hafa verið rægða á meðal fyrrverandi starfsfélaga sinna á Ísafirði sem hafa lokað á öll samskipti við hana. Þær segja mikinn ótta ríkja meðal starfsfólksins vegna stjórnarhátta forstöðumannsins og að starfsfólk þori ekki að gagnrýna stjórnunina nema í einkasamtölum sín á milli.

Á borðinu liggja alltaf tvö bréf

Daðína Helgadóttir segir: „Ég byrjaði að vinna hjá stofnuninni á Flateyri árið 2008. Þá starfaði Guðríður ásamt þáverandi forstöðumanni þarna, en núverandi forstöðumaður tók til starfa 2010. Sumarið 2013 var ég kölluð inn til hans og fékk val um að segja upp eða vera sagt upp og hann færi með það alla leið, hvað sem það svo þýðir annað en að vera ákveðin hótun. Svo mátti ég ekki ræða þetta við neinn og það var erfitt. Ég hætti einmitt 30. júlí, alveg á leiðinni í sumarfrí, ætlaði að byrja í því 1. ágúst, búin að hlakka rosalega mikið til, þar sem dóttirin var að fara að eignast sitt fyrsta barn. Þetta varpaði skugga á bæði þá upplifun ásamt því að sumarfríið varð meira stressandi, þar sem maður vissi ekki hvað væri framundan. En það má kannski segja að litli ömmustrákurinn minn hafi bjargað geðheilsu ömmu sinnar á þessum tíma. Mér var ekki boðinn starfslokasamningur á þessum tíma, en fékk svo að vita símleiðis að þeir myndu borga mér laun í þrjá mánuði.“

XXXXXX segir: „Ég var fyrsti starfsmaðurinn sem þessi tiltekni forstöðumaður réð til starfa. Ég man vel eftir þeim degi þegar hann kallaði Daðínu inn til sín, hún kom fram um hálftíma síðar og sagði mér að hún þyrfti að kveðja mig, hún hefði ákveðið að segja upp. Hún pakkaði bara saman dótinu sínu og fór og ef ég man rétt þá var klukkan um 14.00. Þetta var mjög svo furðulegt. Það var enga vinnu aðra að hafa fyrir hana á svæðinu en hún bjó á Þingeyri og tók strætisvagn í vinnuna á Flateyri.“

Ástæða uppsagnarinnar var ekki samdráttur heldur átti starfsmönnum eftir að fjölga úr fjórum í átta. „Hann vildi koma sínu fólki að. Vinur hans var ráðinn í þetta starf skömmu síðar,“ segir XXXXXX.

Önnur kona segist hafa hlotið sömu örlög árið 2015. Guðríður Kristjánsdóttir segir:

„Framkoma forstöðumannsins í garð minn breyttist mikið, hann gerði allt til þess að mér liði illa. Í desember 2015 gerðist þetta: Við vorum þá að fara í jólahlaðborð á vinnustaðnum klukkan 17 með fjölskyldum okkar, en þetta var 16. desember. Það fóru allir heim nema ég og forstöðumaðurinn þar sem ég bjó á Flateyri og var með sparifötin í bílnum, ég var kölluð inn til hans klukkan 15.45, og þar biðu mín tvö bréf. Annað var uppsagnarbréf og hitt bréf um að ég segði sjálf upp starfi. Þarna mátti ég sitja, rétt áður en jólahlaðborð átti að hefjast og velja.“ Guðríður flutti suður í kjölfarið, eftir 50 ára búsetu á Flateyri.

XXXXXX segir um þetta atvik: „Þetta var skelfilegt. Klukkan korter fyrir fimm var hringt dyrabjöllunni hjá mér. Guðríður stóð fyrir utan og sagði við mig um leið og ég opnaði: „Vissir þú þetta?“ Hún sagði mér síðan hvað hefði gerst. En forstöðumaðurinn reyndi án árangurs að sannfæra mig, þegar ég mætti klukkan 17, um að Guðríður hefði verið orðin óánægð í starfi og viljað hætta. Það er hins vegar alrangt.“

Þess má geta að forstöðumaðurinn og Guðríður sendu frá sér hvort sinn tölvupóstinn til vinnufélaganna þar sem þau lýstu orsökum brotthvarfsins með afar ólíkum hætti. Forstöðumaðurinn skrifaði meðal annars:

„Guðríður hefur ákveðið að hverfa til annarra starfa frá og með deginum í dag. Hún sagði upp störfum við lok dagsins í dag. Við óskum henni að sjálfsögðu velfarnaðar í nýjum störfum.“

Guðríður skrifar hins vegar:

