Baráttukonan fræga og feministinn Hildur Lilliendahl hefur vakið nokkra athygli í dag – og hneykslun sumra – fyrir færslu á Twitter þar sem hún birtir myndir af fyrrverandi ráðherrum með orðunum „Ríða, drepa, giftast?“ og vísar þar til þekkts samkvæmisleiks. Þingmennirnir á myndunum eru allir vel við aldur og allir karlkyns.
Eiríkur Jónsson, blaðamaður án hliðstæðu, rak augun í þetta og skrifaði í frétt sinni: „Nú er að sjá hvernig ráðherrarnir fyrrverandi bregðast við. Varla hafa þeir húmor fyrir þessu.“
Þess má geta að Hildur er verkefnisstjóri á skrifstofu borgarstjórnar Reykjavíkur og Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins, hefur einmitt orð á því er hún deilir frétt Eiríks og skrifar með nokkurri vandlætingu:
„Góðan dag
Má ég kynna verkefnisstjóra á skrifstofu borgarstjórnar
Svona í ljósi þess að núna erum við að ræða heildstætt átak gegn fordómum og hatursorðræðu í borgarstjórn“
Tilefni færslu Hildar mun hafa verið sumarhátíð Alþingis sem haldin var í Kaupmannahöfn á dögunum en í henni tóku einungis karlar þátt. Þar vöktu athygli ummæli Helga Bernódussonar, fyrrv. skrifstofustjóra Alþingis, þar sem hann líkti málþófi við nauðgun. Um þetta skrifaði Hildur á Facebook-síðu sína þann 26. apríl:
„Eins og fram hefur komið tókst forseta Alþingis að halda hátíð í Kaupmannahöfn í gær (sko 2019) til að fagna sumrinu þar sem einungis karlar komu fram. Aðspurður sagði Steingrímur að þetta væri nú auðvitað bara helber tilviljun, hefði svo auðveldlega getað verið öfugt og bara allir frasarnir.
Nema hvað. Helgi Bernódusson var einn af körlunum sem þarna komu fram. Og honum þótti við hæfi, í miðju þessu pulsupartíi, að láta þessi orð falla í ræðu sinni: „Málþóf á ekkert skylt við málfrelsi, ekki frekar en nauðgun við kynfrelsi.“
Mig langar ekki að samfélaginu mínu sé stýrt af körlum sem hafa nægilega takmarkaðan skilning á reynsluheimi kvenna til þess að þeir finni sig í því að líkja nauðgunum við málþóf. Þetta er niðurlægjandi og ógeðslegt.“
Ríða drepa giftast? pic.twitter.com/NeDhM7pgkI
— Hildur ♀ (@hillldur) 29 April 2019