Greiðslukortafyrirtækið Valitor hefur sent frá sér yfirýsingu þar sem brugðist er við dómi Héraðsdóms Reykjavíkur en fyrirtækið var í dag dæmt til sektargreiðslu upp á 1,2 milljarðar fyrir að hafa lokað fyrir greiðslugátt fyrirtækjanna sem standa að baki Wikileaks þannig að ekki var hægt að taka við styrktarframlögum til Wikileaks. Valitor segir dóminn vera furðulegan sérstaklega í tilfelli SPP, sem fær dæmdan bróðurpart skaðabótanna (það fyrirtæki er í eigu Julian Assange), því SPP hafi aldrei átt í neinu viðskiptasambandi við Valitor. Líklega mun Valitor áfrýja málinu til Landsréttar. Þá hafi minnihluti dómenda vilja sýkna Valitor.
Fréttatilkynning Valitor vegna málsins er eftirfarandi:
Héraðsdómur Reykjavíkur féllst í dag að hluta á skaðabótakröfu Sunshine Press Productions (SPP) og Datacell gagnvart Valitor að upphæð samtals 1,2 milljarðar króna. Þar af eru SPP dæmdar 1.140 milljónir króna í bætur og Datacell 60 milljónir króna.
Minnihlutinn vildi sýkna Valitor
Niðurstaða dómstólsins sætir furðu, sérstaklega varðandi SPP sem aldrei hefur átt í neinu viðskiptasambandi við Valitor. Auk þess hefur SPP aldrei haft nema hverfandi tekjur en gerði engu að síður margra milljarða dómkröfur á hendur fyrirtækinu. Valitor hefur frá upphafi bent á að enginn grundvöllur sé fyrir kröfugerð SPP en meirihluti héraðsdóms kemst að annarri niðurstöðu í dag. Hins vegar skilaði einn þriggja dómara séráliti og vildi sýkna Valitor alfarið enda hafi ekkert tjón verið sannað. Valitor er að fara yfir dómsniðurstöðuna og mun væntanlega áfrýja málinu til Landsréttar.
Traust staða Valitor
Vert er að taka fram að niðurstaða dómstólsins hefur engin áhrif á rekstrarhæfi Valitor né þjónustu við viðskiptavini félagsins og fjárhagsleg staða þess er áfram sterk. Arion banki, eigandi Valitor, er fjárhagslegur bakhjarl félagsins í þessu máli.