„Sælt veri fólkið
Langaði að senda ykkur línu og greina frá atburðum dagsins, þannig er að mér voru gefnir úrslitakostir að segja upp eða vera sagt upp með einhverju áminningaferli og leiðindum. Ástæðan er mér frekar óljós, en jú að sögn fyrrverandi yfirmanns er ég víst svo pirruð og óánægð að hann treystir sér ekki lengur til að hafa mig starfandi með hópnum og jú svo hef ég ekki staðið mig nógu vel í símsvörun. Og ekki má nú gleyma að einhver lítil mús tilkynnti honum í gær að ég hefði stolist út í smók utan matar/kaffi tíma.
En allavega ber mér að hætta núna strax korter í jólahlaðborð sem yfirmanninum fannst nú reyndar að ég ætti að mæta á (mjög sérstakt) og korter í jól. Þannig að ég vil þakka ykkur fyrir góð kynni og gott samstarf á undanförnum árum og óska ykkur og fjölskyldum ykkar gleðilegra jóla.“

„Þú finnur það þegar það byrjar og svo ágerist það. Allt í sambandi við manneskjuna fer að fara í taugarnar á honum og smám saman verður allt starfsmanninum að kenna,“ segir XXXX um framgöngu forstöðumannsins.

Innheimtustofnun sveitarfélaga Fjórar konur stíga fram og deila reynslu sinni af yfirmanni.

 „Um leið og maður er búinn að segja upp þá er maður orðinn óvinur“

„Mín saga er frábrugðin sögum hinna kvennanna,“ segir XXXX. „Það var ekki þessi langi undanfari vaxandi andúðar og eineltis. Ég starfað í höfuðstöðvunum í Reykjavík en forstöðumaðurinn umræddi var á Ísafirði. Forstöðumaðurinn gat hins vegar ekki unnað mér að ganga út úr stofnuninni með reisn.“

XXXXX hafði sagt upp störfum vegna óánægju með starfsandann á stofnuninni sem bæði hún og XXXXXX segja að gegnsýri bæði starfsstöðina á Ísafirði og aðalstöðvarnar í Reykjavík. Mikil vinátta ríki á milli forstjórans og forstöðumannsins og af þeim sökum sé enginn trúnaður við starfsfólk virtur. Allt sem sagt sé við forstjórann um erfiðleika í samskiptum við forstöðumanninn rati til forstöðumannsins og leiði hefnd yfir þann sem kvartaði. Lokaniðurstaðan sé alltaf sú sama: Val um að segja upp eða vera rekinn.

„Þann 23. mars 2017 fór forstjóri stofnunarinnar í frí og forstöðumaðurinn kom suður og leysti hann af,“ segir XXXX enn fremur. „Ég hafði sagt upp störfum og bað forstjórann um að tjá sig ekki um það þar sem ég vildi fá að segja samstarfsfólki mínu sjálf frá uppsögninni. Sama dag og forstöðumaðurinn kemur suður kallar hann mig inn á skrifstofu og tjáir mér að að frekara vinnuframlags af minni hálfu væri ekki óskað. Var mér gert að hætta strax en ég fengi greiddan allan uppsagnarfrestinn. Kom þetta mér í opna skjöldu þar sem trúnaðurinn við forstjórann var augljóslega brostinn.

Það var ekkert annað í boði fyrir mig en að fara strax. Það var í raun og veru verið að reka mig þó að ég hafi sagt upp. Ég átti ekki að fá að halda reisn, um leið og maður er búinn að segja upp er maður orðinn óvinur.

Það þarf að gera honum ljóst að hann á ekki Innheimtustofnun sveitarfélaga, þetta er opinber stofnun sem hann fer með eins og væri hans eigið fyrirtæki, og kemst upp með það af því að hann virðist hafa vin sinn, forstjórann, í vasanum. Það er þess vegna sem við stígum fram, ekki til að opinbera einhverja harmsögu í lífi okkar, því við jöfnum okkur alveg á þessu mótlæti, heldur til að leiða í ljós hvað viðgengst í daglegri stjórnun og starfsmannamálum í þekktri ríkisstofnun,“ segir XXXXXX.

XXXXX segist hafa streist lengi á móti hinum þekktu afarkostum sem starfsfólk er fellur í ónáð innan stofnunarinnar standi frammi fyrir. Í sögu hennar er meðal annars að finna dæmi um, að því er virðist, ef satt er, stórfurðulega afskiptasemi af einkalífi starfsfólks og maka þeirra, kvartað yfir því að þessi og hinn séu ekki Facebook-vinir, auk þess sem XXXXXXX var sökuð um einelti á vinnustað án þess að hún hefði nokkurn tímann fengið að vita efnisatriði þess eineltismáls, að hennar sögn.

