Samningi Vegagerðarinnar við pólsku skipasmíðastöðina Crist S. A um nýjan Herjólf hefur verið rift. Frá þessu greina heimildarmenn miðilsins Eyjar.net. Samningnum mun hafa verið rift sökum deilna aðila um lokauppgjör vegna smíðanna.
Sömu heimildir greina að sögn frá því að næsta skref Crist S.A verði að bjóða skipið til sölu. Björgvin Ólafsson, umboðsmaður skipasmíðastöðvarinnar, staðfesti í samtali við Eyjar.net að íslenska ríkið hafi krafist þess að fá endurgreidda ábyrgð samkvæmt samningnum, en slíkt mun fela í sér riftun.
G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar gat ekki tjáð sig um málið að svo stöddu.