Hannes Hólmsteinn Gissurarson stjórnmálaprófessor skýtur föstum skotum á Olof heitinn Palme á Facebook-síðu sinni. Hannes segir Palme, sem var skotinn til bana árið 1986, hafi fært Svíþjóð lengst til vinstri og skapað vanda fyrir þjóðina.
„Illugi Jökulsson efndi á vegg sínum til fjörugra umræðna um norræna kommúnista og jafnaðarmenn. Sumir líta til Olofs Palmes sem fyrirmyndar, en sannleikurinn er sá, að hann færði Svíþjóð langt til vinstri, hélt uppi rammri andstöðu við Bandaríkjastjórn (sem hefur þrátt fyrir allt verið sverð og skjöldur vestrænna þjóða) og hækkaði skatta upp úr öllu valdi. Svíar hafa verið lengi að vinna sig út úr þeim vanda, sem Palme skapaði,“ segir Hannes.
Hannes birtir svo mynd af Palme ásamt Fidel Castro. „Hér er hann í opinberri heimsókn á Kúbu árið 1975. Castro tók við ríkasta landinu á Karíbahafi, og nú er það næstfátækast. Um 30 þúsund manns týndu lífi undir harðstjórn hans, og tugir þúsunda hírðust í fangabúðum hans undir miskunnarlausri hitabeltissólinni. Röskur tíundi hluti landsmanna flúði til Bandaríkjanna, oft fólkið með bestu menntunina (sem orðin var verðlaus á Kúbu). Það reri úr landi, greiddi atkvæði með árunu,“ segir Hannes.