Segir að farið hafi verið í tölvupóstinn hennar og rótað í skrifborðinu

„Mín saga er lengri og stærri en hinna vegna þess að ólíkt hinum konunum var ég staðráðin í að láta þennan mann ekki vaða yfir mig,“ segir XXXXXX. Í byrjun árs 2018 segist hún hafa upplifað mikla breytingu á hegðun forstöðumannsins í hennar garð á vinnustaðnum. „Það kom til dæmis fram í því að hann gekk út af kaffistofunni ef ég kom þangað inn og fleira af slíku tagi. Ég var greinilega fallin í ónáð og af fyrri reynslu vissi ég að farið var af stað ferli sem yrði ekki stöðvað og gæti bara endað á einn hátt.“ Þess skal getið að XXXXXXX og forstöðumaðurinn þekktust vel og voru góðir vinir eins og flestir starfsmenn útibúsins á Ísafirði, enda um lítið samfélag að ræða. „Við vorum nágrannar og vinskapur okkar náði langt aftur.“

Hluti af þessari sögu varða atburði í einkalífi XXXXXXX sem áttu sér stað um sama leyti: „Ég á son sem var í mikilli neyslu um þetta leyti og rétt eftir áramótin fékk ég tilkynningu um að hann væri á milli heims og helju á sjúkrahúsi. Ég upplýsi það fúslega hér að ég fékk taugaáfall vegna þessa og fór til læknis sem fyrirskipaði tveggja vikna veikindaleyfi. Á þeim tíma kom ég drengnum mínum í meðferð til Svíþjóðar. Ég sendi tölvupóst á allar vinkonur mínar í vinnunni – þennan góða hóp – og lét þær vita að ég yrði frá í tvær vikur.

Á þessum tíma fékk ég tilkynningu um það í símann að það hefði verið farið í tölvupóstinn minn. Ég hafði samband við kerfisstjórann og sagði að það væri búið að hakka tölvupóstinn minn. Þegar ég hafði samband við forstöðumanninn viðurkenndi hann að hafa farið í póstinn til að setja inn tilkynningu um að ég væri í veikindaleyfi. En ég hafði sjálf sett inn slíka tilkynningu.“

Þegar XXXXXX kom til baka úr veikindaleyfinu í febrúar kom í ljós að hún hafði misst prókúru inni í einkabanka stofnunarinnar og innkaupaverkefni á veitingum fyrir starfsmenn hafði verið tekið af henni. Þegar hún innti forstöðumanninn eftir því hverju þetta sætti, svaraði hann því til að hann hefði viljað minnka á henni álagið. Hún sagði honum að ef það þyrfti að létta af henni álagi myndi hún hún segja honum það sjálf.

XXXXXX upplifði undarlegan kulda í samskiptum á vinnustaðnum. Hún bauð einni samstarfskonu að hitta sig utan vinnu til að spyrja hana hvað væri að. Vinkonan svaraði henni með þessum orðum: „Haltu bara þínu striki.“ Segir XXXXXX að á milli þeirra hafi ríkt þögull, gagnkvæmur skilningur á því að hið kunnuglega mynstur útskúfunar og meðfylgjandi þöggunar væri nú orðið hlutskipti hennar.

„Félagsleg útskúfun í vinnunni magnaðist en gat jafnvel orðið spaugileg. Eitt mjög sérstakt dæmi var þegar forstöðumaðurinn keypti pítsu handa öllu starfsfólkinu í hádeginu og kallaði síðan hvert og eitt okkar upp með nafni til að fá sinn skammt. En hann kallaði ekki upp nafn mitt. Ég tók þetta ekki nærri mér, það var of hlægilegt til þess. En þetta segir mikið um aðferðirnar og ógnarstjórnina á vinnustaðnum. Oft fólst ofbeldið í hundsun, en einnig í því að forstöðumaðurinn skaut á mig meiðandi athugasemdum fyrir framan aðra starfsmenn.“

Alltaf sama mynstur Starfsmennirnir fundu á sér ef eitthvað var í vændum.

Kvörtun til forstjórans kornið sem fyllti mælinn

Þann 20. febrúar 2018, eða ellefu dögum eftir að XXXXXXX kom úr veikindaleyfinu, sendi hún kvörtunarbréf vegna hegðunar forstöðumannsins til forstjóra stofnunarinnar. Forstjórinn svaraði með því að vísa erindinu til forstöðumannsins. „Með öðrum orðum: Trúnaður var ekki virtur og forstöðumaðurinn átti að vera dómari í eigin sök. Það þurfti ekki að bíða lengi eftir viðbrögðum forstöðumannsins, sem kallaði mig inn til sín samdægurs og lýsti yfir mikilli reiði yfir kvörtuninni,“ segir XXXXXX.

