Verðbólgan hækkaði lítillega í aprílmánuði, eða um 0,37 prósent en án húsnæðis hækkaði hún um 0,48 prósent. Í frétt á vef Hagstofunnar kemur fram að gjaldþrot WOW air hafi nokkur áhrif.
„Verð á flugfargjöldum til útlanda hækkaði um 20,6% frá fyrri mánuði (áhrif á vísitölu 0,29%). Gjaldþrot fyrirtækis í farþegaflugi til og frá Íslandi um síðustu mánaðarmót hafði áhrif á niðurstöðu mælingar á vísitölu neysluverðs nú. Auk þess er algengt er að sjá hærri flugfargjöld í kringum páska. Mælingin tekur tillit verðs á helstu flugleiðum milli Íslands og Evrópu annars vegar og Íslands og Norður-Ameríku hins vegar. Mælt er verð hjá helstu þjónustuveitendum á hverri leið og gert ráð fyrir að ferðast sé frá Íslandi og aftur til baka,“ segir í fréttinni.
Þá hafði verð á eldsneyti áhrif en verð á bensíni og olíum hækkaði um 2,5 prósent. Síðastliðna tólf mánuði hefur verðbólga hækkað um 3,3 prósent en án húsnæðis hefur hún hækkað um 2,8 prósent.
Sjá frétt Hagstofunnar.