Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, segist alveg eins eiga von á því að hann taki þátt í þögulli mótmælastöðu ef og þegar Ágúst Ólafur Ágústsson, þingmaður Samfylkingar, stígur í ræðustól Alþingis í dag. Ágúst Ólafur snýr nú aftur til starfa úr leyfi en hann fór í áfengismeðferð eftir að hafa tekið sér leyfi frá störfum í desember í fyrra eftir að blaðakona á Kjarnanum hafði sakað hann um óviðeigandi hegðun. Ágúst Ólafur tók fulla ábyrgð á atvikinu og baðst einlæglega afsökunar.
Ágúst Ólafur tilkynnti fyrir skömmu um endurkomu sína á Alþingi með færslu á Facebook-síðu sinni. Mikil auðmýkt einkenndi þau skrif en Ágúst Ólafur sagði meðal annars:
„Ég tek því ekki sem sjálfgefnu að taka aftur sæti á þingi á ný og mun leggja mig allan fram að ávinna mér traust á nýjan leik. Ég brenn enn fyrir því að starfa í þágu samfélagsins og koma góðum málum til leiðar sem stjórnmálamaður. Í raun er ég að biðja um annað tækifæri.“
Mikla athygli vakti stutt uppákoma sem Björn Leví og Þórhildur Sunnar Ævarsdóttir stóðu fyrir í vetur þegar Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins og ein af aðalpersónunum í Klaustursmálinu, sneri aftur til þingstarfa eftir leyfi. Stóðu þau hvort sínum megin við Bergþór í ræðustól og báru á höfði sér húfur með áletruninni „Fokk ofbeldi“. Í samtali við DV segist Björn alveg eins eiga von á mótmælaaðgerðum gegn Ágústi Ólafi í dag. Tvennt þurfi Ágúst Ólafur að gera til að forðast mótmæli, annað er að ítreka afsökunabeiðnir sínar úr ræðustól Alþingis en hitt er að segja af sér varaformennsku í fjárlaganefnd. Björn Leví segir:
„Hann segist vilja annað tækifæri til þess að vinna sér inn traust. Það er ekki gert með því að stíga beint inn í trúnaðarstöðu. Ég heyrði að það gerist líklega, en hann hefur samt þegið varaformannsálag í veikindaleyfi.“
UPPFÆRT: Staðfest er að Einar Ágúst Ólafsson mun segja af sér varaformennsku í fjárlaganefnd