Gekk nú á um skeið með togstreitu þar sem XXXXXX segir að forstöðumaðurinn hafi viljað hana út af vinnustaðnum, vildi að hún segði upp að eigin ósk – en þó í raun nauðbeygð – en XXXXX segist hafa neitað að gera það. Hún segir að einu sinni hafi forstöðumaðurinn misst þolinmæðina og hvæst á hana: „Þá leggjum við bara starfið þitt niður.“

„En þetta er opinber stofnun, hann getur ekki bara lagt störf hjá hinu opinbera niður að eigin geðþótta,“ segir XXXXX.

„Þetta var bara skólabókardæmi um kynbundið ofbeldi og einelti á vinnustað. Þetta snerist um yfirgang, stjórnsemi, drottnun og að lokum útskúfun,“ segir XXXXX.

XXXXX leitaði til stjórnar Innheimtustofnunar sveitarfélaga um liðsinni í málinu, en án árangurs að hennar sögn. Hún fékk einnig viðtal við forstjóra stofnunarinnar í Reykjavík og reyndi að útskýra hvað væri í gangi, en hún segir að forstjórinn hafi ekki verið reiðubúinn til að hlusta á hennar hlið.

Útskúfun og óútskýrðar ásakanir um brot í starfi

XXXXX fór í frí 3. apríl. Á meðan hún var í fríinu komst hún að því að búið var að eyða henni úr öllum sameiginlegum hópum hennar og samstarfsfólksins á samfélagsmiðlum. Flest samstarfsfólkið taldist til hennar bestu vina enda vinnustaðurinn í litlu samfélagi. Þegar XXXXXX ætlaði að spyrja eina vinkonuna hvers vegna hún væri horfin úr öllum hópum þá var það ekki hægt, vinkonan var búin að blokka hana – þau voru öll búin að blokka hana!

Skömmu síðar fékk XXXXXXX þær fréttir að hún væri sökuð um brot í starfi, nánar tiltekið einelti á vinnustað. Hún fékk aldrei að vita nánari málsatvik í þessu meinta eineltismáli og sjálf kannast hún ekki við neitt slíkt.

Einu efnislegu ásakanirnar sem gætu varðað þetta hljóma mjög sérkennilega, ef satt er. Þannig segist XXXXX hafa verið sökuð um að hafa deilt frétt á Facebook sem ein af hennar samstarfskonum sá ekki en aðrir sáu. Þá var það talið henni til vansa að eiginmaður hennar væri ekki Facebook-vinur sömu samstarfskonu XXXXX. XXXXXX segir að forstöðumaðurinn hafi bent henni á að vinnan snerist um meira en verkefnin ein og hún væri ekki að standa sig í þessum félagslegu þáttum.

Starfsmaður frá póstinum kom heim til hennar með kassa með öllum hennar persónulegu eigum af vinnustaðnum og lokað var fyrir allan aðgang hennar að vinnustaðnum, þar með talið að tölvupósti, að sögn XXXXXXX. Þetta gerðist á meðan hún var enn starfsmaður stofnunarinnar.

Ferill málsins teygði sig út maímánuð 2018. Fulltrúi verkalýðsfélagsins fundaði með forstjóra og forstöðumanni Innheimtustofnunar og voru skilaboðin þau að ef hún skrifaði ekki undir starfslokasamning undir eins yrði hún kærð fyrir meiðyrði, einelti og trúnaðarbrot. XXXXX þóttu þær ávirðingar ekki vera svaraverðar enda væru þær ekki tilgreindar efnislega með neinum hætti.

Þann 22. maí fékk XXXXXXX  bréf um brottrekstur úr starfi. Starfsmannafélag Reykjavíkur mótmælti brottvikningunni með fimm síðna andmælabréfi þar sem tíunduð voru ýmis meint brot gegn XXXXXXX í starfi.

