Talverður erill var hjá lögreglu í miðborg Reykjavíkur í nótt. Nokkuð var um ölvun enda margir landsmenn í fríi í dag, 1. maí.
Einn var handtekinn í miðborginni eftir að hafa ráðist á lögreglumann. Hann var vistaður í fangaklefa í kjölfarið. Engar frekari upplýsingar um málið er að finna í skeyti lögreglu.
Þá var tilkynnt um umferðarslys í umdæmi lögreglustöðvar 2, en hún sinnir Garðabæ og Hafnarfirði. Minniháttar slys urðu á fólki en annar ökumaðurinn stakk af frá vettvangi og er hans leitað. Frekari upplýsingar um málið koma ekki fram í skeyti lögreglu.
Þá var tilkynnt um eld í bifreið um tvöleytið í nótt. Engin frekari hætta stafaði af eldinum, að sögn lögreglu.
Alls voru fjórir ökumenn stöðvaðir og eru þeir grunaðir um akstur undir áhrifum áfengis og/eða fíkniefna.