Lögreglan á Suðurnesjum hefur kært allmarga ökumenn fyrir of hraðan akstur á síðastliðnum dögum. Sá sem hraðast ók mældist á 145 kílómetra hraða á Reykjanesbraut þar sem hámarkshraði er 90 kílómetrar á klukkustund. Þar var á ferðinni erlendur ferðamaður og nemur hraðasektin 210 þúsund krónum.
Þetta kemur fram í skeyti sem lögreglan á Suðurnesjum sendi frá sér í morgun.
Þá segir lögregla að hún hafi haft afskipti af ökumanni sem var með ungan son sinn í framsæti bifreiðarinnar án þess að hann væri í sérstökum öryggisbúnaði fyrir börn.
Lögreglan á Suðurnesjum hefur einnig tekið á annan tug ökumanna úr umferð á undanförnum dögum vegna gruns um vímuefnaakstur.
„Einn þeirra var jafnframt með útsláanlega kylfu í bifreið sinni og telst það vera brot á vopnalögum. Annar, sem ók að auki réttindalaus var ekki fyrr kominn úr sýnatöku á lögreglustöð en til hans sást á Reykjanesbraut þar sem hann var að kasta grjóti á veginn. Hann var því vistaður á lögreglustöð.“