Síðan skrifaði forstöðumaðurinn tvö bréf sem XXXXX var beðin um að skoða. Annað var samkomulag sem henni var boðið að skrifa undir og hitt var meðmælabréf, undirritað af forstöðumanni. Í samkomulaginu stendur meðal annars:

„Starfsfólki verður tjáð að XXXXXXX hafi óskað eftir starfslokum sjálf til að prófa nýjan starfsvettvang eða mögulega fara í nám. Forstöðumaður mun tryggja að starfsfólk á Ísafirði tjái sig á þann hátt.“

Í meðmælabréfinu sem forstöðumaðurinn undirritaði stendur meðal annars:

„Sinnti hún störfum sínum af samviskusemi og vandvirkni. Samskipti hennar við samstarfsfólk voru með ágætum. Gef ég henni mín bestu meðmæli.

XXXXXX er jafnframt góður félagi og vinur samstarfsmanna sinna sem hefur jákvæð áhrif á starfsandann á vinnustaðnum.“

„Þessi fallegu orð stinga nokkuð í augu þegar haft er í huga að ég hafði verið sökuð um einelti á vinnustaðnum og allt starfsfólkið var búið að loka á rafræn samskipti við mig,“ segir XXXXX.

XXXXXXX ákvað að fallast á samkomulag um starfslok í júní og telur sig ekki hafa haft um annað að velja. Hún er hins vegar engan veginn sátt við meðferðina sem hún telur sig hafa fengið: „Starfsferillinn minn var tekinn og settur í tætarann,“ segir hún. Hún hefur núna komið sér fyrir með fjölskyldu sinni á Selfossi og er að byggja þar upp nýtt líf. Hún segist hafa sagt sögu sína hér, ekki til þess að opinbera persónulegan harm heldur til að afhjúpa það sem hún telur vera óásættanlega meðferð á opinberri stofnun og ólöglega starfshætti.

Útibúið á Ísafirði
Kvörtun starfsmanns vegna forstöðumannsins endaði á hans borði.

Innheimtustofnun hafnar ásökunum

 DV hafði samband við Innheimtustofnun og bað stjórnendur um að bregðast við eftirfarandi ásökunum:

  1. Grunsamlega mikil starfsmannavelta á stuttum tíma. Starfsmenn sem falla í ónáð hjá forstöðumanni kallaðir fyrir og þeim boðið að velja á milli brottrekstrar eða að segja upp að eigin ósk.
  2. Afskipti af einkalífi starfsmanna, þ.e. sett út á hver sé Facebook-vinur hvers og að efni sé ekki deilt með öllum á samfélagsmiðlum.
  3. Farið inn í tölvupóst starfsmanns.
  4. Starfsmaður sakaður um brot í starfi og einelti án þess að málsatvik séu nokkurn tíma útlistuð.

Í svari stofnunarinnar segir að stofnunin tjái sig ekki um má einstakra starfsmanna en ásökununum er engu að síður hafnað með öllu. Orðrétt segir í svari forstöðumanns:

„Hins vegar getur stofnunin um leið svarað því til, að lýsingar þær sem þú vísar til í spurningum þínum eiga sér enga stoð í raunveruleikanum. Einnig er rétt að upplýsa þig um, hvað starfsmannaveltu varðar, að á um níu ára tímabili, frá 2010 er núverandi forstöðumaður á Ísafirði hóf störf hjá stofnuninni, hafa alls 4 starfsmenn látið af störfum á umræddri starfsstöð, einn 2013, annar 2014, þriðji 2015 og svo síðasti 2018. Alls starfa 8 manns á starfsstöð stofnunarinnar á Ísafirði í fullum störfum, auk afleysinga- og sumarstarfsfólks. Deilumáli sem upp kom í tengslum við starfslok eins starfsmanns var lokið með sátt síðastliðið sumar. Um það mál fjallar stofnunin ekki frekar nema þá fyrir dómstólum, komi til þess.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Póstburðarmaður vekur mikla athygli eftir að þetta náðist á myndband

Póstburðarmaður vekur mikla athygli eftir að þetta náðist á myndband
Fréttir
Í gær

Svona verður veðrið á Menningarnótt

Svona verður veðrið á Menningarnótt
Fréttir
Fyrir 2 dögum

„Annar hver Íslendingur er sérfræðingur í myglu“

„Annar hver Íslendingur er sérfræðingur í myglu“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Íris segir heilbrigðiskerfið hafa brugðist móður sinni – Fékk heilabilun en taldi skárra að fá frekar krabbamein

Íris segir heilbrigðiskerfið hafa brugðist móður sinni – Fékk heilabilun en taldi skárra að fá frekar krabbamein
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Gerður Magnúsdóttir skólastjóri Barnaskóla Kársness

Gerður Magnúsdóttir skólastjóri Barnaskóla Kársness
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Stafrænar eignir Latabæjar koma heim – Samstarf við OK

Stafrænar eignir Latabæjar koma heim – Samstarf við OK