„Fram að því hafði ég verið blind fyrir þessu. Ég vissi að vinnunni hans fylgdi partístand, ég er ekki fædd í gær, en ég hafði fyrir löngu ákveðið að treysta honum af því að hvernig veistu hvort fólki sé treystandi í raun og veru nema treysta því?“
Þetta segir Kristín Sif Björgvinsdóttir í einlægu viðtali við Vikuna en hún missti sambýlismann sinn og barnsföður, Brynjar Berg Guðmundsson, í október síðastliðnum. Líkt og DV hefur áður greint frá þá hann var ný orðinn 31 árs. Kristín Sif segir í viðtali við Vikuna að hún hafi komist að því síðastliðið sumar að hann væri búinn að vera í neyslu.
Brynjar var hljóðmaður og starfaði hjá Into The Glacier á Langjökli, hann vann einnig í Hörpu og á fleiri stöðum, enda lifði hann og hrærðist í hljóðbransanum frá 15 ára aldri, en ferilinn hófst með hljómsveitinni Á móti sól.
Kristín Sif upplýsir í viðtalinu við Vikuna að Brynjar hafi tekið eigið líf og hún hafi komið að honum. Hún kom heim um sexleytið að kvöldi mánudagsins 29. október. „Ég stoppaði stutt þar því ég var með einhverja ónotatilfinningu og fór niður með börnin. Þau hlupu beint inn í íbúðina en það sat í mér að Brynjar hafði sagt nokkrum sinnum þarna um morguninn að hann ætlaði að taka til í bílskúrnum svo ég ákvað að fara þangað inn,“ segir hún.
Í viðtalinu segist Kristín meðal annars vera staðráðin í að láta þessa erfiðu reynslu ekki buga sig. Lífið sé eins og hnefaleikabardagi; ef þú ert sleginn í gólfið sé mikilvægt að liggja ekki í gólfinu heldur standa upp og halda áfram.