fbpx
Föstudagur 22.ágúst 2025
Fréttir

Guðni: „Þeir gista á rándýrum hótelum og éta nautasteikina um kvöldið sem þeir fordæmdu í ræðunni á fundinum“

Ritstjórn DV
Mánudaginn 29. apríl 2019 10:10

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Barnið veit hvar heitast brennur og hvernig má draga úr hættunni, hún flýgur ekki þar sem aðrir möguleikar eru fyrir hendi og leggur á sig sólarhringa ferðalög með lestum til að spara kolefnissporin.“

Þetta segir Guðni Ágústsson, fyrrverandi þingmaður og ráðherra, í grein sem hann skrifar í Morgunblaðið í dag. Barnið sem Guðni vísar til hér að framan er hin sænska Greta Thunberg sem vakið hefur mikla athygli að undanförnu fyrir baráttu sína fyrir náttúruvernd.

„Það er um ár liðið síðan fimmtán ára stúlka stóð fyrir framan ríkisþingshúsið í Stokkhólmi með skilti sem á stóð „Skólaverkfall fyrir loftslagið“. Nú er Thunberg fengin til að ávarpa hér og þar og m.a. loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, sem haldin var í Póllandi í fyrra, og ávarpa fund Alþjóðaviðskiptaráðsins í ár,“ segir Guðni sem beinir svo orðum sínum að þeim sem hann telur mesta ábyrgð bera á loftslagsvandanum.

Greta Thunberg

Einkaþotur og rándýrir lúxusbílar

„Velmegun og bruðl lítils hluta mannkyns, en þess hluta sem spyr bara eftir efnislegum gæðum, ber mesta ábyrgð á sóun og græðgi sem nú er talið að muni verða jörðinni að fjörtjóni verði ekki græðgin og gróðahyggjan hamin. Við sjáum fyrir okkur allar ráðstefnurnar um gróðurhúsaáhrifin þar sem fyrirmenn þjóðanna mæta og forsvarsmenn viðskiptanna,“ segir Guðni og heldur áfram:

„Það er gnýr í lofti; forsetarnir, alþingismennirnir, ráðherrarnir og viðskiptajöfrarnir koma á einkaþotum, í þyrlum, sitjandi á sagaklass og með rándýrum lúxusbílum með mörg hundruð hestafla vélarafli og heila hirð af aðstoðarfólki. Þeir gista á rándýrum hótelum og éta nautasteikina um kvöldið sem þeir fordæmdu í ræðunni á fundinum. Nei, þá kemur Greta Thunberg með lest, eina litla handtösku með sér og gæti þess vegna gist í fjárhúsi. Hún talar frá hjartanu af hógværð barnsins og segir þeim að „keisarinn sé nakinn“. Sem sé viðskiptajöfrar og ríkasta fólkið sem á megnið af auði heimsins eru stóru gerendurnir, þetta fólk verður að stöðva, það er að drepa heiminn. Það getur fyrst og fremst stigið stór skref gegn gróðurhúsaáhrifunum og okkur hinum ber að stíga okkar litlu skref fjöldans sem hjálpar mikið.“

Frelsið að snúast upp í andhverfu sína

Guðni hvetur fólk til að leggja við hlustir þegar Greta Thunberg talar og hvetur jafnframt Íslendinga til að sýna gott fordæmi í baráttunni við loftslagsvandann.

„Í fluginu liggur stór þáttur og flutningum heimsálfa á milli með vörur og matvæli, það kallast frelsi í viðskiptum. En þetta frelsi er að snúast upp í andhverfu sína og er ógnun við lífið á jörðinni. Við Íslendingar ættum að snúa okkur að því sem við höfum gert og getum svo auðveldlega gert til að draga úr gróðurhúsaáhrifum. Við erum með endurvinnanlega græna orku og stefnum að því að allt flutningakerfi á sjó og landi fari þá leið. Við getum framleitt allt kjöt og grænmeti í landinu okkar, bændurnir geta aukið framleiðsluna strax.“

Guðni segir svo að þegar Greta Thunberg hvetur mannkynið til að bjarga jörðinni með alvöru aðgerðum sitji „bissnessmenn“ uppi á Íslandi að smakka nýsjálenskt lambakjöt og hugsi um að flytja það með öllum sínum afleiðingum þaðan og hingað.

„Hef ég engan hitt enn sem ekki dásamar okkar lamb og nóg er til af því. Og ríkisstjórn og Alþingi ætla trúlega að auka í og gefa ESB-bændum leyfi til að færa heildsalafélagi Íslands þá gjöf í gegnum ESB að flytja farma af hráu kjöti til Íslands og taka vinnuna af okkar bændum. Öll varnaðarorð um gróðurhúsaáhrif, sýklalyfjaóþol og smitandi dýrasjúkdóma, kúariðu, gin- og klaufaveiki, allt heimska og afturhald, talið til hræðsluáróðurs og tilheyri mönnum sem berjast gegn frelsinu, segja þeir. Í dag er þetta glapræði móðgun bæði við neytendur og bændur og ógn gegn aðgerðunum sem litla stúlkan með kröfuspjaldið er að berjast fyrir,“ segir Guðni sem endar grein sína á þessum orðum:

„Hún Greta Thunberg er vonarstjarna mannkynsins, hún er rödd dagsins og morgundagsins, okkur ber að hlusta, því líf og hamingja jarðarbúa er að veði.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 11 klukkutímum

Þórdís Kolbrún sár út í Ragnar: „Ákaflega ógagnlegt og ámælisvert”

Þórdís Kolbrún sár út í Ragnar: „Ákaflega ógagnlegt og ámælisvert”
Fréttir
Fyrir 11 klukkutímum

Lífið í fangelsinu enginn dans á rósum fyrir morðingjann

Lífið í fangelsinu enginn dans á rósum fyrir morðingjann